Mosfellsheiði Lögreglumenn og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins unnu á vettvangi rútuslyssins.
Mosfellsheiði Lögreglumenn og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins unnu á vettvangi rútuslyssins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Nokkrar djúpar lægðir sem koma að landinu suðvestanverðu valda umskiptum í veðrinu. Veður verður hvasst og vætusamt á köflum alla vikuna, sérstaklega suðaustanlands, og hlýrra verður í loft en undanfarnar vikur.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nokkrar djúpar lægðir sem koma að landinu suðvestanverðu valda umskiptum í veðrinu. Veður verður hvasst og vætusamt á köflum alla vikuna, sérstaklega suðaustanlands, og hlýrra verður í loft en undanfarnar vikur. Á móti kemur að búast má við hálku á götum og vegum og hafa orðið óhöpp og slys vegna þess. Þannig valt rúta út af veginum á Mosfellsheiði í gær.

Umskiptin í veðrinu eru mikil. Lengi hafa norðlægar áttir verið ríkjandi og veður rólegt en kalt. „Við erum búin að skipta um gír, fáum lægðirnar nær okkur en áður,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Lægðirnar eru nokkuð djúpar og yfirleitt við suðvesturströndina. Skil frá þeim gengu yfir landið í gær, næstu koma í kvöld og enn ein skilin ráða væntanlega veðrinu hér á fimmudag.

Er því útlit fyrir að svipað veður verði næstu daga. Búast má við hvössum sunnan- og suðaustanáttum og vætusömu veðri með köflum, sérstaklega sauðaustanlands, en frekar úrkomulitlu fyrir norðan. Þessari átt fylgir hlýnandi veður þannig að hitinn verður um eða yfir frostmarki. Helga býst við þessu veðri út vikuna, að minnsta kosti.

Ók á kyrrstæðan bíl í skafli

Aðeins snjóaði um helgina en sjóinn tók fljótt upp á láglendi. Nokkur óhöpp urðu á norðanverðu landinu vegna þess. Árekstur varð á Jökuldal en engin slys á fólki. Um klukkan fimm í gærmorgun var lögreglunni á Ísafirði tilkynnt að flutningabíll hefði ekið á kyrrstæðan bíl við Svansvík í Ísafjarðardjúpi. Bíllinn hafði verið skilinn eftir ljóslaus í miðjum snjóskafli. Bílstjóra flutningabílsins sakaði ekki en hann þurfti að bíða lengi í bílnum eftir aðstoð þar sem ekki var hægt að senda hjálp frá Ísafirði vegna þess að vegurinn um Súðavíkurhlíð var lokaður vegna snjóflóðahættu. Þá átti eftir að ryðja veginn um Djúpið.

Þegar rigna fer á snævi þakta vegi og götur myndast klaki og hálka. Fólk átti víða í erfiðleikum vegna þess í gær, meðal annars í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu. Átti það jafnt við gangandi vegfarendur sem akandi. Vegagerðin varaði við hálku eða flughálku víða um land.

Vatnavextir og hálka

Þótt snjó taki fljótt upp af láglendi vegna hlýnandi veðurs er enn kalt á fjallvegum og því má búast við hálku áfram á ýmsum vegum næstu daga.

Alvarlegasta óhappið í þessum aðstæðum varð á Þingvallavegi við Leirvogsvatn á Mosfellsheiði um klukkan 14 í gær. Þá fór rúta með níu ferðamönnum út af veginum og valt á hliðina. Enginn var talinn alvarlega slasaður. Nokkur hálka var á veginum.

Farþegarnir fengu skjól í annarri rútu frá sama fyrirtæki en sú átti leið um Þingvallaveg, skömmu eftir óhappið. Fólkið fékk far með henni til Reykjavíkur. Gengið var í það verk að ná rútunni aftur upp á fjögur hjól.

Vegagerðin varaði við rigningu á Suðaustur- og Austurlandi í gær. Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur segir að helst á þeim slóðum geti orðið vatnavextir, sérstaklega ef það rignir mikið marga daga í röð. Hún segir þó ómögulegt að segja fyrir um þá þróun.

Helga segir einnig mikilvægt að fólk gæti að niðurföllum um allt land, til að tryggja að rigningar- og leysingavatn eigi greiða leið niður í holræsakerfið.