Samfélög sem eru drifin áfram af hugviti og nýsköpun verða leiðandi á meðal þjóða á komandi árum. Þjóðir hafa fjárfest í sífellt auknum mæli í menntun, rannsóknum og þróun til að auka samkeppnishæfni sína og velsæld.

Samfélög sem eru drifin áfram af hugviti og nýsköpun verða leiðandi á meðal þjóða á komandi árum. Þjóðir hafa fjárfest í sífellt auknum mæli í menntun, rannsóknum og þróun til að auka samkeppnishæfni sína og velsæld. Öflugir háskólar eru forsenda þess að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar ásamt því að stuðla að stöðugu og fyrirsjáanlegu starfsumhverfi fyrirtækja.

Ríkisstjórnin setur menntamálin í öndvegi á kjörtímabilinu og hefur boðað að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs. Þessi vilji sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum endurspeglast í fjárlögum ársins 2018. Framlög til háskólastigsins eru aukin um tæpa 2,9 milljarða eða 6,9% miðað við fjárlög 2017. Ljóst er að kennsla og rannsóknir munu eflast með þessari stefnumótun ásamt því að alþjóðlegt samstarf mun styrkjast. Einnig er lögð rík áhersla á að efla gæði í starfsemi háskólanna. Við horfum fram á bjartari tíma í menntamálum og því er brýnt að nýta tækifærið vel og huga að því sem betur má fara í stefnumótun og hvernig við náum meiri árangri. Framundan eru áhugaverðir tímar í háskólasamfélaginu á Íslandi, þar sem þeir vinna að því að undirbúa nemendur sína enn frekar fyrir þær áskoranir sem fylgja tæknibyltingunni og breytingum þeim tengdum í atvinnulífinu. Eitt af því sem verður lögð mun meiri áhersla á í framtíðinni er þverfaglegt samstarf á milli háskóla og atvinnulífs.

Öflugt rannsóknarstarf er forsenda framfara og nýsköpunar, og því leggur ríkisstjórnin áherslu á að skapa góð skilyrði til að efla rannsóknar- og þróunarstarf á Íslandi. Framlög til rannsókna voru aukin í fjárlögunum 2018 ásamt því að hækka framlög til Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands en aukningin nemur tæpum 12%. Þetta mun skila sér í öflugra atvinnulífi og meiri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið. Stefnumótun á Íslandi þarf að taka mið af þeim tækniframförum sem eru að eiga sér stað og hafa verið nefndar „fjórða iðnbyltingin“. Hugtakið vísar meðal annars til þróunar sem er að eiga sér stað á sviði erfðavísinda, gervigreindar, sjálfvirknivæðingar og líftækni. Þessi þróun mun hafa mikil áhrif á lífshætti fólks og kalla fram umtalsverðar breytingar á atvinnulífinu. Vegna þessa er mikilvægt að byggja brú á milli rannsókna og atvinnulífsins til að samfélagið allt sé betur undirbúið fyrir þessa þróun.

Það felast mörg tækifæri í tæknibyltingunni fyrir fámenna en velmenntaða þjóð ef rétt er haldið á málum. Við þurfum að einblína á menntun og efla öll skólastigin til að geta tekist á við þær samfélagslegu áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Höf.: Lilja Dögg Alfreðsdóttir