Grunnskóli Tveir skólar í Reykjavík munu á næsta skólaári taka þátt í tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem lögð verður áhersla á bætta fræðslu.
Grunnskóli Tveir skólar í Reykjavík munu á næsta skólaári taka þátt í tilraunaverkefni til þriggja ára þar sem lögð verður áhersla á bætta fræðslu. — Morgunblaðið/Hari
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Með þessu verður kynfræðsla mun markvissari í skólakerfinu en áður og gefst nemendum, allt frá 1. bekk og upp í 10.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Með þessu verður kynfræðsla mun markvissari í skólakerfinu en áður og gefst nemendum, allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk, tækifæri til að byggja ofan á fyrri þekkingu sína,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastjóri jafnréttismála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til þess að skóla- og frístundaráð hefur nú samþykkt að setja af stað tilraunaverkefni um kynfræðslu í tveimur grunnskólum á næsta skólaári.

Verkefnið byggist á tillögu starfshóps sem skilaði skýrslu sinni í ársbyrjun 2017. Hafa Seljaskóli, félagsmiðstöðin Hólmasel og Heilsugæslan í Mjódd þegar samþykkt að taka þátt í verkefninu, svo og Foldaskóli, félagsmiðstöðin Fjörgyn og Heilsugæsla Grafarvogs. En fræðslustarfið verður á sameiginlegri ábyrgð kennara, frístundaráðgjafa og skólahjúkrunarfræðinga.

Allir hópar með eftir þrjú ár

Aðspurð segir Kolbrún Hrund fræðslu eingöngu fara fram í unglingadeild á fyrsta ári verkefnisins, en á öðru ári mun miðstigið bætast við og á þriðja ári eiga allir nemendur skólanna tveggja að fá kynfræðslu.

„Eins og staðan er núna þá fá nemendur kynþroskafræðslu í 6. bekk og fræðslu um kynlíf, kynsjúkdóma og getnaðarvarnir í 9. bekk, en tíminn sem settur er í kynfræðsluna er oft skammur þó að sumir kennarar sinni þessu vissulega vel,“ segir Kolbrún Hrund og bendir á að tilraunaverkefnið eigi að veita nemendum mun betri fræðslu en nú er gert.

„Það sem við viljum gera með þessu er að víkka út hugtakið „kynfræðsla“. Þannig munum við t.a.m. taka meira tillit til tilfinninga einstaklinga, hópþrýstings hvers konar, marka fólks, samskipta og virðingar. Það verður því áhersla lögð á mun fleiri atriði en einungis kynþroska eða kynlífi,“ segir hún.

Aðspurð segir Kolbrún Hrund yngstu krakka grunnskólanna ekki fá fræðslu um kynlíf heldur fremur um snertingu og eðlileg samskipti. „Þau munu fá fræðslu um vinsamlega snertingu, hvar mörkin liggja, hvernig þekkja skuli eigin tilfinningar og muninn á því að knúsa einhvern sem manni þykir vænt um eða knúsa þann sem maður er mögulega skotinn í. Þá verður einnig fjallað um hvað það er að vera skotinn í einhverjum og hvort það sé í lagi að vera skotinn í stelpu ef maður er sjálfur stelpa eða hvort maður verði að vera skotin í strák,“ segir hún.

Á meðan á tilraunaverkefninu stendur verða hreinlætisvörur, s.s. dömubindi og túrtappar á salernum skólanna og félagsmiðstöðva, auk þess sem smokkar verða einnig aðgengilegir hjá félagsmiðstöðvunum, en tilgangur þessa er m.a. sá að auðvelda ungmennum aðgengi að vörnum og draga úr kynsjúkdómum.