Áslaug Brynjólfsdóttir fæddist á Akureyri 13. nóvember 1932. Hún lést á Landspítalanum 31. desember 2017.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Rósinkarsdóttir húsmóðir, f. 1905 á Kjarna, Arnarneshreppi, d. 1983, og Brynjólfur Sigtryggsson, kennari og bóndi lengst af í Krossanesi, f. 1895 í Skriðu, Hörgárdal, d. 1962. Áslaug var næstyngst systkinanna sjö frá Krossanesi; systir hennar, Sigrún fv. fulltrúi á skrifstofu heimspekideildar Háskóla Íslands, f. 1928, lifir systkini sín, en látin eru: Ragnheiður talsímakona, f. 1923, d. 1947; Þorgerður húsmóðir í Noregi, f. 1925, d. 1996; Ari eðlisfræðingur í Bandaríkjunum, f. 1926, d. 2013; Sigurður Óli kennari og bæjarfulltrúi á Akureyri, f. 1929, d. 1984; og Helga læknaritari, f. 1935, d. 2015.

Áslaug giftist Guðmundi E. Sigvaldasyni, f. 1932, d. 2004, jarðfræðingi árið 1953. Þau skildu. Áslaug og Guðmundur eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Ragnheiður eðlisfræðingur, f. 1954. Hún giftist Sigurði Inga Halldórssyni lögfræðingi, f. 1952. Þau skildu. Hún giftist Jóni Karlssyni lækni, f. 1953. Þau skildu. Jón og Ragnheiður eignuðust dæturnar Áslaugu Láru, f. 1978, og Birgittu Sif, f. 1981. Ragnheiður er gift Daniel Friedan, f. 1948, eðlisfræðingi og eiga þau soninn Benjamín Kára, f. 1992. 2) Birgir dósent, f. 1956. Sambýliskona Birgis var Rut Petersen, f. 1958, og eiga þau Gunnar Erni, f. 1987, og Iðunni Dóru, f. 1992. Birgir og Rut slitu samvistum. Eiginkona Birgis er Ingibjörg Elíasdóttir, f. 1968, lögfræðingur. Börn hennar og stjúpbörn Birgis eru Elías Árni, f. 1995, Arnhildur Guðrún, f. 1998, og Iðunn Arna, f. 2000. 3) Gunnar Bragi, framkvæmdastjóri í Noregi, f. 1960. Gunnar kvæntist Halldóru Grétarsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 1962. Þau skildu. Gunnar og Halldóra eiga dæturnar Dóru, f. 1981, Áslaugu, f. 1989, og Hildi, f. 1994. Gunnar er kvæntur Ullu Uhrskov næringarfræðingi, f. 1963. 4) Guðrún Bryndís barna- og unglingageðlæknir, f. 1963. Guðrún giftist Jóni Gauta Guðlaugssyni kennara, f. 1961. Þau skildu. Guðrún og Jón eiga börnin Sigrúnu Elfu, f. 1987, og Brynjólf Gauta, f. 1990. Eiginmaður Guðrúnar er Kristján Matthíasson hljóðfæraleikari, f. 1961, og börn hans og stjúpbörn Guðrúnar eru Stefán, f. 1982, Ingunn Erla, f. 1994, og Matthías Már, f. 1997.

Seinni maður Áslaugar var Jóhann Gíslason lögfræðingur, f. 1928, d. 2004. Þau hófu sambúð árið 1984 og bjuggu í Kvistalandi 16 í Reykjavík. Börn Jóhanns og stjúpbörn Áslaugar eru: Jóhann, f. 1961, Sigríður, f. 1963, og Þuríður, f. 1968.

Áslaug lauk stúdentsprófi frá MA árið 1952, cand. phil. frá HÍ 1953 og var síðan við nám og húsmóðurstörf í Þýskalandi til 1959 og Bandaríkjunum til ársins 1961. Þegar heim var komið starfaði Áslaug sem stundakennari við Vogaskóla og var síðan framkvæmdastjóri Bóksölu stúdenta í HÍ til ársins 1968. Hún tók kennarapróf frá KÍ 1971 og sérkennslupróf 1986. Þá lauk hún mastersprófi í uppeldis- og kennslufræðum, en sérsvið hennar var samband heimilis og skóla. Áslaug var kennari við Fossvogsskóla 1972 og yfirkennari frá 1973-82, þar af settur skólastjóri um skeið. Árið 1982 var Áslaug skipuð fræðslustjóri í Reykjavík og var það til 1996. Hún varð svo umboðsmaður foreldra og skóla á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur til ársins 2001. Þá settist hún í stjórn Áslandsskóla og var skólastjóri þar 2001-2002.

Áslaug fékk fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum árið 1997.

Áslaug var um lengri eða skemmri tíma í stjórn Fræðslumyndasafns ríkisins, Ríkisútgáfu námsbóka, Stéttarfélags grunnskólakennara, Félags skólastjóra og yfirkennara, Kvenréttindafélags Íslands og Bandalags kvenna í Reykjavík og sat í Menntamálaráði og Fræðsluráði Reykjavíkur. Hún var virk í starfi Framsóknarflokksins, sat þar í miðstjórn og átti oft sæti á framboðslistum. Enn fremur var Áslaug félagi í Alfa-deild alþjóðasamtakanna Delta Kappa Gamma og var formaður Alfadeildar 1986-88. Síðan var hún formaður landssambands DKG 2001-2003. Vorið 2017 fékk hún heiðursviðurkenningu frá samtökunum.

Útför Áslaugar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag, 12. janúar 2018, klukkan 13.

Ef lýsa ætti ömmu minni og nöfnu í einu orði er ég nokkuð viss um að hægt væri að sammælast um orðið einstök. Persónutöfrar hennar í sambland við drifkraft, hvatningu og hlýju er einstök blanda sem ég mun hugsa til og sakna á hverjum degi.

Að eiga ömmu sem nöfnu gerir það að verkum að sjálfkrafa verður hún manneskja sem maður lítur upp til og vill líkjast. Í mínu tilviki má segja að ég hafi verið einstaklega heppin með nöfnu en amma varð mjög fljótt mín helsta fyrirmynd og mun alltaf vera. Afrek ömmu eru ótal mörg og miklu stærri þegar horft er til þess að í hennar tíð þótti alls ekki sjálfsagt að konur menntuðu sig eða hlytu starfsframa. Tala nú heldur ekki um sem fjögurra barna mæður. Amma var einnig mikill kvenskörungur og beitti sér fyrir jafnréttismálum í mörg ár sem var þá engan veginn jafn algengt og það er í dag. Hefur hún hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín og veit ég að áhrifa hennar hefur víða gætt.

Alla tíð hefur amma Áslaug verið stór hluti af lífi mínu og þegar ég hugsa til baka átta ég mig sífellt meira á því hversu þýðingarmikil og dýrmæt hún hefur verið. Ljúfsárar minningar spretta upp í kollinum og erfitt er að hugsa til þess að hún sé ekki lengur hluti af lífi manns.

Amma var alltaf stuðningsmaður númer eitt og hafði trú á manni í einu og öllu. Þegar ég var tíu ára bauð amma mér með sér, afa Jóhanni og Helgu frænku í hringferð um landið. Við eyddum viku á Stöðvarfirði þar sem briddskvöld voru fyrst og fremst á dagskrá og var ég notuð sem fjórði maður. Amma náði á hverju kvöldi að telja mér trú um að ég ætti framtíðina fyrir mér í briddsi og myndi komast í landsliðið hvað úr hverju. Þessu trúði ég og lagði mig fram á hverju einasta kvöldi. Hvort eitthvað hafi verið til í þessu skal ég ekki segja til um, að öllum líkindum vildi hún bara ekki missa fjórða manninn, en þetta lýsir mjög vel sannfæringarkrafti hennar og hvernig hún náði á sinn einstaka hátt að hvetja mann til dáða og telja manni trú um að allt væri hægt ef viljinn væri fyrir hendi.

Amma var einnig mikil keppnismanneskja, til merkis um það svindlaði hún held ég alltaf í kapli. Henni þótti heldur ekkert skemmtilegra en þegar við tókum hana með á handboltaleiki hjá Hildi systur og lifði sig vel inn í leikinn. Hún lét mikið í sér heyra og hvatti sitt fólk til dáða með einlægum hrópum: „Bravó Hildur!“

Á aðfangadag kíktum við systur til ömmu með pakka eins og við höfum jafnan gert. Ólíkt fyrri árum var hún ekki búin að opna eða gægjast í neina pakka og var nokkuð róleg fyrir kvöldinu. Eins og vanalega spurði hún út í skólamál og hvort ég væri ekki örugglega á leiðinni í doktorsnám, eins og ekkert væri sjálfsagðara; ég gæti nú alveg eins gert það eins og allt annað.

Fyrir þessa stuttu heimsókn verð ég ævinlega þakklát sem og síðustu dagana á spítalanum.

Elsku amma mín, þú munt alltaf eiga risastóran stað í hjarta mínu og mun ég sakna þín á hverjum degi.

Þín nafna,

Áslaug Gunnarsdóttir.

Gamlársdagur var einstaklega fallegur í ár, veðrið milt en kalt og sólin lágt á lofti. Reykjavík skartaði sínu fegursta. Áramótin fram undan. Þá um miðjan dag ákvað amma mín Áslaug að kveðja þennan heim. Henni líkt að velja daginn vel. Fallegur og líflegur dagur með flugeldum og veisluhöldum. Dagurinn lýsir henni bara býsna vel. Svona var amma. Falleg, kraftmikil, lífsglöð og einstaklega hláturmild. Amma var einstök kona á svo margan hátt. Hún var næstyngst í sjö systkina hópi, alin upp í Krossanesi. Foreldrar hennar vildu að börnin gengju menntaveginn sem og amma gerði. Lýsingar hennar á því hvernig hún óð snjóinn á veturna, langa leið frá Krossanesi til að komast í skólann uppi á Brekku á Akureyri, voru táknrænar fyrir þær sakir hvað hún þurfti að leggja á sig til að öðlast menntun. Það var ekki sjálfgefið á þessum tímum að konur færu þessa leið. Amma lagði alla tíð mikla áherslu á að við menntuðum okkur og píanóið hennar bar þess merki. Hún var svo stolt af fólkinu sínu að myndir af öllum börnum og barnabörnum með hvítan koll stóðu á píanóinu og, eftir því sem þeim fjölgaði, á veggnum í kring. Einhvers konar stúdentsmyndaaltari. Það var best að vera í miðjunni á píanóinu og myndirnar færðust stundum til, svona eftir því hver var í heimsókn. Okkur krökkunum fannst þetta fyndið enda fer fólk ýmsar leiðir í námi í dag en þetta skipti ömmu miklu máli.

Ég hef tvisvar verið svo lánsöm að fá að búa hjá ömmu, síðast þegar ég var um tvítugt. Þá sátum við amma og afi oft löngum stundum í reykfylltri stofunni og spjölluðum um menn og málefni. Afi færði okkur sérrítár. Alltaf var horft á fréttirnar og þá kom amma með sveskjugraut með rjómablandi og afi gaf okkur ömmu svo fylltan brjóstsykur eða brenni. Amma tók alltaf á móti manni fagnandi og hafði einstakt lag á að telja hverjum og einum trú um að hann væri í uppáhaldi. Hún sauð spaghetti þar til það leystist upp en eldaði hrygg og læri eins og ömmur gera best.

Æviskeið ömmu er fyrir margar sakir svo áhugavert. Hún synti á móti straumnum, hún braut niður glerveggi og lét hrútskýringar ekki á sig fá. Hún var staðföst, trúði á einstaklingsmiðað nám og að öll börn ættu að fá að njóta sín óháð kyni, getu og áhuga. Amma ferðaðist um heiminn með börnin sín, til framandi landa, sá um heimakennslu fyrir þau og varð svo einstæð fjögurra barna móðir með allt of marga bolta á lofti um skeið. Allt þetta í samfélagi sem var um svo margt ólíkt því sem við þekkjum í dag. Ég held því fram að hún hafi verið ein af þessum konum sem ruddu brautina fyrir okkur hinar sem á eftir komu. Braut niður staðalímyndir og hefðbundin viðmið og gildi samfélagsins. Fyrir það er ég henni þakklát. Hún var fyrirmynd.

Ég bý að brosum hennar

og blessa hennar spor,

því hún var mild og máttug

og minnti á – jarðneskt vor.

(Davíð Stefánsson)

Dóra Gunnarsdóttir.

Áslaug móðursystir okkar lætur eftir sig dýrmætar minningar. Hún var skemmtileg kona, vel gefin og glæsileg. Hvar sem hún kom fylgdi ávallt mikil gleði og hlátur. Hún og móðir okkar Sigrún höfðu náið og gott samband alla ævi. Þær voru báðar duglegar, vel menntaðar og áttu mörg börn. Báðar höfðu brennandi áhuga á uppeldis- og menntamálum og báru velferð barna sinna mjög fyrir brjósti. Áslaug starfaði við kennslu stærstan hluta starfsævi sinnar, varð skólastjóri og síðan fræðslustjóri í Reykjavík.

Mamma var fjórum árum eldri en Áslaug. Þegar Áslaug tók gagnfræðapróf tók hún ekki annað í mál en að fara í menntaskóla. Það þótti ekkert sjálfsagt á þeim árum, en hún hafði sitt fram. Það æxlaðist þannig að mamma, sem hafði tekið sama próf fjórum árum áður, fór með henni. Þær voru því samstíga allan menntaskólann og urðu stúdentar saman.

Þær giftu sig líka á sama degi ásamt bróður sínum, Sigurði Óla. Þá var haldin matarveisla í Krossanesi og fóru brúðarpörin þrjú svo öll saman í brúðkaupsferð í Mývatnssveit.

Áslaug og Guðmundur eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í Þýskalandi þegar Ragnheiður og Birgir fæddust og Gunnar fæddist í Bandaríkjunum. Áslaug sá um heimilið og börnin. Þá kom sér vel að hafa góða skólagöngu, áhuga á menntun og metnað fyrir hönd barna sinna. Árið 1967-68 bjó fjölskyldan í El Salvador og þá voru börnin á aldrinum 4-14 ára. Þann tíma hélt Áslaug skóla fyrir öll börnin sín á heimilinu, og fylgdi íslenska kerfinu, þar sem ekki þótti öruggt að setja þau í skóla þar úti.

Áslaug hafði alltaf brennandi áhuga á því sem maður var að gera, spurði og var dugleg að hrósa og gefa af sér. Hún var líka alltaf einstaklega glæsileg og vel til höfð, keypti fallegar gjafir handa okkur og bauð okkur oft heim. Hún kom líka oft í Skólagerði og þau Jóhann, seinni maður hennar, spiluðu gjarnan brids við foreldra okkar og var mikill metnaður þar. Áslaug var líka hagmælt og orti tækifærisvísur þegar á þurfti að halda.

Þær systur þrjár, Áslaug, mamma og Helga, voru nánar og umgengust mikið, ekki síst eftir að þær voru allar orðnar ekkjur. Þær voru með leikhúsmiða saman, fóru á tónleika, hittust og töluðu saman daglega. Andlát Helgu í janúar 2015 var þeim Áslaugu og mömmu mikill harmur.

Fyrir hönd barna Sigrúnar og Jóns Erlings vottum við mömmu, börnum Áslaugar og aðstandendum öllum okkar dýpstu samúð.

Þorgerður Jónsdóttir og Guðrún Ragnheiður Jónsdóttir.

Áslaug móðursystir mín og besta frænka er fallin frá. Hún hefur alltaf verið mér mjög kær. Hún er fyrirmynd mín og ég hef svo oft staldrað við og minnt mig á góð ráð, hlý orð og hvatningu frá henni.

Það var svo gaman að fylgjast með Áslaugu frænku. Krafturinn og eljan, óbilandi trúin á sjálfa sig og aðra, skemmtilegheitin, fordómaleysið, léttleikinn og lífsgleðin. Hún var líka alltaf svo sæt og flott og hafði svo gaman af því að vekja eftirtekt.

Minningar um Áslaugu eru endalaust góðar. Hún lét ekkert sér óviðkomandi og hafði einstakan hæfileika til að gefa af sér, sinna, hjálpa, redda og framkvæma.

Það var alltaf fjör og mikið í gangi þegar Áslaug kom í heimsókn eða þegar við fórum til hennar. Heitar umræður um lífið, tilveruna og pólitíkina. Það var kitlandi skemmtilegt fyrir okkur börnin að heyra fullorðna fólkið rífast og rökræða hátt og mikið en kveðjast alltaf sem bestu vinir.

Ég var 10 ára þegar ég fór með Áslaugu að skoða Fossvogsskóla þar sem hún kenndi. Hún talaði um börnin og verkefnin sem þau höfðu unnið á svo metnaðarfullan og uppbyggilegan hátt að það var unun á að hlusta. Þetta var ómetanleg upplifun. Áhuginn á kennslu og kennsluaðferðum, á nýjungum, straumum og stefnum og jafnframt virðingin fyrir gömlum og góðum aðferðum einkenndu eldmóð hennar. Ég er kennari í dag og afskaplega þakklát fyrir að eiga þessar minningar um Áslaugu, þær veita styrk og gleði.

Elsku Agga, Biggi, Gunni, Guðrún og fjölskyldur, missir ykkar er mikill en minningin um Áslaugu lifir.

Guðrún Eyþórsdóttir.

Áslaug Brynjólfsdóttir, móðursystir mín, var glæsileg kona sem tekið var eftir hvar sem hún kom, eldklár, lífleg og skemmtileg, en umfram allt góðviljuð, hlý og heilsteypt manneskja. Áslaug hafði unun af félagsmálum og var eindregin framsóknarkona í besta skilningi þess orðs. Hún var gríðarlega vinmörg enda kom hún víða við á litríkum starfsferli, meðlimur í ótal félagasamtökum og alls staðar vel kynnt. Hún átti auðvelt með að koma fyrir sig orði og gat kastað fram smellnum tækifærisvísum sem lífguðu upp á stemninguna á fundum og mannfögnuðum.

Ræturnar lágu á æskuheimilinu í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð. Áslaug var næstyngst í hópi sjö samheldinna systkina, en yngst var Helga, móðir mín, sem lést í ársbyrjun 2015. Sigrún, sem verður níræð á þessu ári, lifir ein eftir. Faðir þeirra var Brynjólfur Sigtryggsson, bóndi og kennari, tungumálagarpur og gleðimaður. Móðir þeirra, Guðrún Rósinkarsdóttir, var í föðurætt úr Æðey á Ísafjarðardjúpi. Hún var annáluð fyrir dugnað og eftir lát Brynjólfs stóð hún áfram fyrir myndarbúi í Krossanesi allt til dauðadags árið 1983, með aðstoð Sigurðar Óla, sonar síns. Guðrún, amma mín, þótti talnaglögg með afbrigðum og frægt varð að hún hjálpaði börnum sínum með menntaskólastærðfræðina. Öll voru systkinin góðum gáfum gædd og auk sonanna luku þrjár dætranna stúdentsprófi, sem var ekki sjálfsagt með bændadætur á þeim tíma. Áslaug hélt áfram að mennta sig og lauk kennaraprófi og mastersprófi í uppeldis- og kennslufræðum. Hún varð kennari, yfirkennari, skólastjóri, fræðslustjóri í Reykjavík og loks umboðsmaður foreldra og skóla, auk þess sem hún gegndi margvíslegum öðrum störfum. Á árum áður dvaldist hún með fjölskyldu sinni á erlendri grund, í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Mið-Ameríku. Hún lét sig ekki muna um að halda heimaskóla fyrir börnin sín í El Salvador enda búa þau augsýnilega öll að góðu atlæti í uppvextinum. Ragnheiður varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi í eðlisfræði, Birgir er landsþekktur fréttaskýrandi og háskólakennari á Akureyri, Gunnar stýrir fiskeldi í Noregi og Guðrún Bryndís er yfirlæknir á geðdeild BUGL.

Ég á margar góðar minningar um Áslaugu frænku mína, sérstaklega um fallegt og náið samband hennar við mömmu. Systurnar þrjár, Sigrún, Áslaug og Helga, töluðu saman daglega og hittust oft. Á síðari árum heimsóttu þær Ara, bróður sinn, og Margréti, konu hans, iðulega til Bandaríkjanna og ferðuðust með þeim, m.a. til Kaliforníu, Flórída og Havaí.

Áslaug frænka lét sér ekki bara annt um sína eigin kjarnafjölskyldu heldur líka aðra ættingja og var fús að hjálpa með ráðum og dáð öllum sem til hennar leituðu. Ég heyrði síðast í henni skömmu fyrir jól þegar hún bauð okkur fjölskyldunni í stóra jólaveislu sem hún hugðist halda. Það hefði verið dásamlegt að fá að vera með henni þar en við verðum að sætta okkur við að af því gat ekki orðið.

Það er sannkallaður sjónarsviptir að Áslaugu Brynjólfsdóttur en við yljum okkur við minninguna um þessa miklu öndvegiskonu.

Þórhallur Eyþórsson.

Áslaug Brynjólfsdóttir hefur kvatt þessa jarðvist eftir erfið veikindi. Áslaug kom til starfa við Fossvogsskóla 1972 þegar skólinn hafði starfað í eitt ár. Fossvogsskóli var tilraunaskóli hvað varðaði nýjungar í breyttum kennsluháttum. Árið 1973 var stofnað embætti yfirkennara, sem nú heitir aðstoðarskólastjóri, og var Áslaug ráðin í það starf og gegndi því þar til hún var skipuð fræðslustjóri Reykjavíkur 1982. Skólaárið 1974-75 stýrði hún Fossvogsskóla meðan ég var í námsleyfi erlendis. Fræðslustjórastarfinu gegndi hún til 1996 þegar fræðslustjóra embættin voru flutt frá ríki til sveitarfélaganna. Hún var farsæl í því vandasama starf.

Áslaug átti sem að líkum lætur stóran þátt í uppbyggingu Fossvogsskóla. Hún var strax mjög áhugasöm um þær breytingar sem þar voru á ferðinni og var dugleg að sækja sér framhaldsmenntun, m.a. í Englandi, og dvaldi þar við nám við opinn skóla í Oxfordshire. Hún var dugleg að sækja margháttuð námskeið bæði heima og erlendis. Áslaug var dugleg í öllu sem hún tók að sér varðandi skólann og hafði mikinn metnað fyrir skólans hönd. Á þessum árum eyddu kennarar miklum tíma í vinnu við skólann utan kennslustunda og var hún enginn eftirbátur annarra í því. Hún gat verið nokkuð stjórnsöm á stundum ef henni fannst ekki rétt staðið að málum. Hún bjó yfir góðri málakunnáttu sem kom sér vel, því Fossvogsskóli hafði töluverð samskipti við skóla erlendis. Með þessum fáu minningarorðum eru henni færðar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu skólans.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til barna hennar og fjölskyldna þeirra.

Kári Arnórsson.

Sorgarfregn. Áslaug Brynjólfsdóttir, sú yndislega kona, kvaddi þennan heim síðastliðið gamlárskvöld. Ég er innilega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni, slíka mannkosti sem hún bar með sér. Hún var traustur vinur og af fundi með henni fóru allir upplýstari, bjartsýnni og ánægðir með sig. Hún hafði þessi áhrif á fólk, bæði vitur og mannelsk, brá hinu betra fremur en hinu verra. Áslaug var glæsileg og einstök hæfileikakona, vakti aðdáun hvar sem hún fór, enda sópaði að henni. Sem dæmi um fjölhæfni hennar má nefna að tæki hún þátt í fagnaði af einhverju tilefni setti hún oft saman heilu ljóðabálkana um afmælisbarnið eða félagsskapinn og las upp við mikinn fögnuð, því að ekki var kastað til höndum við kveðskapinn. Og hún var alls ekki einhöm, ól upp fjögur börn og stundaði nám samhliða og í kjölfarið varð hún svo fræðslustjóri Reykjavíkur og síðan skólastjóri í Áslandsskóla þar sem gerðar voru tilraunir með nýja kennsluhætti. Hún stóð þar fyrir nýrri nálgun í lestrarkennslu sem reyndist svo árangursrík að íslensk börn voru á þeim tíma ofarlega í alþjóðlegum samanburði. Hún var framsækin og fylgin sér.

Margir muna eftir Áslaugu þegar hún rak Bóksölu stúdenta upp úr 1970 því byltingarkennd breyting til batnaðar varð á öllu verklagi þar í hennar tíð. Í stað þess að nemendur þyrftu að bíða eftir bókapöntunum sínum vikum saman pantaði Áslaug þær milliliðalaust með hraði; hún gekk jafnan rösklega til verka. Alla sína ævi var hún virk í félögum og samtökum sem létu gott af sér leiða; í sumum þeirra var hún stormsveipur sem blés á haf út úreltum starfsvenjum. Hún var einstaklega vel að sér og fylgdist náið með heimsviðburðum og pólitík heima og heiman; pólitík var henni í blóð borin. Ég á eftir að sakna sárt samverustunda okkar þar sem við tókum tilveruna í gegn, ef svo má segja, bækur sem við lásum og skiptumst á skoðunum, kvennabaráttuna, menntamál og síðast en ekki síst íslenska pólitík, þar sem við höfðum báðar ríkar skoðanir og vorum sammála um flest. Hún var hafsjór af fróðleik um samfélagsmál í bráð og lengd og hafði afar oft sitt eigið sjónarhorn á þjóðfélagið og ruggaði stundum bát hinna hefðbundnu sem sátu við keipinn eins og ekkert hefði breyst í aldanna rás. Hún var einstök á alla lund, hvort sem var í opinberu starfi eða einkalífi. Blessuð sé minning hennar. Ástvinum hennar sendi ég innilega samúðarkveðju.

Ásrún Kristjánsdóttir.

Það er okkur bæði ljúft og skylt að kveðja þessa kjarnakonu með nokkrum orðum og þakka henni fyrir þær minningar sem hún skilur eftir sig. Sérstaklega langar okkur að minnast undirbúnings Evrópuþings Delta Kappa Gamma – Félags kvenna í fræðslustörfum – sem hér var haldið 2003. Evrópusvæðið hafði þá verið stofnað fyrir skömmu og ekki mikil reynsla af að halda Evrópumót. Áslaug var landssambandsformaður Delta Kappa Gamma á Íslandi 2001-2003 og við vorum fjórar skipaðar í undirbúningsnefnd með henni. Formaður þeirrar nefndar var Sigríður Jónsdóttir en aðrar í nefndinni með Áslaugu voru Kristín Bjarnadóttir, Sigrún Jóhannesdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir, sem var jafnframt Evrópuforseti. Allar vorum við í krefjandi störfum og skipulagning ráðstefnunnar fór mikið til fram um helgar. Þá fórum við gjarnan í sumarbústað og unnum daginn langan við undirbúninginn. Þetta starf var ákaflega skemmtilegt og eftirminnilegt. Svo vel fór á með okkur að við fluttum erindi á alþjóðaþingi samtakanna árið eftir um hvernig væri hægt að skemmta sér yfir vinnufrekum ráðstefnuundirbúningi. Við sýndum myndir af fundum okkar, m.a. af okkur í heitum potti með kampavínsglas í hendi og kennara annarra þjóða undruðust hversu skemmtilegt þetta hafði verið hjá okkur. Við fimm héldum svo áfram að hittast og skemmta okkur löngu eftir að ráðstefnan var að baki. Áslaug var einstök í þessum undirbúningi og hún tók það erfiða verkefni að sér að afla fjár. Þar kom vel fram hversu vinamörg Áslaug var og hvað henni var eiginlegt að ná því besta fram hjá öllum. Enginn gat sagt nei við hana. Með brosi, hlýju og gamansemi náði hún alla tíð því besta fram hjá þeim sem hún var í samskiptum við. Svona var hún og svona munum við minnast hennar og kveðjum hér góða vinkonu og frumkvöðul í fræðslumálum landsins.

Sigrún Klara

Hannesdóttir,

Sigrún Jóhannesdóttir,

Sigríður Jónsdóttir,

Kristín Bjarnadóttir.

Mikil heiðurskona er hnigin til foldar. Áslaug Brynjólfsdóttir var miklum gáfum gædd, glæsileg, listræn og framsækin mennta- og menningarkona.

Í huga mínum ríkir sorg við fráfall kærrar stallsystur og vinkonu í fjóra áratugi. Leiðir okkar lágu saman varðandi skóla- og fræðslumál Reykjavíkurborgar og í félögum er unnu að réttindum og framgangi kvenna – og að hugsjónum Framsóknarflokksins.

Áslaugu var í blóð borinn neistinn til að fræða og miðla og gerði það með einstaklega liprum og ljúfum hætti. Enda helgaði hún líf sitt fræðslumálum að segja má frá öllum hliðum. Áslaug setti sig aldrei á háan hest og leit á öll störf við uppfræðslu barna og ungmenna jafn mikilvæg. Hún var fræðslustjóri í Reykjavík í ein fjórtán ár, þar ruddi hún braut kvenna. Stjórnunarstöður innan skólakerfisins voru þá fyrst og fremst í höndum karla. Það gat reynt á að vera kona og meirihluta borgarstjórnar þess tíma ekki þóknanlegur fræðslustjóri. Áslaug var ávallt framsækin og sókndjörf og varð fyrsti umboðsmaður foreldra og skóla í nýju embætti þegar grunnskólinn var fluttur alfarið til sveitarfélaga árið 1996. Hún skynjaði vel nýja strauma í samfélaginu og hvatti til meiri samvinnu við foreldra. Aukið samstarf heimila og skóla var heillaspor.

Áslaug var líka með þeim fyrstu sem ræddu opinberlega um nauðsyn á að allir skólar væru einsettir, þ.e. að öll börn hæfu skólanámið að morgni. Eftirminnilegt skólaþing var haldið á vegum framsóknarkvenna í byrjun níunda áratugarins, þar hélt Áslaug merka ræðu um tækninýjungar í skólastarfi og ræddi þar um „tölvuvætt“ skólastarf framtíðarinnar. Margir vissu varla á þeim árum hvað tölva var.

Við undirbúning og framgang funda, ráðstefna og veislna um hin margvíslegustu málefni skipti oft sköpum listrænt auga, ljóðmæli og stjórn Áslaugar. Enda heillaði hún fólk jafnt á Kvennaþingi í Ósló, fræðslukvennafundum í Bandaríkjunum eða Reykjavík, meðal annars með ljúfum frumsömdum kveðskap um stef funda.

Framsóknarkonur í Reykjavík héldu fyrir fimm árum glæsilegt málþing um Rannveigu Þorsteinsdóttur, fyrstu þingkonu okkar. Áslaug lagði þar gjörva hönd á plóg og hélt snjalla ræðu. Ríkisútvarpið tók í kjölfarið saman þátt um Rannveigu og flutti brot úr ræðum og skemmtiatriðum frá málþinginu. Við fyrrverandi formenn Félags framsóknarkvenna í Reykjavík höfum haldið hópinn og átt margar góðar stundir saman bæði innan bæjar sem utan, en „nú er hún Snorrabúð stekkur“.

Það var einkar ánægjulegt að Áslaug kom á fjölmennt skemmtikvöld í Reykjavik í lok október, sem við héldum í tilefni kosninganna. Baráttuvilji og eldmóður ríkti hjá henni fram á síðustu stundu.

Að hafa átt því láni að fagna að eiga Áslaugu Brynjólfsdóttur að vini er dýrmæti sem ekki gleymist. Hún var fáguð heimskona enda dvaldi hún ung að árum víða um heim með fyrri manni sínum. Þau eignuðust fjögur mannkostabörn. Ég votta þeim og öllum afkomendum hennar dýpstu samúð mína. Blessuð sé minning Áslaugar Brynjólfsdóttur.

Sigrún Magnúsdóttir.

Það vekur saknaðarkennd vinum Áslaugar Brynjólfsdóttur að fylgja henni til grafar, en um leið áminningu um að gera fordæmi hennar að eftirdæmi um trúverðugleika, ærlegheit og dugnað.

Áslaug fæddist og óx upp í Ytra-Krossanesi við Eyjafjörð, steinsnar norðan Akureyrar sem enn var Glæsibæjarhreppur og Glerárþorp og markalínur sveitarfélaganna varla í samræmi við raunveruleika atvinnulífsins, enda kom að því að Krossanes og Þorpið sameinuðust Akureyrarkaupstað öllum til hagsbóta. Ytra-Krossanes var talin góð bújörð gegnum aldirnar og þótt foreldrar Áslaugar byggju aðeins á hálfri jörðinni var afkoma bænda í Eyjafirði góð vegna tilkomu og áhrifa Kaupfélags Eyfirðinga. Foreldrar Áslaugar Brynjólfsdóttur gátu því sett börn sín til mennta, enda voru þau hjón sjálf vel menntuð. Reyndust systkinin úrvals námsmenn og atkvæðafólk á sviði mennta og vísinda og Áslaug dugleg og framkvæmdasöm að hverju sem hún gekk: s.s. í menntamálaráði, í stjórn Stéttarfélags grunnskólakennara, í stjórn Félags skólastjóra, sem skólastjóri Fossvogsskóla og fræðslustjóri í Reykjavík og í miðstjórn Framsóknarflokksins.

Áslaug Brynjólfsdóttir var fríðleikskona, sönn dama, sem kunni sig vel og kom sér vel. Þannig lifir hún í minningunni.

Ingvar Gíslason.

Áslaug var einstök kona, hæfileikarík og heilsteyptur persónuleiki. Verk hennar bera merki um metnað og framsýni. Í eðli sínu var hún frumkvöðull og hafði djúpa innsýn í mannlegt eðli sem nýttist henni til að miðla málum og leita lausna. Hún var öflug félagshyggjukona, sönn kvenréttindakona, flokksmaður af lífi og sál og hafði mikil áhrif á samferðamenn sína.

Hún var glaðlynd og vel hagmælt og hafði yndi af því að setja saman vísur sem samferðamenn hennar nutu á góðum stundum. Áslaug var mjög virk í starfi Framsóknarflokksins, stóð fyrir mörgum fundum þar sem hún miðlaði sinni sýn, sat í miðstjórn í fjöldamörg ár og átti oftar en ekki sæti á framboðslistum.

Samfélagsmál voru Áslaugu hugleikin alla tíð. Hún bar hag barna fyrir brjósti og vildi efla menntamál. Áslaug áttaði sig á þeirri umhyggju sem hverju samfélagi er nauðsynleg til að það fái að þróast í takt við aðrar þjóðir. Helstu verk hennar sem fræðslustjóri voru að koma á skólastefnu, koma á samfelldum skóladegi og styrkja íslenskukennslu. Þá taldi hún nauðsynlegt að efla verk- og tæknimenntun fyrir framtíðina og tryggja að unga kynslóðin ætti þess kost að læra á tölvur.

Áslaug starfaði í mörgum kvennasamtökum og kom að stofnun Landssambands framsóknarkvenna með stöllum sínum úr Félagi framsóknarkvenna í Reykjavík fyrir tæpum 40 árum. Á þeim tíma voru sjónarmið kvenna lítt í umræðunni og stjórnmálaþátttaka þeirra takmörkuð. Framsóknarkonur vildu breytingar og vissu að forsenda þess að raunverulegt jafnrétti myndi nást væri að auka hlut kvenna á hinu pólitíska sviði. Framsóknarkonur í Reykjavík unnu ötullega að stefnumálum flokksins ásamt því að styrkja ýmis málefni með sérstaka áherslu á hag fjölskyldunnar. Samheldni þeirra og samvinna smitaði út frá sér og flokkurinn átti dyggan stuðning í félaginu. Fyrir hönd Framsóknarflokksins vil ég þakka konunum fyrir óeigingjarnt framlag í þágu flokksins við hin ýmsu þjóðþrifamál sem hafa gert samfélag okkar sterkara og réttlátara.

Framsóknarflokkurinn veitti Áslaugu jafnréttisviðurkenningu á flokksþingi árið 2005 og var hún vel að viðurkenningunni komin.

Minningin um öfluga félagshyggjukonu lifir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður

Framsóknarflokksins.

Áslaug Brynjólfsdóttir var merk kona og mikill brautryðjandi í fræðslustörfum á Íslandi. Hún tók þátt í uppbyggingu Fossvogsskóla sem kennari, yfirkennari og skólastjóri á mótunarárum opins skóla með opna starfshætti. Áslaug var fyrst kvenna til að gegna stöðu fræðslustjóra á Íslandi. Hún var mikil kvenréttindakona og félagsvera og sat í ýmsum stjórnum; Bandalags kvenna í Reykjavík, Kvenréttindafélagsins, kennarafélags og skólastjórafélags Reykjavíkur. Hún var um skeið í fræðsluráði og einnig í menntamálaráði og menningarsjóði í 18 ár.

Áslaug gekk í Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum, árið 1978 og hefur verið félagi í samtökunum síðan og virk fram til síðasta dags. Delta Kappa Gamma eru alþjóðleg samtök sem eiga rót sína að rekja til Bandaríkjanna. Áslaug var félagskona í Alfadeildinni, fyrstu deild félagsins á Íslandi sem stofnuð var 1975, en nú eru deildirnar þrettán um land allt. Áslaug var virk félagskona og sótti síðast jólafund Alfadeildar í byrjun desember. Þar var hún glöð og kát og lék á als oddi.

Áslaug tók að sér ýmis ábyrgðarstörf í Delta Kappa Gamma. Hún var formaður Alfadeildar 1986-88. Hún var formaður landssambands Delta Kappa Gamma 2001-2003. Árið 2003 var haldin Evrópuráðstefna Delta Kappa Gamma á Íslandi og mættu 200 konur til landsins til að sitja ráðstefnuna. Áslaug bar ábyrgð á skipulagi, fjármögnun og innihaldi ráðstefnunnar sem forseti sambandsins. Hún flutti opnunarræðu og ræddi um kvenskörunga og benti meðal annars á að sambærilegt orð sé vandfundið í öðrum tungumálum. Hugsanlega ætti það sinn þátt í því hve jafnréttisbaráttan hefði gengið vel á Íslandi, þar sem fyrsti kvenforseti í heimi væri íslensk kona. Áslaug var einnig formaður menntamálanefndar Delta Kappa Gamma og opnaði vorþing landssambandsins árið 2000 og stóð að útgáfu rits DKG „Skólinn og fjölskyldan með barnið í brennidepli til 18 ára aldurs“. En samskipti skóla og heimila voru henni hjartfólgið umfjöllunarefni.

Áslaug Brynjólfsdóttir fékk viðurkenningu fyrir framlag sitt til fræðslumála á landssambandsþingi DKG á Akureyri í maí 2017. Áslaug var mjög þakklát fyrir viðurkenninguna og stolt af henni.

Á uppvaxtarárum Áslaugar var ekki sjálfgefið að stúlkur gengju menntaveginn. En Áslaug var ákveðin í því að mennta sig. Hún bjó í Krossanesi, en gekk langa leið í Grunnskóla í Glerárþorpi. Hún gekk einnig í Gagnfræðaskóla og Menntaskóla á Akureyri, en það var klukkutíma gangur hvora leið. Hún var orðin 38 ára og fjögurra barna móðir, þegar hún hóf kennaranám. Hún fór víða um heim og bjó m.a. í Þýskalandi, Bandaríkjunum og El Salvador auk Íslands. Hún lærði m.a. þýsku og tengsl germanskra mála í Þýskalandi.

Áslaug var einstök kona, lifandi og skemmtileg með mikla frásagnargáfu og líf hennar hefur verið litríkt. Það er mikill missir að Áslaugu, jákvæðni hennar, dugnaði og gleði. Við félagskonur í Alfadeildinni söknum góðrar vinkonu og félaga. Við sendum fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Áslaugar Brynjólfsdóttur.

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir,

formaður Alfadeildar.

Í dag kveðjum við Áslaugu Brynjólfsdóttur, vinkonu okkar og samstúdent í MA 1952. Á okkar námsárum voru menntaskólarnir aðeins tveir, MR og MA. MA hafði heimavist og þar kynntust nemendur og tengdust systkinaböndum sem styrktust síðar á ævinni, einkum þegar menn luku starfsferlinum og fóru á eftirlaun. Þetta tímaskeið ævinnar gat verið mjög frjótt og gefandi og fór það eftir atorkusemi einstaklinganna í hverjum árgangi. Í okkar hópi, samstúdentar MA-52, vorum við svo lánsöm að Áslaug tók forystu og fór að skipuleggja samkomur og ferðalög sem urðu mjög vinsæl og fjölsótt. Brátt var farið í tveggja daga ferðir og voru valdir þekktir sögustaðir og var sagan rakin og frásagnir af örlagaríkum atburðum. Gist var á hóteli og var kvöldverðurinn oft kryddaður með lýsingu á starfsferli félaganna. Einn bekkjarfélaganna, Gylfi Pálsson, var fararstjóri og kynnti hann sögu staðarins hverju sinni, orrustur og merkismenn og -konur sem komu við sögu. Áslaug var framkvæmdastjórinn, hún pantaði rútuna, hótelið, matinn o.s.frv. og var mjög hagsýn. Hún undirbjó ferðirnar mjög vel, boðaði súpufundi til að ræða undirbúninginn og taka ákvarðanir. Slíkar ferðir voru orðnar margar þegar við loks drógum saman seglin fyrir ári. Áslaug er okkur minnisstæð sem skemmtilegur og umhyggjusamur félagi, sem afburða námsmaður, mikilvirkur kennari, skólastjóri og fræðslustjóri í Reykjavík en um þá þætti munu aðrir fjalla. Við kveðjum góðan vin og félaga og vottum aðstandendum samúð okkar.

Sigmundur Guðbjarnason.

Vinkona og samherji okkar sem sæti áttum í stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík á árunum 1985 til 1991, frú Áslaug Brynjólfsdóttir, kennari, skólastjóri og síðar fræðslustjóri í Reykjavík, er nú látin. Við vorum sautján að tölu, stjórnarkonurnar á þessum tíma, og höfum haldið góðu sambandi hver við aðra öll þau ár sem síðan eru liðin, hist reglulega og rætt hugðarefni okkar. Við það hefur skapast góð persónuleg vinátta sem enn stendur föstum rótum meðal okkar sem enn erum á lífi.

Áslaug var glæsileg kona sem alltaf sópaði að, hlý í viðmóti, sanngjörn og málefnaleg. Við vinkonurnar sem vorum svo lánsamar að eiga samleið með henni á seinni hluta ævinnar söknum hennar og kveðjum með virðingu og þökk.

Blessuð sé minning góðrar og mikilhæfrar konu.

Fyrir hönd stjórnar Bandalags kvenna í Reykjavík starfsárin 1985-1991,

Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður.

Þegar ég rifja upp kynni mín af Áslaugu koma orð eins og leiftrandi greind, leiðtogi, starfsgleði, dugnaður og þrautseigja strax upp í hugann. Ég átti því láni að fagna að starfa við hlið Áslaugar um árabil auk þess sem kynni okkar þróuðust í einlæga vináttu sem varð dýrmætari með hverju árinu. Hún gaf mikið af sér og var mér mikilvæg fyrirmynd í mörgu tilliti.

Leiðir okkar Áslaugar lágu fyrst saman þegar við hófum störf við Fossvogsskóla haustið 1972, ég þá nýútskrifaður kennari. Skólinn var þá nýlega tekinn til starfa og hafði þá sérstöðu að vera opinn skóli, tilraunaverkefni sem kallaði á mikla samvinnu starfsmannahópsins, sem var fámennur og þéttur. Menn deildu gjarnan reynslu sinni á litlu kennarastofunni og studdu við bak hver annars. Áslaug var óspör á hvatningu og hrós og var í blóð borinn faglegur metnaður.

Framhald varð á samstarfi okkar Áslaugar allnokkru síðar þegar hún réði mig til starfa sem sérkennslufulltrúa á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis haustið 1990. Við áttum í kjölfarið mikið og farsælt samstarf sem gjarnan tengdist úrlausn flókinna og viðkvæmra mála sem brýnt var að finna viðunandi flöt á og uppbyggingu sérhæfðra kennsluúrræða, s.s. sérdeilda fyrir einhverf börn. Það var alltaf hægt að leita til Áslaugar og fá hennar álit. Starf fræðslustjórans var sannarlega erilsamt og margir boltar á lofti en þrátt fyrir mikið annríki tók hún sér ætíð tíma til að hlusta og lét sig varða hvert og eitt mál. Hún hafði einstakt lag á að virkja krafta fólksins í kringum sig, hafði trú á sínu fólki og var ætíð opin fyrir hvers kyns nýbreytni sem gat orðið skólastarfi til framdráttar og gefið nemendum ný tækifæri. Tæpast verður deilt um að Reykjavíkurborg var á þessum tíma í forustuhlutverki á fjölmörgum sviðum varðandi nýjar áherslur í skólastarfi s.s. greiningu á lestrarvanda, nýsköpunarstarf og danskennslu innan grunnskólanna.

Ekki má gleyma þeim góða eiginleika Áslaugar að vera frjálsleg í fasi og taka sig ekki of hátíðlega. Hún kunni svo sannarlega að gleðjast og slá á létta strengi með sínu fólki. Það var því oft glatt á hjalla og mikið hlegið í návist hennar á Fræðsluskrifstofunni.

Ég hitti Áslaugu síðast 10. nóvember síðastliðinn, en þá hittumst við stöllur í Gáfukvennafélaginu svokallaða; nánar samstarfskonur Áslaugar á Fræðsluskrifstofunni í hennar tíð sem fræðslustjóra. Það höfum við gert árlega með tilheyrandi umgjörð og borið saman bækur um framvindu í menntamálum og fleira áhugavert hverju sinni. Sú sem hafði frumkvæði að stofnun félagsins og gaf því nafn var Guðrún heitin Þórsdóttir, sem féll frá í blóma lífsins og er sárt saknað. Eins og nærri má geta var Áslaug þungavigtin með tilliti til nafngiftar félagsins. Þrátt fyrir að hún ætti orðið erfitt með að fara um lét hún það ekki aftra sér frá því að koma og hafði á orði þegar við kvöddum að það væri svo gaman og mikilvægt að hittast að við þyrftum að hittast oftar. Það þótti okkur hinum afar vænt um.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Eyrún Ísfold Gísladóttir.

Víða eru vegamót.

Vinir og ættingjar kveðjast og halda svo hver sína leið.

Undir björtu skini ofurmánans fagra reikar hugur minn aftur til haustsins 1951 þegar stúdentsefni MA flykktust inn í kennslustofur gamla skólans, sumir heilsandi gömlum félögum en aðrir könnuðust varla við nokkurn mann. Ég var ný í bekknum. Þegar fram liðu stundir fór ég að gefa einni bekkjarsystur minni gaum fyrir glæsileik og fjör. Hún var námskona mikil, elskaði söng og dans og var félagslynd með afbrigðum.

Þarna var komin Áslaug Brynjólfsdóttir, ættuð frá Krossanesi, sem var við utanverðan Eyjafjörð. Áslaug ólst upp í stórum og mannvænlegum systkinahópi í hlýju og kærleiksríku skjóli hæfileikaríkra foreldra, þar sem andi menningar og manndóms sveif yfir vötnum. Vonir foreldranna rættust, börnin fóru öll menntaveginn og luku prófum með glans frá MA og til merkustu háskóla. Þau urðu eftirsóttir starfskraftar og oftar en ekki yfirmenn og stjórnendur.

Nú lít ég aftur til baka til 17. júní 1952, þar sem við stúdentarnir stóðum í hópi með hvítu kollana á höfðinu og komið var að kveðjustund og óráðin framtíð beið okkur.

Ég var á því þroskastigi að ég ríghélt mér í þátíðina, rétt dýfði tá í nútíðina en framtíðin var mér eins og geimvísindi. Það var allt annað uppi á teningnum hjá Áslaugu. Hún var búin að festa ráð sitt. Unnustinn var glæsilegur stúdent úr öðru skólaumhverfi og þau Áslaug búin að kortleggja framtíð sína langt fram í tímann. Hann var að fara í langt nám í jarðvísindum en hún setti sína menntunarmöguleika á bið, en steig seiglu sína og óeigingirni í botn til að styðja eiginmann sinn. Þau fóru með börn sín, sem voru orðin fjögur, milli hinna ólíkustu landa og bjuggu oft við aðstæður sem fáar konur hefðu staðið sig í, en hún var ekki alin upp með uppgjöf sem valmöguleika!

Áslaug naut mikils barnaláns. Afkomendur hennar hafa upp til hópa skarað fram úr á fjölmörgum sviðum, m.a. listgreina og vísinda.

Ekki höfðum við Áslaug kynnst ennþá. Nokkur ár liðu, en svo sneri hún heim með börnin sín. Við vorum þá báðar orðnar einstæðar mæður með samtals sjö börn. Þá loks lágu leiðir okkar saman og héldu vináttuböndin óslitin allt til enda. En hvaða öfl voru þar að verki? Trúlega sameiginleg áhugamál, svipað skopskyn, ljóð og tónlist. En fyrst og fremst börn og velferð þeirra.

Áslaug lauk kennaraprófi með láði og varð strax virt sem kennari, skólastjóri og síðar fræðslustjóri. Hún var í mörgum félögum, til dæmis Delta Kappa Gamma, alþjóðlegu félagi kvenna í fræðslustörfum – þar sinnti hún ýmsum stjórnunarstörfum og sótti sem slík mörg þing út um heim. Allt sem hún tók að sér vann hún af lífi og sál, ekki síst að því að halda félögum okkar úr MA saman. Hún var ekki aðeins potturinn og pannan í leik og starfi, hún var líka eldurinn sjálfur sem undir kraumaði.

Þín verður lengi minnst, kæra vinkona, því fólki eins og þér er ekki hægt að gleyma.

Herdís Egilsdóttir.

Ég kveð með söknuði vinkonu mína Áslaugu Brynjólfsdóttur. Leiðir okkar lágu fyrst saman haustið 1986 þegar ég gerðist kennsluráðgjafi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Áslaug var fræðslustjóri og var samvinna okkar frá fyrsta degi afar góð. Hún var skilningsríkur stjórnandi og treysti samstarfsfólki sínu af heilindum. Það ríkti glaðværð og mikill áhugi fyrir bættum kennsluaðferðum. Hún studdi alla góða framþróun í grunnskólum borgarinnar, meðal annars stuðlaði hún að mikilli samvinnu við Kennaraháskólann. Sem dæmi um þá góðu samvinnu kom hún á starfsleikninámi í nokkrum grunnskólum borgarinnar þar sem lektor við KHÍ þjálfaði leiðbeinendur með vönduðu námi og hafði síðan yfirumsjón með náminu í grunnskólunum. Hún studdi líka stofnun deildar við KHÍ sem annaðist sértæka lestraraðstoð við nemendur. Einnig stóð hún fyrir þýðingu og staðfærslu á lestrarprófum sem reynst höfðu vel í Danmörku , en með þeim var unnt að meta lesskilning nemenda á aldrinum 8–11 ára og í samvinnu við Menntamálaráðuneytið voru samin lestrarpróf fyrir 12 ára nemendur sem sérstaklega mældu lesskilning nemendanna. Mörg námskeið voru haldin fyrir grunnskólakennara í náinni samvinnu kennsluráðgjafa Fræðsluskrifstofunnar og kennara KHÍ, þar sem kennarar úr fjölmörgum skólum borgarinnar komu saman til að fylgjast með því besta sem þekktist í hinum ýmsu greinum og má þar sérstaklega nefna lestrarkennslu, stærðfræði og náttúrufræði. Hún lagði ríka áherslu á gott samstarf við félagið „Heimili og skóli“ og átti góða samvinnu við fræðslustjóra Norðurlandaríkjanna. Hún efndi líka til skólaheimsóknar til Kína með skólastjórum borgarinnar. Aðeins fátt eitt er hægt að nefna af öllu því sem Áslaug stuðlaði að til bætts skólastarfs í borginni.

Eftir að leiðir skildu við vinnu varðandi skólamál héldum við fimm samstarfskonur áfram að hittast árlega og síðast vorum við fjórar saman á Kjarvalsstöðum 10. nóvember þar sem Áslaug var hress að vanda þó að líkaminn væri farinn að gefa sig. Hún hafði verið skömmu áður á fundi með framsóknarmönnum og var áhugasöm um þjóðmál og ekki síst skólamál. Við áttum skemmtilega stund saman og ákváðum að hittast bráðlega aftur. Um jólin sendi Áslaug okkur Jóni yndislega og innihaldsríka jólakveðju sem ég mun halda upp á sem hinstu kveðju frá henni.

Við Jón Freyr þökkum Áslaugu fyrir frábært samstarf og vináttu og biðjum henni blessunar. Börnum Áslaugar og öllum afkomendum hennar vottum við innilega samúð.

Matthildur Guðmundsdóttir.

Áslaug Brynjólfsdóttir var kvenskörungur. Hún var einn af brautryðjendunum innan kvennahreyfingar Framsóknarflokksins og meðal þeirra forystukvenna flokksins sem höfðu mikil áhrif á framgang kvenna innan hans. Áslaug var víðsýn kvenréttindakona og átti ekki í vandræðum með að sjá skýrt hvert flokkurinn ætti að stefna. Hann skyldi leggja áherslu á fullt jafnrétti, bæði hvað málefnin varðaði sem og þátttöku kvenna að fullu til jafns við karla í öllum valdastöðum. Hún var ekkert fyrir hálfkák í þessum efnum, talaði tæpitungulaust og beint frá hjartanu á samkomum flokksins. Þegar hún talaði sperrtu hlustendur eyrun, enda spillti það ekki fyrir að hún hafði húmor í betra lagi. Það var því stórskemmtilegt og uppbyggilegt að hlýða á röksemdir hennar. Flokkurinn mat félagsstarf Áslaugar og voru henni veitt Jafnréttisverðlaun Framsóknarflokksins ásamt stöllum sínum þeim Sigrúnu Magnúsdóttur og Sigrúnu Sturludóttur árið 2005 fyrir framúrskarandi jafnréttisstarf, m.a. undirbúning stofnunar Landssambands framsóknarkvenna. Við þau tímamót þakkaði Áslaug verðlaunin með vísu;

Konum í Framsókn fjölgar nú skjótt,

félög ný stofnuð á koldimmri nótt.

Þeim karlpeningi sem kvinnurnar hræðist,

kannski grunur og ótti að þeim nú

læðist,

að kvennanna valdarán kom' alltof fljótt.

Nú að leiðarlokum vil ég þakka fyrir þau lóð sem Áslaug lagði á vogarskálar framsóknarkvenna, þar á meðal mínar, í flokksstarfi hennar til áratuga. Einnig þakka ég hlýhug hennar og hvatningu, sem skipti máli á ögurstundu. Það eru kvenréttindakonur eins og Áslaug sem valda því að konur gefast ekki upp heldur halda áfram að berjast innan stjórnmálahreyfinga þótt fast blási á móti um stund. Þær skilja og hvetja. Fjölskyldu Áslaugar og vinum votta ég mína innilegustu samúð við fráfall hennar.

Guð blessi minningu Áslaugar.

Siv Friðleifsdóttir.

Merkur frumkvöðull og forystukona á sviði menntamála hefur kvatt okkur. Áslaug Brynjólfsdóttir var framsækin kona sem brann fyrir mennta-, uppeldis og jafnréttismál. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum frá Akureyri árið 1952 og cand.phil frá HÍ ári seinna, eftir það lá leið hennar til útlanda. Hún lauk síðan kennaraprófi frá KÍ 1971 og sérkennsluprófi 1986 en auk þess var hún með meistarapróf í uppeldis- og kennslufræðum frá KÍ 1988.

Hún átti farsælan feril að baki innan menntakerfisins, ýmist sem kennari, yfirkennari; skólastjóri og fræðslustjóri í Reykjavík í 14 ár. Það er sama hver er spurður, alltaf var vitnisburður hennar afburðagóður og var Áslaug margrómuð fyrir fagmennsku sína, vinnusemi og glaðlyndi. Hún barðist fyrir bættu skólastarfi í Reykjavík og hafði metnað fyrir góðri menntun barna og ungmenna. Henni fannst oft ganga hægt að breyta rótgrónu skólakerfi. Svo vitnað sé til orða Áslaugar þá skrifar hún 1992: „Því miður er öllu skólastarfi þröngur stakkur skorinn. Hér er enn tvísetinn skóli, skólatími hefur ekki lengst og tímaskortur hrjáir allt skólastarf. Skólanum hafa ekki verið búin skilyrði til að gegna því hlutverki sem honum er ætlað að sinna.“ Áslaug var yfirkennari við Fossvogsskóla þegar skólinn var tilraunaskóli með opna kennsluhætti. Óhætt er að fullyrða að sú fagmennska, sköpun og kraftur sem einkenndi skólastarfið á þessum árum hafi verið upphafið af því sem nú einkennir skólastarf víða um land.

Áslaug var víðförul og dvaldi oft í útlöndum til lengri tíma. Hún og fjölskylda hennar bjuggu í heilt ár í El Salvador á vegum Sameinuðu þjóðanna ásamt því að hafa búið í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Áslaug tók einnig mjög virkan þátt í alþjóðlegu starfi á vegum Delta, Kappa, Gamma, Félags kvenna í fræðslustörfum. Má þar sérstaklega nefna þátttöku í skipulagningu veglegrar Evrópuráðstefnu á vegum samtakanna í Reykjavík árið 2003. En yfirskrift ráðstefnunnar var: Gróska – hæfni – forysta.

Framsóknarflokkurinn var þess heiðurs að njótandi að hafa Áslaugu Brynjólfsdóttur innanborðs. Hún var alla tíð virkur félagsmaður og lagði sín lóð á vogaskálarnar í flokksstarfinu við góðan orðstír. Hún var ötul baráttukona fyrir jafnrétti og vann að stofnun Landssambands framsóknarkvenna árið 1981. Áslaug var sæmd jafnréttisviðurkenningu Framsóknarflokksins árið 2005. Ég hitti Áslaugu síðast í kosningabaráttunni síðastliðið haust, þegar fyrrverandi ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokksins héldu góðan fund til að styðja við baráttuna. Sú mikla hvatning sem Áslaug veitti er mér ógleymanleg. Á sama tíma og ég vil þakka Áslaugu fyrir hennar ómetanlega og óeigingjarna starf í þágu Framsóknarflokksins og til mennta- og uppeldismála, votta ég ættingjum hennar innilega samúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- menningarmálaráðherra.