Jóhanna Guðbjörg Ólafsdóttir fæddist á Syðstu-Mörk í Vestur-Eyjafjallahreppi 2. ágúst 1928. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða, Akranesi, 4. janúar 2018.

Foreldrar Jóhönnu voru þau Ólafur Ólafsson, bóndi í Syðstu-Mörk, f. 24. maí 1891, d. 13. júlí 1973, og Halla Guðjónsdóttir, húsfreyja í Syðstu-Mörk, f. 7. ágúst 1892, d. 7. apríl 1970. Systkini Jóhönnu voru Sigríður, f. 1921, d. 2012, Guðjón, f. 1922, Ólafur, f. 1924, Sigurveig, f. 1925, Sigurjón, f. 1927, d. 1992, Árni, f. 1931, d. 2014, og Ásta, f. 1939.

Eiginmaður Jóhönnu var Sigurgeir Sigurðsson, bóndi á Völlum, f. á Hofsstöðum í Hálsasveit 5. september 1916, d. 6. febrúar 1994.

Börn Jóhönnu og Sigurgeirs eru: 1) Sigrún, f. 10. apríl 1951, eiginmaður hennar er Jón S. Stefánsson og börn þeirra Guðbjörg Eva, f. 1974, Hanna María, f. 1980, og Sigríður, f. 1985. 2) Ólafur, f. 27. október 1952, eiginkona hans er Hrönn Friðriksdóttir og synir þeirra Gunnar Birgir, f. 1975, Ásgeir Þór, f. 1981, og Ólafur Rúnar, f. 1990. 3) Halla, f. 5. apríl 1958, sambýlismaður hennar er Gunnar Þór Gunnarsson. Synir Höllu eru Sigurjón Ernir Sturluson, f. 1990, og Guðmann Geir Sturluson, f. 1990. 4) Jóna Guðrún, f. 28. september 1963, sambýlismaður hennar er Ólafur Árnason. Börn Jónu eru Sigurgeir Guðni Ólafsson, f. 1982, Óskar Fannar Guðmundsson, f. 1986, Þorvaldur Kristinn Guðmundsson, f. 1989, d. 2008, og María Júlía Guðmundsdóttir, f. 1992. 5) Fanney, f. 7. desember 1964, sambýlismaður hennar er Jón Árnason. Börn Fanneyjar eru Ástrós Kristinsdóttir, f. 1992, og Sigurður Alfreð Kristinsson, f. 1995. Barnabarnabörn Jóhönnu eru 17 talsins.

Jóhanna ólst upp á Syðstu-Mörk og sótti farskóla. Hún fór síðar í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og starfaði við mötuneytisstörf í Vestmannaeyjum og á Hellu. Jóhanna og Sigurgeir fluttust á Þaravelli árið 1951 en reistu sér síðar bú á Völlum þar sem þau stunduðu búskap alla sína tíð.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 12. janúar 2018, klukkan 13.

Elsku amma. Við sitjum hér saman systurnar og rifjum upp allar yndislegu, hlýju stundirnar sem við áttum með þér og efst í huga okkar er þakklæti. Þakklæti fyrir alla spilamennskuna, spjallið og velgjörðirnar sem við nutum við rauða eldhúsborðið á Völlum.

Alla hluti var hægt að ræða við þig og gaman að rökræða hin ýmsu mál og jafnvel enn skemmtilegra ef við vorum ekki sammála.

Enginn var betri bakari en þú og nægir þar að nefna kleinurnar, hveitikökurnar og vínarbrauðin. Alltaf var maturinn bestur hjá þér og eflaust hafa mömmu nú einhvern tíma sárnað yfirlýsingar okkar í þá átt að þetta eða hitt væri ekki eins gott og hjá ömmu. Þvílík forréttindi að hafa haft þig á næsta bæ í uppvextinum og geta ávallt leitað í hlýjuna hjá þér. Alltaf vorum við velkomnar. Ef þú varst ekki inni að sjóða hafragraut í villikettina í fjárhúsunum eða elda hrossakjöt þá varstu úti að gefa hænunum eða litast um eftir Spora. Í æsku okkar var ómissandi þáttur í jólahaldinu að fara í kaffi inn að Völlum að kvöldi aðfangadags þegar búið var að opna pakkana. Þá bauðstu upp á heitt súkkulaði, óteljandi tegundir af smákökum og „rjómatertuna“ góðu. Eldhúsið þitt var ekki stórt eða borðpláss mikið og ólíklegt að nútímafólk myndi geta unnið þá vinnu sem þú vannst við slíkar aðstæður. En þú gerðir ekki miklar kröfur. Hvorki í þeim efnum né öðrum og er nægjusemi orð sem lýsir þér vel.

Elsku amma. Þrátt fyrir söknuð og sorg getum við ekki annað en glaðst yfir því að þú hafir loksins fengið hvíldina sem þú hafðir beðið svo lengi eftir. Nú situr þú í blómabrekku, sól skín í heiði og þrestirnir syngja. Ein er sú minning sem við deilum allar þrátt fyrir árin á milli okkar og lýsir hún vel því öryggi sem þú umvafðir okkur. Ósjaldan þurftum við að fara á milli bæja á kvöldin, fyrir tíma ljósastaura, í kolsvartamyrkri. Þá veittir þú okkur kjarkinn til að hlaupa út í myrkrið með því að standa í dyrunum og horfa á eftir okkur.

Takk fyrir allt, elsku amma – takk fyrir að horfa alltaf á eftir okkur.

Guðbjörg Eva, Hanna

María og Sigríður.

Öllu er afmörkuð stund. Við andlát Jóhönnu Ólafsdóttur, Hönnu á Völlum, eru kaflaskil. Upp koma í hugann minningar, vináttu okkar á Vestri-Reyni við fjölskylduna á Völlum. Geiri og Hanna voru hluti af uppvexti okkar. Samskipti og vinátta á milli foreldra okkar og þeirra voru mikil og okkar við systkinin á Völlum.

Samvera við Geira og Hönnu var stór þáttur í lífi okkar. Að fara inn að Völlum, hvort sem gengið var inn með brekkum eða með öðrum hætti. Heimilið á Völlum var með framandi nýjungar eins og sjónvarp, svo dæmi sé tekið. Fyrr var þar til heimilisbíll en hjá okkur og muna eldri systurnar eftir ferðum með þeim hjónum í berjamó. Einnig fóru þeir Geiri og pabbi á „aksjónir“, sem kallað var er bændur voru að ljúka búskap og selja átti flest lauslegt. „Aksjónir“ voru fyrir tíma smáauglýsinga helsti vettvangur viðskipta með allt frá búsáhöldum, skepnum eða búvélum.

Heimilið og fólkið á Völlum var okkur því mikilvægt og tilbreyting sem okkur þótti eftirsóknarverð. Rétt eins og margt sem mótar okkur og uppeldi okkar var Hanna á Völlum ekki síst áhrifavaldur í lífi okkar. Tryggð hennar og manngæska gerði okkur öll að betri manneskjum. Hanna var hógvær og umhyggjusöm kona sem ekki mátt neitt aumt sjá.

Hanna var ættuð af Suðurlandi og settist að undir Akrafjalli. Með margt má segja að ekki séu ósvipaðar sveitir innnesið og heimsveit hennar. Hér vorar almennt snemma rétt eins og þar og Akrafjallið bakhjarlinn sem byggðin skýlir sér undir.

Hanna var þessi dæmigerða dugnaðarkona sem vann langan vinnudag við búverk og heimilishald. Dagarnir langir, matargerð og barnauppeldi og fjölbreytt starf utanhúss. Lengst af án nútímaþæginda og heimilið stórt. Hanna var af þeirri kynslóð sem tók þátt í að breyta sveitum landsins. Þau Geiri byggðu bú sitt á Völlum frá grunni. Hvert hús og alla ræktun. Stofnuðu nýbýli úr landi Þaravalla. Þau bjuggu stóru búi þess tíma. Það hefur þurft hagsýna og útsjónarsama bændur til að láta þetta takast.

Hanna var þessi fasti punktur í tilveru okkar, sem nú hefur látið undan tímanum. Hennar stund var fjölbreytt og árangursrík. Það er tómarúm þegar þessir máttarstólpar æsku okkar hafa nú kvatt.

Tryggð hennar og vináttu þökkum við af heilum hug. Þökkum allar þær velgjörðir sem við nutum af hennar hálfu.

Við sendum Rúnu, Óla, Höllu, Jónu og Fanneyju, fjölskyldum þeirra og börnum þeirra samúðarkveðjur.

Elísabet, Fríða, Valný,

Haraldur og Fjóla frá Vestri-Reyni.