Langsótt er að Íranir hafi haldið sig fyllilega við kjarnorkusamkomulag

Utanríkisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands lýstu því yfir í gær að þeir litu svo á að Íranir hefðu staðið fyllilega við allar þær skuldbindingar sem þeir hefðu tekist á hendur með kjarnorkusamkomulaginu sem undirritað var árið 2015, og því væri engin ástæða til annars en að standa áfram við það. Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tók í sama streng og sagði samkomulagið „gera heiminn öruggari“.

Tímasetningu yfirlýsingarinnar er klárlega beint að Bandaríkjastjórn en gert er ráð fyrir því að í dag muni Donald Trump Bandaríkjaforseti ákveða hvort hefja eigi aftur þær refsiaðgerðir Bandaríkjanna, sem felldar voru úr gildi vegna samkomulagsins, eða hvort fresta eigi ákvörðun um slíkt um nokkra mánuði til viðbótar. Trump hefur lýst því yfir að Bandaríkin líti ekki svo á að Íranir hafi staðið við sitt og raunar hefur hann sagt samkomulagið einn versta samning sem risaveldið hafi nokkurn tímann gert.

Afstaða Trumps er skiljanleg þegar haft er í huga að Íranir hafa ef til vill staðið við samkomulagið í orði en alls ekki á borði. Samkvæmt samkomulaginu var Írönum til að mynda sett sú kvöð að þeir mættu ekki gera tilraunir með langdrægar eldflaugar sem borið gætu kjarnorkuodda. Til að fara í kringum bannið hafa Íranir hafið stórvirka geimferðaáætlun þar sem hverri eldflauginni á fætur annarri er skotið á loft undir því yfirskini að þær beri gervihnetti á sporbaug. Það að slíkar eldflaugar geta hæglega borið kjarnaodda er einungis tilviljun ef trúa má Írönum.

Þó að samkomulagið frá 2015 hafi ekki falið í sér sérstakar kvaðir á hendur Írönum um framferði þeirra í utanríkismálum þá er það í besta falli stórkostleg ögrun og ósvífni að Íranir skuli hafa nýtt það fjármagn sem afnám refsiaðgerða færði þeim til þess að ýta undir óróleikaástandið í Mið-Austurlöndum.

Á sínum tíma var varað við því að Íranir væru ekki verðir þess trausts sem felst í samkomulaginu. Þau varnaðarorð virðast hafa verið rétt. Hafa ber í huga að samkvæmt samkomulaginu mega Íranir hefja aftur stórfellda auðgun úrans eftir níu ár og eftir tólf ár verða allar kvaðir á hendur þeim runnar úr gildi. Miðað við hegðun Írana hingað til er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því sem gerist eftir þann tíma.