Drjúg Erna Freydís Traustadóttir sækir að körfu Skallagríms en hún skoraði 11 stig fyrir Njarðvík í gær í sigri sem kom liðinu í bikarúrslitaleikinn.
Drjúg Erna Freydís Traustadóttir sækir að körfu Skallagríms en hún skoraði 11 stig fyrir Njarðvík í gær í sigri sem kom liðinu í bikarúrslitaleikinn. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Það voru fáir sem höfðu trú á Njarðvík í undanúrslitaleiknum gegn Skallagrími í Maltbikar kvenna í körfubolta í gærkvöldi.

Í Höllinni

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Það voru fáir sem höfðu trú á Njarðvík í undanúrslitaleiknum gegn Skallagrími í Maltbikar kvenna í körfubolta í gærkvöldi. Botnliðið gerði sér hins vegar lítið fyrir og vann glæsilegan 78:75-sigur og tryggði sér sæti í úrslitunum.

Tímabil Njarðvíkinga hefur verið ansi skrautlegt hingað til. Liðið er án stiga á botni Dominos-deildarinnar eftir 15 leiki. Njarðvíkingar fara hins vegar í ham er kemur að bikarkeppninni og er Skallagrímur þriðja úrvalsdeildarliðið sem verður þeim að bráð. Ekki var að sjá að vantaði sjálfstraust í leikmenn Njarðvíkur, þrátt fyrir brösugt gengi. Með hina bandarísku Shalonda Wynton í broddi fylkingar lönduðu Njarðvíkurkonur verðskulduðum sigri.

Wynton fékk svo gott sem enga hvíld í leiknum og lögðu varnarmenn Skallagríms mikla áherslu á að stöðva hana. Oftar en ekki voru tveir varnarmenn á henni, en þrátt fyrir það héldu henni engin bönd. Hún skoraði 31 stig, tók 15 fráköst og gaf sex stoðsendingar og var helsta ástæða þess að Njarðvík stóð uppi sem sigurvegari.

Pirringur hjá Tyson-Thomas

Skallagrímur var með tvo erlenda leikmenn í leiknum. Annarsvegar Carmen Tyson-Thomas og hinsvegar Zimora Morrison. Rocardo Gonzales, þjálfara Skallagríms, urðu hins vegar á stór mistök. Hann reyndi eftir bestu getu að leyfa þeim báðum að spila, en það var gert á kostnað liðsins. Morrison var sjóðheit er hún var tekin af velli og Tyson-Thomas kom inn á í hennar stað. Hún náði sér ekki á strik og fór aftur á bekkinn í stað Morrison. Eftir það var Morrison ekki eins góð. Það er oft kallaður jákvæður höfuðverkur að eiga „of“ marga góða leikmenn. Það varð hins vegar að alvöru höfuðverk hjá Skallagrími. Zimora Morrison byrjaði inni á og var hún besti maður vallarins framan af og var það því furðuleg ákvörðun að taka hana af velli. Hún er virkilega stór og sterk og réðu Njarðvíkingar ekkert við hana undir körfunni. Tyson-Thomas tók hlutverkaskiptum sínum illa og virtist pirruð allan leikinn.

Hinum megin höfðu leikmenn Njarðvíkur afar gaman af tilefninu, enda ekki á hverjum degi sem maður leikur í undanúrslitum í bikarkeppni í Laugardalshöllinni.