Tilbúinn Aron Pálmarsson kveðst vera klár í slaginn fyrir EM.
Tilbúinn Aron Pálmarsson kveðst vera klár í slaginn fyrir EM. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Split Kristján Jónsson kris@mbl.is „Ég er góður,“ sagði Aron Pálmarsson þegar blaðamaður nefndi að íslenska þjóðin hefði að undanförnu haft áhyggjur af baki Arons.

Í Split

Kristján Jónsson

kris@mbl.is „Ég er góður,“ sagði Aron Pálmarsson þegar blaðamaður nefndi að íslenska þjóðin hefði að undanförnu haft áhyggjur af baki Arons. Hvíldi hann í síðari vináttuleiknum gegn Þjóðverjum vegna eymsla í bakinu en ekki er um alvarleg meiðsli að ræða og Aron hefur tekið þátt í síðustu þremur æfingum landsliðsins.

„Þetta tók 72 tíma og sjúkraþjálfararnir náðu þessu bara úr mér. Ég er 100% tilbúinn í leikinn á morgun. Þarf bara að taka aukateygjur og hugsa aðeins um bakið,“ sagði Aron þegar Morgunblaðið ræddi við hann á landsliðsæfingu í Spaladium-höllinni í Split í gær. Þar munu Íslendingar og Svíar takast á í fyrsta leik liðanna í A-riðli EM.

Aron neitar því ekki að fiðringurinn sé mikill nú þegar EM er handan við hornið. Sjálfur hefur hann verið heldur seinheppinn hvað varðar landsliðverkefni undanfarin ár. Aron missti af HM í Frakklandi í fyrra vegna nárameiðsla og fékk höfuðhögg á HM í Katar 2015.

„Það var leiðinlegt að missa af seinni leiknum gegn Þjóðverjum um daginn en mig grunaði að meiðslin væru ekki stórvægileg. Ég er orðinn hrikalega spenntur fyrir EM og það var gaman að æfa í höllinni í dag sem við munum spila í. Ég missti af síðasta stórmóti og fiðringurinn er því mikill.“

Tók tíma að finna taktinn

Síðari hluti síðasta árs var sérkennilegur fyrir Aron sem var settur út í kuldann hjá Veszprém í Ungverjalandi og spilaði ekki í nokkra mánuði. Málið fékk farsælan endi þegar stórlið Barcelona keypti Aron og hefur hann því getað einbeitt sér að því að spila handbolta að undanförnu. Hann er því kominn í leikæfingu og til alls líklegur á EM í Króatíu enda óumdeilt að Aron sé flokkaður í hóp með bestu leikmanna í heimi í sinni stöðu.

„Það tók mig smá tíma að komast inn í handboltann aftur. Ég hélt að það yrði ekkert mál þótt ég hefði verið frá í fimm mánuði. Svo lengi hef ég sennilega aldrei verið frá síðan ég byrjaði í boltanum. Ég viðurkenni að það tók mig smá tíma að fá tilfinninguna aftur en auk þess var ég að byrja hjá nýju félagi og gekk þar inn í nýtt leikkerfi. Mér líður vel í dag og hef engar afsakanir lengur ef ég sýni ekki mitt besta,“ sagði Aron af hreinskilni í gær.