Tónskáld Hildigunnur man eftir hrolli niður bak við lestur á sögunni um Gilitrutt í bernsku.
Tónskáld Hildigunnur man eftir hrolli niður bak við lestur á sögunni um Gilitrutt í bernsku. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestir á Íslandi þekkja þjóðsöguna um skessuna Gilitrutt sem tók að sér störf fyrir húsfreyju í mannheimum, en vildi að launum fá hana til að geta upp á nafni sínu. Ekki gerði hún ráð fyrir að konan gæti það og yrði hún þá hennar.

Flestir á Íslandi þekkja þjóðsöguna um skessuna Gilitrutt sem tók að sér störf fyrir húsfreyju í mannheimum, en vildi að launum fá hana til að geta upp á nafni sínu. Ekki gerði hún ráð fyrir að konan gæti það og yrði hún þá hennar. Nú er Gilitrutt komin í barnaóperu þar sem snapchat og aðrir samskiptamiðlar verða til þess að húsfreyja hefur lítinn tíma fyrir bústörfin og þiggur því hjálp skessunnar.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég set mig ekki í sérstakar stellingar þegar ég sem tónlist fyrir börn, tónlist á alltaf að vera fyrir fólk, óháð aldri. Gott barnaefni þarf að vera þannig að allir geti notið þess, rétt eins og gott fullorðinsefni. En auðvitað þarf það að vera aðgengilegt og má ekki vera of langt,“ segir Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld þegar hún er spurð að því hvernig tónskáld nálgist það verkefni að semja barnaóperu, en Hildigunnur er höfundur nýrrar barnaóperu um Gilitrutt, sem frumflutt verður á Myrkum músíkdögum nú í lok janúar sem tónleikar, en verður sett á svið á Barnamenningarhátíð í vor.

„Pamela De Sensi hjá Töfrahurð leitaði til mín með að semja tónlistina í þessari óperu og ég fékk að velja söngvarana, sem er mjög gaman. Hlutverkin eru aðeins þrjú, bóndinn og húsfreyjan og svo tröllskessan sjálf, Gilitrutt. Söngfólkið er á mjög mismunandi stigi á sínum tónlistarferil og á ólíkum aldri. Hallveig Rúnarsdóttir sem syngur hlutverk Gilitruttar er á toppnum, ein af þekktustu og virtustu söngkonum landsins. Þorkell Helgi sem syngur hlutverk húsbóndans, útskrifaðist úr Listaháskólanum fyrir örfáum árum, og María Sól sem syngur hlutverk húsfreyjunnar, er í námi í Listaháskólanum. Mér finnst gaman að geta gefið ungu fólki tækifæri,“ segir Hildigunnur og bætir við að hún notist einvörðungu við háar raddir í þessari óperu, Hallveig og María Sól syngja báðar sópran og Þorkell Helgi syngur tenór.

Ekki löt, heldur verkfælin

Hildigunnur segir engan kór vera í verkinu og að hún hafi valið að nota aðeins þrjú hljóðfæri, píanó, óbó og klarinett.

„Ég leita svolítið að litum við val á hljóðfærum, óbóið getur alveg leikið skessu, og það getur klarinettið í raun líka, en bæði þessi hljóðfæri hafa mikla liti. Píanóið nær yfir breitt svið og getur fyrir vikið haldið vel utan um þetta allt saman.“

Sagan af Gilitrutt er ekki löng, en Hildigunnur segir að textahöfundurinn Salka Guðmundsdóttir hafi samið heilmikinn texta í kringum hana, skemmtileg frásagnarljóð til að syngja. „Við látum söguna gerast í nútímanum, þó svo að ullarvinnsla og skessa komi við sögu. Hjónin flytja saman á ættaróðal bóndans sem er lengst inni í dal, og þar þarf að sinna skepnum og vinna sveitastörf. En unga húsfreyjan hefur lítinn tíma til þess, því hún þarf að snappa á símanum og vera á facebook, hanga í tölvunni. Hún er ekki löt, heldur verkfælin og verkkvíðin, hún vill fresta öllu til morguns. Og þá kemur aðstoð skessunnar sér vel, eða það heldur húsfreyjan.“

Aría fyrir Gilitrutt

Hildigunnur segir að hún og Salka hafi unnið að hluta til saman við að skapa óperuna.

„Salka er ofboðslega klár og þetta er mjög skemmtilegur texti hjá henni sem ég fæ að semja tónlist við. Í óperum er þetta svolítið öðruvísi en í leikritum, að því leyti að persónur verksins syngja stundum saman, textahöfundur þarf því að hafa í huga að textinn geti virkað fyrir fleiri en eina persónu verksins. Að persónur skiptist ekki einvörðungu á að syngja, heldur syngi líka stundum saman í dúett,“ segir Hildigunnur og bætir við að hún hafi beðið Sölku um að semja sérstakan texta svo hún gæti gert skemmtilega aríu fyrir Hallveigu. „Ég vildi gera aðeins meira úr hlutverki Gilitruttar en sagan býður upp á, því Hallveig er stórkostleg söngkona, þó ég segi sjálf frá,“ segir Hildigunnur og hlær, en þær eru systur.

Krakkar sækja í hrylling

Eins og áður sagði er sýningin ætluð fólki á öllum aldri, en ókeypis er á hana fyrir börn sjö ára og yngri.

„Töfrahurðin hefur alltaf lagt mikla áherslu á að hafa ókeypis fyrir börn á tónlistarviðburði, enda skiptir miklu máli að ala upp nýja hlustendur. Það er mjög áríðandi að börn fái að kynnast allskonar tónlist þegar þau eru ung, það skilar sér áfram. Börn eru mjög opin fyrir klassískri tónlist,“ segir Hildigunnur sem hefur einu sinni áður samið barnaóperu, Hnetu-Jón og gullgæsina.

„Ég gerði það eftir pöntun frá tónlistarskóla Garðabæjar í tilefni 25 ára afmælis skólans. Sú ópera var flutt fyrir fullu húsi fyrir rúmum tuttugu árum, en aldrei síðan. Það er sannarlega kominn tími til að hún verði aftur sett á svið, enda komin ný kynslóð af börnum. Auðvitað dreymir mig um að stóru leikhúsin grípi þessar barnaóperur sem ég hef samið og setji upp á svið hjá sér. Þetta á erindi og er skemmtilegt, ég get lofað því. Ég man vel eftir því þegar ég heyrði söguna af Gilitrutt sem lítil stelpa, ég man eftir að hafa fengið skemmtilegan hroll niður bakið, en krakkar sækja í hrylling, rétt eins og við fullorðna fólkið förum að sjá sálfræðitrylla í bíó.“