Vel ísaður fiskur Núverandi fyrirkomulag endurvigtunar hefur stuðlað að auknu verðmæti, að mati SFS.
Vel ísaður fiskur Núverandi fyrirkomulag endurvigtunar hefur stuðlað að auknu verðmæti, að mati SFS.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Niðurstaða greiningar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á vigtun og endurvigtun á afla er að fyrirliggjandi gögn og úttektir staðfesti að framkvæmd og framfylgni við ákvæði laga séu almennt til fyrirmyndar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Niðurstaða greiningar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á vigtun og endurvigtun á afla er að fyrirliggjandi gögn og úttektir staðfesti að framkvæmd og framfylgni við ákvæði laga séu almennt til fyrirmyndar. Engin rök standi til þess að ráðast í grundvallarbreytingar á núgildandi framkvæmd.

Staðhæfingar um kerfisbundið svindl í vigtun séu rangar og vísbendingar séu um að fáir aðilar standi að baki meginhluta frávika sem finnast, segir í fréttabréfi SFS. Bent er á að þegar þrjú af þeim fyrirtækjum sem voru ítrekað með verulegt frávik í mælingum séu tekin út úr heildinni sé meðaltalsfrávikið hverfandi.

„Núverandi fyrirkomulag endurvigtunar hefur reynst vel og stuðlað að meiri gæðum og auknu verðmæti sjávararfurða. Eftir að í land er komið er fiskiker vigtað á hafnarvog, ekið er með það inn í vinnslu, ísinn tekinn frá og aflinn vigtaður. Þessi síðari vigtun er kölluð endurvigtun og hún tryggir nákvæma vigtun og flokkun afla. Niðurstaðan úr henni dregst frá aflamarki viðkomandi skips. Leyfi til endurvigtunar er gefið út af Fiskistofu. Það eru löggiltir vigtarmenn sem sjá um hana og að færa til bókar rétt magn afla,“ segir í fréttabréfinu.

Fullt gagnsæi til staðar

Sumarið 2017 voru gerðar lagabreytingar er vörðuðu framkvæmd, eftirlit og viðurlög vegna brota gegn ákvæðum laga og reglugerða um endurvigtun. Eftirlit var hert og viðurlög þyngd. Fiskistofa hefur nú heimild til að fylgjast með allri vigtun vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur ef hann verður uppvís að verulegu fráviki á íshlutfalli í afla skips miðað við meðaltal í fyrri löndunum. Vigtunarleyfishafi ber allan kostnað af eftirliti þennan tíma.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á framkvæmd, eftirliti og viðurlögum gagnvart brotum við endurvigtun síðastliðið sumar telur SFS að réttar áherslur hafi verið settar við breytingar á reglum um endurvigtun. Þá sé ekki síður mikilvægt að niðurstöður vigtunar alls landaðs afla eru birtar opinberlega á heimasíðu Fiskistofu, þannig að fullt gagnsæi sé til staðar, segir í frétt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.