Eftir hræðilega lendingu í New York, þar sem í það minnsta ein kona kastaði upp, hófst ferlið við að koma töskum rétta leið í átt heim.

Litla fjölskyldan“, eins og bloggarar og skvísur kalla þriggja manna fjölskyldur, breytti út af vananum um jólin. Í stað þess að halda þau í myrkri og kulda var ákveðið að halda suður á bóginn. Þegar klukkan sló sex á aðfangadag á Íslandi lágum við á ströndinni á elliheimili Bandaríkjanna; Flórída.

Fríið var frábært í sól og blíðu en heimferðin tók aðeins lengri tíma en áætlað hafði verið. Vegna þess sem við Íslendingar köllum veður var allt flug frá Flórída til New York fellt niður en við áttum tengiflug þangað áleiðis heim. Jæja, þetta þýddi þá aukanótt á fínu hóteli. Eini gallinn þar var, að mati erfingjans, að engar teiknimyndir voru í sjónvarpinu.

Degi síðar áttum við flug frá Flórída til New York og þaðan heim. Enginn tími var fyrir slökun í borginni sem aldrei sefur og ljóst að ekki mátti mikið út af bregða til að við myndum hreinlega missa af fluginu heim.

Þegar við héldum að ætti að kalla okkur upp í vél, birtist tilkynning um að fluginu hefði verið frestað um rúmlega klukkustund. Ástæðan var sú að það vantaði flugmann. Það lá við að betri helmingurinn gubbaði af stressi við þessar fréttir og beindi hún einnig reiði sinni að mér, ég var að hennar mati ekki nógu stressaður.

Eftir hræðilega lendingu í New York, þar sem í það minnsta ein kona kastaði upp, hófst ferlið við að koma töskum rétta leið í átt heim. Einhverra hluta vegna notar fólk í New York ekki nýjustu tækni og því þurftu allir að fara í röð og skrá sig inn á gamla mátann.

Röðin hreyfðist ekki hratt og ekki hjálpaði þegar fólki sem var á síðustu stundu í sitt flug var hleypt fram fyrir aðra. Það má því segja að fólk hafi verið verðlaunað fyrir að haga sér eins og fífl. Karlmaður á besta aldri missti að lokum þolinmæðina og spurði hlunk sem var að verða of seinn hvort honum þætti í lagi að fara fram fyrir röð. Sá þétti yppti öxlum og sagðist ekkert geta gert. „You fu***** dipshit,“ sagði þá sá reiði. Það síðasta sem ég sá af þeim svera var hann að endurpakka í allt of þunga tösku sína. Hann minnti mig óþægilega mikið á Newman, erkióvin Seinfeld. Pirringur minn út í hann var því ekki ástæðulaus.

Jóhann Ólafsson johann@mbl.is

Höf.: Jóhann Ólafsson johann@mbl.is