Sigurbjörg Örlygsdóttir fæddist á Akureyri 5. janúar 1962. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. desember 2017.

Foreldrar hennar eru Margrét Sigfúsdóttir, f. 11.4. 1935, og Örlygur Þór Helgason, f. 19.8. 1933, bændur á Þórustöðum 2 í Eyjafjarðarsveit, nú búsett á Akureyri. Systkini Sigurbjargar eru: 1) Egill, f. 18.4. 1954, d. 17.2. 1959. 2) Helgi, f. 9.6. 1955, kona hans er Vigdís Eiríka Helgadóttir og börn þeirra Margrét, Örlygur Þór og Jón Helgi. 3) Sigurlína, f. 4.2. 1958, maður hennar er Jón Ólafur Jónsson og börn þeirra Örlygur Þór og Sonja Dögg. 4) Egill, f. 10.9. 1967, kona hans er Efemía Fanney Valgeirsdóttir og börn þeirra Sigurbjörg Eva, Guðrún Björg og Valgeir Guðjón.

Sigurbjörg bjó í foreldrahúsum til 19 ára aldurs en um fimm ára aldur byrjaði heilsu hennar að hraka; fyrst sjón, svo heyrn og síðan hreyfigetu vegna taugahrörnunar og flutti hún þá á Kristnes og var þar til 1995. Þá flutti hún í Hafnarstræti 16 á Akureyri og 2. janúar 2007 flutti hún í séríbúð í Geislatúni 1.

Sigurbjörg var jarðsungin frá Höfðakapellu 9. janúar 2018. Jarðsett var í Kaupangskirkjugarði og fór jarðarförin fram í kyrrþey.

Mig langar að minnast elskulegrar mágkonu minnar Sigurbjargar með nokkrum orðum.

Sigurbjörg fékk það erfiða hlutskipti í lífinu að missa með aldrinum sjón, heyrn og hreyfigetu og er ég kynntist henni fyrir ca. 30 árum hafði hún enn smá heyrn sem fór dvínandi. En hún hafði þann hæfileika að skilja okkur með því að við skrifuðum á enni hennar og hún svaraði okkur. Engan þekki ég með betra minni en hana. Hún mundi allt sem henni var sagt og var mjög dugleg að segja manni fréttir af sínu fólki og öðru samferðafólki.

Ekki þýddi að segja eitt í dag og annað á morgun, maður fékk það beint í hausinn aftur. T.d. er við svöruðum því hve há börnin væru, kannski ekki alveg viss, þá sagði hún stundum: „Það getur ekki verið, þú sagðir annað síðast.“ Alla afmælisdaga mundi hún. Var óspör á að hnippa í foreldra og systkini út af þeim því hún vildi alltaf vera að gleðja aðra og gladdist alltaf með öðrum þegar vel gekk hjá þeim.

Aldrei heyrði ég hana tala illa um fólk. Þegar við komum í heimsókn og hún áttaði sig á að Egill bróðir hennar var kominn hrópaði hún ávallt „Egill! Egill minn“ og svo fylgdi innilegt faðmlag á eftir. Sýndi hún honum og fjölskyldunni allri mikla væntumþykju alla tíð og mat það mikils að við skírðum okkar fyrsta barn Sigurbjörgu. Í ófá skipti bauðst hún til að lána bróður sínum peninga ef hann þyrfti.

Sigurbjörg elskaði lömb og kom oft á vorin í heimsókn til okkar í Skagafjörðinn. Faðmaði lömbin og fann lyktina af þeim. Áður fyrr náði hún að heyra þau jarma en saknaði þess í seinni tíð. Á ferðum sínum hingað spurði hún aðstoðarfólk sitt út í landslagið, bæi, ár og fjöll og spurði svo í næstu ferð hvort þau væru að fara framhjá þessum og þessum stað núna. Hún hafði aldrei séð Skagafjörðinn og reyndi að sjá fyrir sér hvernig umhverfið var. Þegar við hittum hana í hinsta sinn rétt fyrir jól var það síðasta sem hún spurði okkur hvort hún mætti koma í heimsókn í vor.

Vil ég þakka öllu því góða fólki sem gerði henni það kleift að koma til okkar sem og öllum sem aðstoðuðu hana á lífsleiðinni á Kristnesi, Hafnarstræti, Geislatúni, Bjargi og Hæfingarstöðinni Skógarlundi. Yndislegt var að hún fékk ósk sína uppfyllta að fá séríbúð í Geislatúni og gat þá tekið á móti gestum þar.

Í starfi sínu í endurhæfingunni bjó hún til ófáa tágabakka og voru þeir orðnir 1.799 er hún féll frá.

Góðar minningar um elsku Sigurbjörgu munu fylgja okkur alla tíð. Hvíli hún í friði.

Efemía Fanney

Valgeirsdóttir.

Það hvarflaði ekki að okkur systkinunum í árlegu jólaheimsókninni okkar til Sigurbjargar frænku að það yrði síðasta skiptið sem við myndum hitta hana. Hún var svo hress og kát, sagði okkur fréttir, sögur og við ræddum um lífið og tilveruna. Líkt og alltaf þegar við komum bauð hún okkur upp á hraunbita og kók með spjallinu. Heimsóknir okkar í Geislatúnið voru ekki jafn margar og við hefðum viljað en þær voru okkur mjög dýrmætar og við eigum fullt af góðum minningum með henni þaðan.

Einnig eigum við fullt af skemmtilegum minningum frá því þegar Sigurbjörg kom til þess að heimsækja litla bróður sinn og okkur fjölskylduna vestur í Skagafjörð. Hún kom ævinlega á vorin til þess að kíkja á lömbin.

Þessar heimsóknir voru bæði okkur og henni mjög kærar. Hún talaði reglulega um þær og þar sem Sigurbjörg vildi alltaf hafa allt á hreinu þá spurði hún yfirleitt alltaf snemma vetrar hvort hún mætti koma og skoða lömbin um vorið.

Þessi spurning er einmitt eitt það síðasta sem við heyrðum hana segja. Hún elskaði lyktina af lömbunum, finna fyrir mjúku krullunum og það skemmdi ekki fyrir ef þau jörmuðu. Þegar hún var búin að skoða lömbin þá kom hún inn í kaffi og hún spurði alltaf hvort karamellukakan sem hún elskaði væri á boðstólum en það var alltaf passað upp á að svo væri. Þessi kaka er alltaf kölluð „karmellukakan sem Sigurbjörg frænka elskar“ á okkar heimili og við systkinin höfum það líklegast frá henni að dýrka þessa köku.

Sigurbjörg frænka kenndi okkur svo margt, m.a. þolinmæði, og að segja alltaf satt og rétt frá. Þegar við systkini vorum yngri spurði hún alltaf pabba eða mömmu um hæðina á okkur.

Það kom fyrir að þau voru ekki alveg viss og þá giskuðu þau á hvað við værum há. Stundum passaði hæðin ekki vegna þess að hún mundi alltaf hvað hafði verið sagt síðast og það gæti bara ekki staðist að við hefðum minnkað. Þannig að við reyndum alltaf að vera klár á þessu þar sem minnið hennar var ótrúlegt og það var fátt sem hún var ekki með á hreinu.

Hún kenndi okkur líka að lífið er ekki alltaf dans á rósum en það þýðir ekkert að gefast upp.

Hún var okkur mjög kær og minning hennar lifir með okkur um ókomna tíð. Okkar von er sú að hún hafði það gott í draumalandinu sem er vonandi nákvæmlega eins og hún sá fyrir sér.

Hvíldu í friði, elsku frænka, þín verður sárt saknað.

Sigurbjörg Eva,

Guðrún Björg og Valgeir Guðjón Egilsbörn.

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti

(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)

Nú hefur einstök kona kvatt þessa jarðvist og haldið á vit nýrra ævintýra á öðru tilverustigi.

Sigurbjörg fór skyndilega og óvænt og skilur eftir sig stórt skarð og tómleika. Við erum þakklát fyrir að hafa þekkt þessa stórbrotnu konu en þökkum um leið fyrir að brottför hennar úr þessum heimi var snögg og átakalítil.

Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki

um lífsins perlu í gullnu augnabliki –

(Tómas Guðmundsson)

Sigurbjörg var daufblind og með mikla hreyfiskerðingu. Hún missti sjón og síðar heyrn ung að árum en notaði tjáskipti í formi tákna sem gerð voru á efri hluta líkamana hennar. Þessi tjáskipti þróaði hún og var ótrúlega dugleg við að finna upp ný og ný tákn til að dýpka og auðvelda samskipti.

Sigurbjörg átti stóra fjölskyldu og fjölda vina sem hún fylgdist vel með og sýndi mikinn áhuga.

Hún var gestrisin, einstaklega gjafmild og mikill húmoristi. Sigurbjörg hafði afburðagott minni og hægt var að fletta upp í henni eins og orðabók hvað varðaði afmælis- og brúðkaupsdaga allra sem hún þekkti, svo ekki sé minnst á fegurðardrottningar eða kóngafólk sem hún hafði sérstakan áhuga á.

Sigurbjörg hafði þann einstaka eiginleika að geta glaðst yfir velgengni og hamingju þeirra sem henni þótti vænt um. Afbrýðisemi eða öfund var ekki til í hennar fari. Það er eiginleiki sem er til eftirbreytni.

Sigurbjörg trúði að þegar þessari jarðvist lyki tæki við annar heimur þar sem hennar hlutskipti yrði annað. Þar væri hún fögur kona með sjón og heyrn, sítt svart hár og allir vegir færir. Hún lagði áherslu á að í þeim heimi væru þroskaþjálfar algjörlega óþarfir.

Við kveðjum þessa sterku hugrökku konu og þökkum henni samfylgdina.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Innilegar samúðarkveðjur sendum við fjölskyldu og vinum Sigurbjargar

Fyrir hönd starfsfólks Geislatúni 1,

Ingibjörg Jónsdóttir,

Þóra Elín Arnardóttir.

Sibba var einstök kona. Hún bjó við miklar skerðingar. Var daufblind, hvorki heyrði né sá og var bundin hjólastól. Þrátt fyrir þessar erfiðu skerðingar lét hún ekki deigan síga.

Hún mætti í Skógarlundinn alla virka daga. Tjáskipti milli Sibbu og annarra voru óhefðbundin.

Þeir sem við hana töluðu skrifuðu á ennið á henni og gerðu fyrir hana tákn. Hún bjó til mörg tákn sjálf og gaf fólki tákn.

Með sínu tákni kynnti fólk sig fyrir henni, þegar það kom til hennar og vildi eiga við hana samskipti.

Fyrir nokkrum árum áttu Sibba og táknmálsfræðingur sem vann í Skógarlundi einstaklega skemmtilegt og gefandi samstarf. Saman unnu þær að táknum sem síðan voru notuð í samskiptum á milli Sibbu og þeirra sem voru með henni hverju sinni.

Myndband sem þær gerðu saman fór starfsmaðurinn með á ráðstefnu fólks sem starfaði með fólki með daufblindu og vakti myndbandið verðskuldaða athygli fyrir frábært samspil tveggja kvenna, annarrar með fulla heyrn og sjón og hinnar án þeirrar skynjunar.

Sibba var einstaklega áhugasöm um fólk. Hún var sérfræðingur í konungbornu fólki. Vissi margt um dönsku drottningarfjölskylduna og þá bresku, svo einhverjar séu taldar.

Í Skógarlundi snerist dagurinn meira og minna um samskipti, spjall, lestur og vinnu. Sibba fléttaði tágakörfur og var hún búin að flétta 1.799, þegar hún var kölluð burt frá okkur. Allar körfur voru númeraðar og skráðar í ákveðna bók. Í bókina var líka skráð hver ætti hvaða körfu.

Átt þú ekki körfu númer 1.001? spurði hún undirritaða sem vissulega er rétt. Hvað gerir þú við hana? Notarðu hana fyrir brauð, kökur, eitthvað annað?

Hún vildi vera með sem flest á hreinu og þannig var það. Mundi afmælisdaga og gaukaði fallegum gjöfum að fólki á stórafmælum.

Mundi nöfn barna starfsmanna og barnabarna þar sem þau voru til staðar.

Það er erfitt að horfa á eftir samferðafólki sínu en þannig er lífið. Við fæðumst og við deyjum.

Við hittumst til að skapa minningar og kveðjumst til að njóta þeirra. Minningar um Sibbu eiga eftir að ylja okkur um langan veg og fyrir það erum við þakklát.

Með tilveru sinni auðgaði Sibba umhverfi sitt svo um munaði. Hún var sterkur karakter. Hún gaf okkur mikið og kenndi okkur margt. Þrátt fyrir erfið örlög var hún æðrulaus. Sibba var hjartahlý og góður vinur.

Elsku Sibba, við erum þakklát fyrir að hafa átt þig að. Þú gafst okkur mikið og við söknum þín.

Kæru foreldrar Sibbu, systkini og fjölskyldur, íbúar og starfsfólk í Geislatúni. Ykkur sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum almættið að umvefja ykkur og styrkja.

Elsku Sibba, hlutverki þínu á jarðríki er lokið og nú skiljast leiðir. Nú ertu komin í Draumalandið. Nú ert þú Bergfríður.

Þú gengur um gresjurnar, hlustar á söng fuglanna, skoðar og snertir blómin og andar að þér ilmi Draumalandsins.

Við brotthvarf þitt myndast skarð sem ekki verður fyllt. Hafðu hjartans þökk fyrir samfylgdina sem var gefandi. Í hjörtum okkar eigum við minningu um þig lífsglaða og káta. Megi góður Guð geyma þig.

Fyrir hönd allra í Skógarlundi,

Margrét Ríkarðsdóttir.