Ráðhús Reykjavíkur Að loknum borgarstjórnarkosningunum í maí í vor verða borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar 23 talsins en í dag eru þeir 15.
Ráðhús Reykjavíkur Að loknum borgarstjórnarkosningunum í maí í vor verða borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar 23 talsins en í dag eru þeir 15. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Framboð fimm sjálfstæðismanna í Reykjavík til þátttöku í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna í vor virðist hafa markað ákveðið upphaf að kosningabaráttunni vegna sveitarstjórnarkosninganna og að flestir stjórnmálaflokkar sem á annað borð hyggja á framboð í kosningunum séu að hefja undirbúning.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík ákvað á kjördæmisþingi í fyrrakvöld að stilla upp framboðslista vegna borgarstjórnarkosninganna og verður tillaga uppstillingarnefndar lögð fyrir kjördæmisþing flokksins 22. febrúar nk. til samþykktar eða synjunar að sögn Jóns Inga Gíslasonar, formanns kjördæmisráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að undirbúningur kosninganna í vor væri hafinn. „Nú fara fram samtöl innan okkar raða og við aðra flokka. Við erum bara að fara yfir málin í rólegheitum. Við munum bjóða fram ein og sér eða í samstarfi við aðra. Ég tel ljóst að við eigum möguleika á ágætisstuðningi á tilteknum svæðum, meðal annars hér á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún telur að línur hjá Viðreisn muni skýrast á næstu vikum með það hvar verður boðið fram og með hvaða hætti.

Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vinna við undirbúning framboðs Bjartrar framtíðar í sveitarstjórnarkosningunum í vor væri hafin og raunar komin í fullan gang.

Aðspurð hvort flokkurinn myndi bjóða fram í samstarfi við aðra flokka eða einn og sér sagði Björt: „Það á eftir að koma í ljós. Það verður undir framboðum í hverju og einu sveitarfélagi komið hvernig þeim málum verður háttað. Það verður engin ein meginlína gefin út heldur verður það í höndum aðildarfélaga Bjartrar framtíðar að meta hvar samlegðaráhrifin geti orðið mest og ávinningur orðið að samvinnu.“

Björt telur að framboðsmál flokksins muni skýrast í næsta mánuði.

Miðflokkurinn að stofna kjördæmafélög um land allt

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að undirbúningur flokksins hvað varðar framboð vegna sveitarstjórnarkosninganna væri þar á vegi staddur að verið væri að stofna kjördæmafélög Miðflokksins úti um allt land. „Síðan munu kjördæmafélögin fara í það að ákveða hvar verður boðið fram. Við gerum ráð fyrir því að bjóða fram í flestum af þessum stærri sveitarfélögum, en ég tek það þó fram að í þeim efnum hefur ekkert verið endanlega ákveðið,“ sagði Gunnar Bragi.

Ólafur Ísleifsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hjá flokknum væri undirbúningur að þátttöku í sveitarstjórnarkosningum í deiglunni þessa daga. „Það hefur verið unnin undirbúningsvinna með stofnun kjördæmisráða á nokkrum stöðum. Við erum að skoða möguleikann á því að bjóða fram á völdum stöðum, en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar,“ sagði Ólafur.