Halla Sigurlín Jónatansdóttir fæddist á Hjalteyri við Eyjafjörð 19. nóvember 1924. Hún lést á Dvalarheimilinu Grund 1. janúar 2018.

Foreldrar hennar voru hjónin Jónatan Guðmundsson, f. 1877, d, 1961, beykir, og Vilhelmína Soffía Norðfjörð Sigurðardóttir, f. 1887, d. 1982.

Halla ólst upp í stórum systkinahópi í Hrísey og var næstyngst af fjórtán systkinum sem voru auk hennar Guðrún, f. 1909, d. 1993, Gunnþóra, f. 1910, d. 1910, Sigurður Norðfjörð, f. 1910, d. 1910, Guðmundur, f. 1911, d. 1989, Maríus, f. 1913, d. 1916, Salbjörg Ingibjörg, f. 1914, d. 1990, Sigurður Norðfjörð, f. 1915, d. 1939, Sigtryggur, f. 1917, d. 1988, Valgarður, f. 1918, d. 2003, Lovísa Norðfjörð, f. 1920, d. 1992, Jón, f. 1922, d. 1986, Ísafold, f. 1927, d. 1995, og sammæðra Guðbjörg Sigurlín Bjarnadóttir, f. 1905, d. 1991.

Hinn 7. september 1945 giftist Halla Einari Stefánssyni, f. 5.4. 1923, d. 30.1. 1995, forstöðumanni hjá Vita- og hafnamálastofnun í Kópavogi. Foreldrar hans voru Stefán Einarsson, f. 1896, d. 1982, húsasmíðameistari, og Kristín Þórkatla Ásgeirsdóttir, f. 1900, d. 1990, húsmóðir. Börn Höllu og Einars eru: 1) Þórkatla, f. 1946, d. 1946. 2) Stefán, f. 1948. Dóttir hans er Stefanía Sif, f. 1990, synir hennar eru Christian Stefán og Benjamín Loki. 3) Louisa Norðfjörð, f. 1953, eiginmaður hennar er Vilhjálmur Guðjónsson, f. 1953. Börn þeirra eru: a) Hrólfur, f. 1979, kona hans er Iðunn Andersen, f. 1982. Dætur þeirra eru Harpa, Hrefna og Hildur. b) Halla, f. 1982, maki Harry Koppel, f. 1983. Börn þeirra eru Louisa og Harry Þór. c) Vilhjálmur, f. 1989, unnusta Guðrún Kristín Einarsdóttir, f. 1989. 4) Ásgeir Smári, f. 1955. Dætur hans eru Oddný Rósa, f. 1987, og Dagný, f. 1988. Maki Dagnýjar er Sandri Freyr Gylfason, f. 1988. Börn þeirra eru Hrannar Jökull, Styrmir Logi og Sigur Þeyr. 5) Þórdís Katla, f. 1957, maki Bjarni Ómar Guðmundsson, f. 1953. Börn Bjarna eru Þórður, f. 1977, og Hjördís Sif, f. 1979. Sonur Þórdísar er Kristján Óttar, f. 1991, sonur hans er Eyvindur Páll.

Halla ólst upp í Hrísey þar sem hún kláraði barnaskólann og síðan gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Akureyri, eftir að fjölskylda hennar flutti þangað. Til Reykjavíkur fór hún í læri hjá móðursystur sinni, Louisu Norðfjörð, er kenndi matreiðslu og hannyrðir. Í húsinu við hliðina bjó Einar með fjölskyldu sinni. Halla sinnti heimilinu meðan börnin voru ung en starfaði svo sem verslunarmaður og síðan sem læknaritari hjá augnlæknum í Kringlunni. Hún vann fulla vinnu til 74 ára aldurs.

Einar og Halla byrjuðu búskap sinn í Samtúni 2 en fluttu svo í Hafnarfjörð þegar yngsta barnið bættist í hópinn. Þau festu kaup á Laufásvegi 25 þegar Halla var farin að vinna í Reykjavík og börnin farin í framhaldsskóla. Á Laufásveginum bjuggu þau sér glæsilegt heimili og þar bjó Halla í yfir 30 ár, eða þangað til hún fór í Furugerði og síðan á Grund.

Útför Höllu fer fram frá Neskirkju í dag, 12. janúar 2018, klukkan 13.

Mamma, ég man hlýja hönd,

er hlúðir þú að mér.

Það er svo margt og mikilsvert,

er móðuraugað sér.

Þú veittir skjól og vafðir mig

með vonarblómum hljótt.

Því signi ég gröf og segi nú:

Ó, sofðu vært og rótt.

(Kristín Jóhannesdóttir)

Þín verður sárt saknað,

Þínar dætur

Louisa og Þórdís.