Gunnlaugur Lárusson fæddist 10. apríl 1923. Hann lést 24. desember 2017.

Útför Gunnlaugs fór fram 8. janúar 2018.

Tíminn var naumur, fótatakið nálgaðist og ég heyrði ömmu tipla um gólfin niðri. Hvar átti ég að pota mér, undir rúm, undir sófa, inn í skáp eða kannski bak við gardínuna? Afi var kominn heim í hádegismat, ég heyrði hvernig amma sagði honum í gátum að eitthvað hlyti nú að vera týnt einhvers staðar. Afi tók strax þátt í leiknum og fór að leita að mér. Þær eru ófáar minningarnar sem ég á af Skeiðarvoginum hjá ömmu og afa. Það var vel hlúð að manni hjá þeim, alltaf passað upp á að nóg færi í magann og þegar ég var búin að bursta tennurnar var ég látin blása framan í afa, þannig fann hann hvort tannkrem hafði verið notað eður ei, hann sagði mér líka að nota hitaveituvatnið því það væri svo flúorríkt, á eftir fylgdi amma til að sjá til þess að mér væri almennilega vafið inn í silkimjúk rúmfötin og fislétta dúnsængina. Ég er svo rík að hafa átt þau að.

Afi var Víkingur mikill. Hann byrjaði knattspyrnuferilinn í strákafélaginu Valbirninum í vesturbæ Reykjavíkur. Valbirningar urðu Víkingar og að skipta um lið mátti líkja við landráð og því var afi Víkingur fram á síðasta dag. Hann átti glæstan knattspyrnuferil, sat í stjórnum og nefndum og safnaði fé til uppbyggingar starfseminni. Ástríða hans á boltanum tók sinn toll frá fjölskyldunni og sagði hann mér oft frá því að hann hefði nú ekki séð börnin sín eins mikið og hann hefði viljað. Honum fannst hann hafa misst af þeim á uppvaxtarárunum, það var eftirsjá í röddinni. Hann sagði eitt sinn í viðtali sem tekið var við hann: „Auðvitað fór ógnarmikill tími í þetta en Víkingur skipti mig alltaf svo miklu máli og áhuginn var mikill. Nú þegar við horfum yfir glæsilegt svæði félagsins í Víkinni hlýtur maður í það minnsta að geta leyft sér að hugsa upphátt: Við puðuðum þá hreint ekki til einskis! Það má með sanni segja að félagið okkar hafi risið úr öskustó og orðið stórveldi. Við gömlu Víkingarnir erum bæði stoltir og glaðir og sjáum að ekki var til einskis barist forðum.“ Ég veit að fjölskyldan hefur alltaf verið afar stolt af öllu sem hann afrekaði á ferlinum.

Vinátta okkar er mér afar dýrmæt og er ég ósköp þakklát fyrir öll þau tæpu 40 ár sem við fengum að vera saman en afi hefði orðið 95 ára í apríl á þessu ári. Það verður skrýtið að sleppa heimsóknum á Hrafnistu og hafa engan sem strýkur manni um handarbakið og segir manni hvað maður hafi alltaf verið „skemmtileg lítil dúkka“.

Ég kveð þig vinur minn, þú varst minn gullmoli.

...að heilsast og kveðjast.

Það er lífsins saga.

(Páll Árdal)

Þín dótturdóttir,

Hrafnhildur Telma.