Guðjón Valur Sigurðsson tekur þátt í stórmóti númer tuttugu og eitt sem leikmaður þegar Ísland mætir Svíum í Split í dag. Um er að ræða hans tíundu lokakeppni EM en eins og fram hefur komið hófst landsliðsferill hans einmitt á EM í Króatíu árið 2000.
Guðjón Valur Sigurðsson tekur þátt í stórmóti númer tuttugu og eitt sem leikmaður þegar Ísland mætir Svíum í Split í dag. Um er að ræða hans tíundu lokakeppni EM en eins og fram hefur komið hófst landsliðsferill hans einmitt á EM í Króatíu árið 2000.

Tæpum tveimur árum áður lauk Guðjón keppnistímabili í 2. deildinni. Sameinuðu liði Gróttu og KR hafði þá verið hleypt af stokkunum og hjálpaði Guðjón liðinu að komast upp um deild með mörkum úr skyttustöðunni.

Annar verðlaunahafi frá Ólympíuleikum, Hreiðar Levý Guðmundsson, var ungur markvörður í því liði. Gylfi Gylfason, fyrrverandi landsliðsmaður, og Davíð B. Gíslason, varaformaður HSÍ, voru á hægri vængnum. Spilinu stýrði sjálfur Ágúst Þór Jóhannsson, fv. landsliðsþjálfari, og alþjóðadómarinn, Anton Gylfi Pálsson, var í vörninni.

Hvers vegna er þetta nefnt sérstaklega í bakverði dagsins? Jú varðandi kappa eins Guðjón þá er ágætt að minna á að hann hafi tekið tímabil í 2. deildinni því það sýnir að leiðin á toppinn þarf ekki að vera eins hjá öllu íþróttafólki. Íþróttamaður þarf ekki endilega að vera búinn að sigra heiminn um tvítugt. Ef vinnusemin og metnaðurinn eru fyrir hendi er leiðin á toppinn ennþá fær á þeim aldri.

Bakvörður dagsins mætti Guðjóni í tveimur leikjum í 2. deildinni umræddan vetur. Á þeim tíma þótti manni það ekki merkilegt en eftir á að hyggja má segja að heiður sé í því fólginn að hafa verið á sama velli og Guðjón í mótsleikjum. Samkvæmt leikskýrslum á heimasíðum HSÍ skoraði Guðjón átján mörk í leikjunum tveimur og bakvörður dagsins tíu mörk. Þó það.