Í dag hefst EM karla í handbolta í Króatíu. Víkverji ætlar ekki að missa af því. Í dag mun hann byrja á því að fara í gegnum EM-blað sem fylgir Mogganum í dag og fyrsti leikur er á dagskrá seinni partinn.

Í dag hefst EM karla í handbolta í Króatíu. Víkverji ætlar ekki að missa af því. Í dag mun hann byrja á því að fara í gegnum EM-blað sem fylgir Mogganum í dag og fyrsti leikur er á dagskrá seinni partinn.

Fornir fjendur bíða okkar manna í fyrsta leik, eða Svíar. Nú eru Svíar með leynivopn. Þeir eru nefnilega komnir með íslenskan þjálfara. Sú taktík hefur reynst mörgum vel. Spyrjið bara Norðmenn, Þjóðverja og Dani.

Víkverja finnst eins og Íslendingar hafi ansi oft mætt Svíum í fyrsta leik á stómótunum í handbolta. En það verður óneitanlega nokkuð sérstakt að sjá Íslending á hliðarlínunni hjá Svíum.

Þegar handboltamótin í janúar hafa verið skemmtileg, og Íslendingum tekist vel upp, þá stytta þau janúarmánuð svo um munar. Fín leið til að brjóta upp veturinn er að fylgjast með leikjum handboltalandsliðsins. Þegar líður á mótið fer að styttast í þorrablótin.

Ekki virðast margir Íslendingar gera sér ferð frá Íslandi til að styðja handboltalandsliðið á stórmótum svona yfirleitt. Í samanburði við stuðninginn sem fótbolta- og körfuboltalandsliðin hafa fengið á síðustu árum. Þó er það misjafnt eftir því hvar handboltalandsliðið spilar. Hefur það fengið ágætan stuðning á stórmótum í Danmörku og Svíþjóð á síðustu árum enda margir Íslendingar búsettir á svæðinu.

Helsta ástæða þess að fáir gera sér ferð frá Íslandi á stórmótin í handboltanum er væntanlega dagsetningarnar frekar en eitthvað annað. Ferðahugurinn er ef til vill ekki mikill í fólki í janúar. Auk þess fá margir háa kreditkortareikninga í hausinn á þeim mánuði.