Ingvar Stefánsson fæddist 19. mars 1958 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. janúar 2018.

Foreldrar hans voru Stefán Jónsson, f. 6.1. 1931, d. 8.8. 2011, og Eva Óskarsdóttir, f. 12.4. 1934, d. 22.1. 2015.

Systkini Ingvars eru Margrét, f. 10.9. 1954, Ásta Edda, f. 4.1. 1962, og Ellert Kristján, f. 27.6. 1969.

Eiginkona Ingvars er Áslaug Hartmannsdóttir, f. 5.11. 1958. Börn Ingvars og Áslaugar eru: 1) Kristín Ósk, f. 29.10. 1984. Maki hennar er Emil Hjörvar Petersen, f. 7.5. 1984. 2) Hartmann, f. 15.3. 1989. Barnabörn Ingvars eru Ronja Áskatla Petersen, f. 20.9. 2015, og Þrándur Alvar Petersen, f. 8.7. 2017.

Ingvar var lærður pípulagningameistari. Hann vann lengst af hjá Íslenskum aðalverktökum. Einnig vann hann hjá Frumherja og nú síðast hjá Félagsbústöðum Reykjavíkurborgar.

Útför Ingvars fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 12. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku pabbi okkar, það er sárt að þurfa að kveðja þig svona fljótt en við finnum huggun í því að þú þjáist ekki lengur og fáir að hvíla í friði. Þú varst okkur góður faðir, hlýr og þolinmóður, vildir allt fyrir okkur systkinin gera og settir okkur ávallt í fyrsta sæti. Einnig í veikindunum, enda varstu mjög ákveðinn í að við héldum áfram okkar daglega lífi. Þú sýndir hvernig við getum tamið okkur vinnusemi og heiðarleika og þú gafst okkur frelsi til að gera mistök og læra af þeim, sem er okkur verðmætt um ókomna tíð. Ótal margar minningar koma fram þegar við skrifum þessa grein, minningar sem við munum geyma í hjarta okkar. Við söknum þess að grínast með þér og að kalla fram bros þitt. Takk fyrir alla þá ást og hlýju sem þú gafst okkur, takk fyrir að vera elskulegi pabbi okkar.

Kristín Ósk og Hartmann.

Ingvar, tengdafaðir minn og afi barnanna okkar Kristínar, var yfirvegaður og góðhjartaður maður sem verður sárt saknað. Skömmu eftir að við Kristín byrjuðum saman komst ég að því hversu náin hún var pabba sínum og hversu mikið traust hún bar til hans. Og það var auðvelt að sjá hvers vegna.

Ingvar hlustaði vel á alla þá sem hann talaði við, sá hið góða í fólki, hafði heilmikla og oft lúmska kímnigáfu og gat talað um hvað sem var. Æðruleysi hans og þýðlyndi gerði það að verkum að hægt var að kynnast honum vel og eftir því sem á leið gat ég talað við tengdaföður minn um allt milli himins og jarðar.

Handlagnari manni hef ég ekki áður kynnst. Bersýnilega naut hann þess að dytta að hverju sem var og oft þegar hann gekk til verks eða sýndi okkur hvernig ætti að laga eitthvað kviknaði áhugi á ýmsu sem maður hafði ekki hugmynd um að manni ætti eftir að finnast áhugavert. Ingvar var skýr og einbeittur og leiðbeindi vel, hvort sem það varðaði verklag eða að ráðleggja börnunum sínum. Hann fyllti mann vissu um að til væri lausn á öllum vandamálum.

Ég þekkti Ingvar í rúm ellefu ár og hlakkaði til að kynnast honum enn betur, sérstaklega eftir að börnin okkar fæddust. Áður hafði ég séð hversu vel hann ræktaði sambandið við börnin sín, hversu góður faðir hann var, og þegar hann tók barnabörnin, Ronju og Þránd, í fangið í fyrsta skipti var augljóst að þau voru í öruggum höndum; vandvirkni hans og vinsemd skilaði sér í nærgætni og hlýju. Ég vildi óska þess að ung börnin okkar hefðu fengið meiri tíma með afa sínum, en í staðinn munum við halda minningum um hann lifandi og leyfa þeim þannig að kynnast honum betur. Með þakklæti fyrir allt sem þú færðir okkur – hvíldu í friði, afi Ingvar.

Emil Hjörvar Petersen.

Ingvar, ég skal reyna að vera ekki væmin, ég veit þú þoldir það ekki.

Þú varst alltaf svo hógvær og spar á að láta ljós þitt skína. En þegar þú hrökkst í gang með brandarana og sögurnar þá lágum við í hlátri.

Fyndnasti og skemmtilegasti maður í heimi í mínum augum. Ég man í gamla daga þegar þú varst að svæfa Ella litla bróður, að þá laumuðumst við mamma oft inn í herbergi til að hlusta líka á sögurnar, sem þú skáldaðir upp á staðnum. Elli sofnaði að sjálfsögðu ekkert því það var svo gaman og við mamma skríktum af hlátri.

Þú varst mér fyrirmynd í einu og öllu og ótrúlegt hvað þú nenntir að hafa litlu systur í eftirdragi. Stundum fékkstu samt alveg nóg og sagðir að ég væri leiðinleg, en þá sagði ég bara „nei, ég er ekkert leiðinleg“ og þá var það búið.

Þú kenndir mér að lesa, spila, stríða, slást, hlusta á almennilega tónlist og í raun ólstu mig mest upp. Pabbi var alltaf að vinna fram á nótt á þessum árum og mamma var jú alltaf að spila á orgelið. Kannski aðeins ýkt en ég er bara að reyna að vera fyndin fyrir þig.

Við vorum stundum saman í herbergi og þá var alltaf allt fullkomið á þínum helmingi, en eins og sprengja mín megin. Þú vildir alltaf hafa snyrtilegt í kringum þig og allt á sínum stað. Dótið þitt voru gersemar, sem þú passaðir svo vel. Allt heilt og vel um gengið. Þannig maður varstu, „heill og sannur“.

Allir sem þig þekktu báru virðingu fyrir þér. Þú varst alltaf að hjálpa en það mátti aldrei hjálpa þér. Þú varst alltaf að dunda eitthvað og leiddist að hvíla þig. Því var það erfitt að horfa á þig berjast við ofureflið og missa líkamlega styrkinn, en andinn var alltaf sterkur og aldrei gafstu upp.

Takk fyrir alla hjálpina og ævintýrin í gegnum ævina, elsku hjartans brósi, og megi Guð og allir englar sitja um kring hjá Áslaugu þinni, Hartmanni og Kristínu Ósk. Missir þeirra er gríðarlega mikill því betri eiginmann, föður og afa er ekki hægt að hugsa sér.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þín systir,

Ásta.

Ingvar stóri bróðir minn er dáinn allt of snemma. Hvaða rugl er nú það? Eini maðurinn í heiminum sem ég gat sagt við „hei brósi“. Ingvar var annar af þeim tveim mönnum sem ég hef litið mest upp til um ævina. Hinn var pabbi okkar. Þvílíkur meistari sem Ingvar var. Alltaf svo rólegur og yfirvegaður. Alltaf svo pottþéttur og vandvirkur. Lét ekki auðveldlega koma sér úr jafnvægi og var með óskaplega mikla kímnigáfu, sem hann fór reyndar sparlega með. En vá, þvílík veisla þegar hann sleppti af sér beislinu og henti í grín og hlátur, þá fengu allir magapínu af hlátrasköllum.

Ég átti dásamlega æsku með systkinum mínum og foreldrum og brósi átti stóran þátt í að gera mér hana minnisverða og kærleiksríka. Kvöldsögurnar standa upp úr, þvílíkur sagnameistari og of lítið rými hér til að segja almennilega frá.

Ég man ófá skiptin þegar brósi var í herbergi sínu að reyna að læra og ég gjörsamlega gat ekki látið hann í friði. Hann henti mér iðulega út og læsti. Þá djöflaðist ég á hurðinni eða fór út í garð og hamaðist á glugganum. Ingvar gat jú eðlilega orðið pirraður en aldrei var hann vondur. Já, ég gat ekki látið brósa í friði, hann var svo óskaplega skemmtilegur. Já, ég elskaði að vera í kringum Ingvar. Hann var alltaf svo fjandi fyndinn og skemmtilegur. Svo kenndi mér hann bara lexíur ef ég átti það skilið og margar hittu beint í mark og ég fer enn eftir þeim. Síðan þegar hann var ekki heima gramsaði ég í herberginu hans og komst í allt góssið og skoðaði með mikilli virðingu. Það voru plötur, kassettur og spennandi tímarit. Þvílík veisla.

Ég var heldur ekki gamall þegar Ingvar var kominn með kærustu, kannski 6-7 ára, það var hún Áslaug okkar. Svakalega steinlá þetta hjá þeim og hefur gert alla tíð síðan. Ég ólst því upp og þekki lítið annað en þau tvö saman. Áslaug reyndist yndisleg viðbót við brósa og alla tíð hefur verið ákaflega gott að heimsækja þau og leita til þeirra. Það er orðið löng og góð saga og of langt mál að telja upp hér allar góðu stundirnar með þeim. Kristín og Hartmann komu til sögunnar og eru fyrir löngu orðin fullorðið fólk.

Já, það kom mér á óvart þegar ég settist niður og skrifaði til þín, brósi minn. Ég bjóst við að sorgin yfirtæki mig og ég kæmi engu niður á blað. En það lýsir þér bara best, elsku brósinn minn, hvernig ég minnist þín og hvað þú varst flottur. Endalaust fyndinn og fallegur og ég mun sakna þín um aldur og ævi og kveð þig hér í síðasta sinn.

Elsku Áslaug, Kristín, Hartmann, Emil, Ronja og Þrándur. Mikið ofboðslega var hann Ingvar stoltur af ykkur. Þið fjölskyldan voruð lífið hans og það er mér erfiðast að horfa upp á hann hverfa frá ykkur akkúrat núna þegar hann var hvað spenntastur fyrir nýjasta kafla lífsins með ykkur. „Afi“. Litlu molarnir Ronja og Þrándur voru það sem hjarta hans var hvað spenntast fyrir. Og þetta hlutverk að vera afi. Hann elskaði það og því er þetta svo sárt. Hann var ekki tilbúinn, hann átti eftir að gera helling með ykkur. Guð geymi ykkur, elskurnar mínar, og verndi og hjálpi ykkur í söknuði ykkar.

Elska ykkur öll.

Ellert Kristján Stefánsson.

Ég er orðlaus, hvað getur maður sagt, að missa besta vin sinn er verra en orð fá lýst.

Er þú greindist með krabbamein í apríl var ég að vona að þetta væri eitthvað sem þú mundir sigrast á en það kom í ljós að meinið hafði dreift sér og baráttan yrði erfið.

Þú tókst þessum veikindum með þvílíku æðruleysi, og fullviss um að senn væri allt á batavegi.

Leiðir okkar lágu saman þegar ég var að kynnast Hrafnhildi systur Áslaugar sem þú varst nýbúin að kynnast. Það myndaðist strax vinasamband okkar á milli. Við höfðum sömu áhugamál sem við dembdum okkur í. Við fengum okkur eins golfsett og fórum að æfa golf, við vorum að gutla við þetta ef við vorum ekki uppteknir á húsbílunum upp um fjöll og firnindi eða eitthvað annað sem við tókum okkur fyrir hendur.

Við áttum gæðastundir á gæsaveiðum þegar við biðum í gæsabyrginu hálfan eða heilan dag, þá var spjallað um alla heima og geima. Einnig eru hreindýraveiðarnar okkar eftirminnilegar, það voru yfirleitt þriggja daga ferðir austur sem gengu alltaf vel í góðum félagsskap.

Einnig fórum við og makar okkar oft saman í sumarbústað til að gera vel við okkur og oft fórum við í viðgerðarferðir í sumarbústaðina, því það var auðsótt mál að fá þig í reddingar ef þurfti að laga pípulagnir strax.

Það var aðdáunarvert hvað þú vannst öll þín verk af mikilli fagmennsku og rökvísi, það þurfti að vera rök fyrir öllu. Það voru oft miklar pælingar um það hvernig verkið hafði verið unnið og hvaða leið hafði verið farin og hvernig þetta væri svona og hinsegin og svo var farin faglega leiðin til að laga. Það var alltaf hægt að treysta á þig, hvort sem það var vinnutengt, í áhugamálunum eða á heimilinu. Takk fyrir allt.

Elsku vinur, þín verður sárt saknað og megi minningin lifa.

Innilegar samúðarkveðjur til Áslaugar, Hartmanns, Kristínu, Emils og barnabarnanna Ronju Áskötlu og Þrándar Alvars.

Þorkell Svarfdal Hilmarsson og Hrafnhildur Hartmannsdóttir.

„Hvert er tilefnið?“ spurðu vinnufélagarnir þegar ég kom með köku í vinnuna. „Nú, Ingvar á afmæli,“ sagði ég. Svo kom Ingvar með köku og þeir spurðu „Hver á afmæli?“ „Nú, Hallgrímur,“ svaraði hann. Við Ingvar áttum nefnilega sama afmælisdag.

Fallinn er frá einstakur ljúflingur langt um aldur fram. Við Ingvar unnum saman í nokkur ár hjá Frumherja. Það var gott að vinna með Ingvari, hann var úrræðagóður, samviskusamur og traustur, góður vinnufélagi. Og ekki voru nú hávaðinn og lætin í kringum hann. Hann var líka afi og hann ljómaði allur þegar hann talaði um litlu Ronju, afabarnið sitt.

Við Helga sendum innilegar samúðarkveðjur til Áslaugar og fjölskyldunnar. Minningin lifir um góðan mann. Guð veri með ykkur.

Hallgrímur.

Við kveðjum í dag góðan samstarfsfélaga okkar, Ingvar Stefánsson, sem hóf störf fyrir Félagsbústaði fyrri hluta ársins 2016. Hjá félaginu hafði hann umsjón með standsetningu íbúða ásamt því að sinna störfum er tengdust pípulögnum og hitakerfum, en á því sviði hafði Ingvar mikla þekkingu og reynslu.

Hann var fljótur að komast inn í starfsemina hjá Félagsbústöðum og var vel liðinn af samstarfsfólki og viðskiptavinum félagsins. Þó að hann væri ekki frekur á orðið og léti lítið fyrir sér fara var eftir því tekið hversu faglega og samviskusamlega hann vann öll sín störf.

Fyrri hluta ársins 2017 gerðu vart við sig veikindi hjá Ingvari og hann greindist í kjölfarið með alvarlegan sjúkdóm. Hann tók þessum slæmu tíðindum af mikilli yfirvegun og hélt áfram störfum sínum af ótrúlegri þrautseigju, þrátt fyrir að líkaminn bæri veikindum hans skýr merki.

Minningar um dugnað, lítillæti og fagmennsku vakna þegar við hugsum til Ingvars og um hann á einkar vel við hið fornkveðna úr Hávamálum:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Við vottum Áslaugu, eftirlifandi eiginkonu Ingvars, börnum þeirra og barnabörnum samúð okkar.

Fyrir hönd starfsfólks Félagsbústaða,

Auðun Freyr Ingvarsson.