[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Methafi Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Fyrir mér er það ekkert sérstakt að mæta á Evrópumót í Króatíu á nýjan leik 18 árum eftir að ég tók þar þátt í mínu fyrsta stórmóti.

Methafi

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Fyrir mér er það ekkert sérstakt að mæta á Evrópumót í Króatíu á nýjan leik 18 árum eftir að ég tók þar þátt í mínu fyrsta stórmóti. Ég hef áður tekið í þátt í tveimur stórmótum í Svíþjóð með nokkurra ára millibili auk þess sem ég hef margoft tekið þátt í leikjum með landsliðinu og félagsliðum í Króatíu á undangengnum 18 árum,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, en hann tekur nú þátt í sínu 21. stórmóti með landsliðinu, EM 2018 í Króatíu.

Fyrsta stórmót Guðjóns Vals var EM í Króatíu árið 2000. Hans fyrsti leikur í mótinu var 23. janúar gegn Rússum og fjórum dögum síðar skoraði hann sitt fyrsta EM-mark í leik við Slóvena. Reyndar urðu mörkin fimm í þeirri viðureign auk tveggja í lokaleik Íslands í mótinu og eins sigurleiknum, á Úkraínu, 26:25, í Rijeka 29. janúar. Guðjón Valur er langmarka- og leikjahæsti landsliðsmaður Íslands á EM og sennilega einn leikja- og markahæsti handknattleiksmaður í sögu Evrópumótanna.

„Mótin hafa verið misjöfn og árangurinn verið upp og ofan. Engu að síður hef ég alltaf mætt til leiks með sömu tilhlökkun yfir að taka þátt, mæta á staðinn og sjá hvaða vinna hefur verið lögð í gera mótið sem best úr garði,“ segir Guðjón Valur og bætir við að hann hafi aldrei litið á það sem sjálfsagðan hlut vera hluti af íslenska landsliðinu á stórmóti.

„Þess vegna hækkar aðeins blóðþrýstingurinn hjá mér þegar menn segja við mig að framundan sé enn eitt stórmótið hjá mér. Það er hvorki sjálfsagður hlutur að fá að klæðast landsliðsbúningnum né að taka þátt í stórmóti. Ég nýt þess í botn í hvert skipti sem ég er valinn til þess að leika fyrir íslenska landsliðið og ég ætla að gera það einnig að þessu sinni.“

Umgjörðin batnað í kringum ÓL

Guðjón Valur segir að margt hafi breyst í kringum landsliðið á þeim nærri 20 árum síðan hann var valinn í fyrsta sinn. Umgjörðin hafi eflst stiga af stigi en á upphafsárunum með landsliðið var HSÍ enn að rétta úr kútnum fjárhagslega eftir að heimsmeistaramótið sem haldið var hér á landi 1995.

„Starfið hefur gengið í hæðum og lægðum á þessu tíma. Umgjörðin hefur alltaf styrkst í kringum þátttöku okkar á Ólympíuleikum. Kannski er erfitt að fullyrða um þetta vegna þess að á þessum tíma hefur nokkrum sinnum verið skipt um þjálfara og annað starfsfólk. Með nýju fólki verða alltaf breytingar. Síðan var hrunið sem hafði heldur betur áhrif á íþróttalífið á Íslandi og sennilega fengið flest ef ekki öll sérsambönd ÍSÍ að finna fyrir því.

Vissulega hefur margt mátt betur fara í kringum landsliðið á þeim árum sem ég hef verið hluti af því. Hinsvegar verður að hafa það í huga að HSÍ rekur mörg landslið og báðum kynjum þar sem sami metnaður hefur verið lagður í þau öll. Þegar ég tók þátt í mótum og keppni með yngri landsliðunum þá varð maður að safna styrkjum og leggja út fyrir kostnaði við ferðirnar. Sama er upp á teningnum hjá yngri landsliðunum í dag, meira en tveimur áratugum síðar.

Fagmennskan er fyrir hendi hjá HSÍ og viljann vantar ekki. Hinsvegar hefur skort peninga til þess að gera þetta allt saman stærra og meira,“ segir Guðjón Valur og bendir á að íslenskir landsliðsmenn séu ekki á launum þegar þeir taka þátt í leikjum og mótum eða í undirbúningi fyrir stórmót.

Rekin á megrunarfæði

„HSÍ og landsliðin eru rekin á eins miklu megrunarfæði og mögulegt er. Unnið er eins vel úr þeim fjármunum sem fyrir hendi eru og kostur er á. Því er hinsvegar ekki að leyna að maður rennir öfundaraugum til sérsambands sem getur gert allt fyrir sitt íþróttafólk, jafnt karla sem konur. Um leið verður maður að hafa í huga að til eru sérsambönd sem eru í meiri erfiðleikum í sínum rekstri en HSÍ,“ sagði Guðjón Valur sem telur mikilvægt að framlög ríkisins til afrekssjóða ÍSÍ hafi verið aukin. Hann segist vonast til að áfram verði bætt í.

„Ríkið hefur aukið framlag sitt verulega í afreksjóð ÍSÍ. Aukningin hefur hjálpað okkur eins og öðrum sérsamböndum til þess að búa okkur sem best undir stórmót.

Hinsvegar sitjum við enn uppi með Laugardalshöllina sem virðist ætla að verða eins og sagan endalausa. Laugardalshöll er barn síns tíma, svarar ekki kröfum nútímans auk þess sem hún er ekki heimili og athvarf okkar. Vonandi rennur sú stund upp fyrr en síðar að landslið Íslands fái betri aðstöðu til æfinga og keppni en boðið er upp á í dag í Laugardalshöllinni,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik karla.