Danaleikurinn Ingimundur Ingimundarson, Logi Geirsson, Sverre Jakobsson og Arnór Atlason fagna sigrinum sæta gegn Dönum í Austurríki 2010.
Danaleikurinn Ingimundur Ingimundarson, Logi Geirsson, Sverre Jakobsson og Arnór Atlason fagna sigrinum sæta gegn Dönum í Austurríki 2010. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upprifjun Kristján Jónsson kris@mbl.is Í hefðbundinni upprifjun á handboltasögunni í EM-blaði Morgunblaðsins eru að þessu sinni rifjaðir upp þrír sætir sigrar hjá Íslandi í lokakeppni Evrópumóts karla í gegnum tíðina.

Upprifjun

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Í hefðbundinni upprifjun á handboltasögunni í EM-blaði Morgunblaðsins eru að þessu sinni rifjaðir upp þrír sætir sigrar hjá Íslandi í lokakeppni Evrópumóts karla í gegnum tíðina. Sigurleikirnir sem urðu fyrir valinu komu gegn Þjóðverjum, Dönum og Norðmönnum á tólf ára tímabili, frá 2002 til 2014.

Ísland vann Þýskaland í fyrsta skipti á stórmóti í handbolta, eftir að Þýskaland sameinaðist á ný, á EM í Svíþjóð árið 2002. Liðin mættust þá í síðasta leiknum í milliriðlinum og voru bæði taplaus í mótinu þegar að leiknum kom.

Liðin áttust við í Västerås og voru Þjóðverjar öruggir um sæti í undanúrslitum keppninnar enda með afskaplega vel mannað lið á þessum árum. Íslendingar þurftu að ná stigi út úr leiknum en tækist það ekki gátu stórþjóðirnar Frakkland og Spánn blandað sér í slaginn um lausa sætið í undanúrslitum. Flækti það aðeins stöðu íslenska liðsins að hafa gert jafntefli gegn bæði Spánverjum og Frökkum.

Með sannfærandi sigri, 29:24, tryggði Ísland sér hins vegar efsta sæti milliriðilsins og var þá taplaust eftir sex leiki í riðlinum og milliriðlinum.

Tveir sigrar gáfu sjálfstraust

Ekki var mikið svigrúm fyrir liðin til að koma hvort öðru á óvart. Fyrir utan að hafa spilað fimm leiki hvort í mótinu mættust Ísland og Þýskaland tvívegis á Íslandi í vináttulandsleikjum í aðdraganda keppninnar. Ísland vann þá báða 28:24 og fóru landsliðsmennirnir með gott sjálfstraust til Svíþjóðar. Á EM munaði því litlu að nákvæmlega sömu úrslitin yrðu þrjá leiki í röð.

Ísland byrjaði vel í leiknum og náði frumkvæðinu. Fór liðið með gott fjögurra marka forskot, 15:11, til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleiknum. Íslenska liðið spilaði hratt í mótinu og keyrði fram þegar færi gafst. Ólafur Stefánsson og Patrekur Jóhannesson voru báðir afskaplega snjallir í því að koma með boltann fram í hröðum sóknum. Þegar vörnin hélt í mótinu skoraði liðið oft úr hraðaupphlaupum eða úr annarri bylgju. Átti íslenska liðið marga leikkafla í mótinu þar sem það valtaði yfir andstæðingana. Má ef til vill segja að á EM 2002 hafi íslenska landsliðið í fyrsta skipti spilað þann hraða leik sem einkennir handboltann í dag. Um fimm ár voru liðin frá því að leyft var að taka „hraða miðju“ í íþróttinni. Guðmundur Guðmundsson stýrði liðinu og Einar Þorvarðarson var honum til aðstoðar.

Komnir níu mörkum yfir

Þjóðverjum tókst ekki að saxa á fjögurra marka forskotið í síðari hálfleik því íslenska liðið gaf í um miðbik síðari hálfleiks. Forskotið fór upp í níu mörk þegar Patrekur kom Íslandi yfir 25:16 en hann var markahæstur með átta mörk. Sigfús Sigurðsson gerði sjö en hann fann sig virkilega vel í fyrsta skipti með landsliðinu í mótinu. EM 2002 var ein besta keppni Guðmundar Hrafnkelssonar á glæsilegum ferli með landsliðinu. Hann varði 14 skot í sigrinum á Þjóðverjum og mörg hver úr dauðafærum. Fimm af línunni og eitt vítakast.

„Sigur Íslendinga var fyllilega verðskuldaður og ég vil óska þeim kærlega til hamingju með hann. Mína menn skorti einbeitingu í leiknum, ef til vill var það vegna þess að við vorum þegar öruggir um sæti í undanúrslitunum, en stefna okkar var eigi að síður að halda okkar striki, vinna alla leiki og vera efstir í riðlinum. Það tókst ekki, ég verð að sætta mig við að hafa tapað fyrir góðu liði,“ sagði Heiner Brand, hinn kunni landsliðsþjálfari Þýskalands, í Morgunblaðinu daginn eftir, 1. febrúar.

„Eftir að leikurinn var hafinn var aldrei vafi í mínum huga að við myndum vinna, allir voru fullkomlega með hugann við leikinn og gerðu frábæra hluti á leikvellinum,“ sagði Guðmundur þjálfari í samtali við Ívar Benediktsson.

Íslendingar töpuðu fyrir heimamönnum, Svíum, í undanúrslitunum og fyrir Dönum í leiknum um 3. sætið. Um var að ræða jöfnun á besta árangri Íslands á stórmóti og var Ólafur Stefánsson valinn í úrvalslið mótsins.

Urðu að vinna Dani

Sigrar gegn Dönum á íþróttavellinum eru ávallt kærkomnir fyrir Íslendinga. Einn sá mikilvægasti sem unnist hefur gegn Dönum í handboltanum kom í síðasta leik riðlakeppninnar á EM í Austurríki 2010.

Ísland hóf keppnina á tveimur jafnteflum gegn Serbíu og Austurríki. Skildu þau bæði eftir beiskt bragð í munni landsliðsmannanna sem flestir höfðu unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking einu og hálfu ári fyrr. Snorri Steinn Guðjónsson brenndi af vítakasti á lokasekúndunum gegn Serbíu og á lokakaflanum gegn Austurríki missti Ísland niður þriggja marka forskot. Brugðust þá krosstrén sem máltækið getur um en Guðjón Valur Sigurðsson brenndi af dauðafæri í næstsíðustu sókninni og Ólafur Stefánsson tapaði boltanum í þeirri síðustu.

Saga landsliðsins geymir hins vegar marga frábæra leiki þegar liðið hefur verið komið í erfiða stöðu í keppnum. Á þessari öld hafa Íslendingar og Danir glettilega oft gert jafntefli á handboltavellinum. Til dæmis á ÓL í Peking. Í Linz hinn 23. janúar 2010 hafði Ísland hins vegar betur 27:22. Sigur sem í raun lagði grunninn að bronsverðlaunum Íslands í keppninni því Ísland fór með fjögur stig með sér í milliriðilinn.

Fyrstu mörk Arons

Íslendingar voru geysilega ákveðnir þrátt fyrir sálrænt erfiða niðurstöðu í leikjunum á undan. Ísland komst snemma í 7:2 gegn Dönum en Danir svöruðu því með átta mörkum í röð. Leikurinn markaði þó þau tímamót að þar leit fyrsta mark Arons Pálmarssonar fyrir A-landsliðið á stórmóti dagsins ljós. Hann var settur á miðjuna um miðjan fyrri hálfleik og skilaði tveimur mikilvægum mörkum fyrir hlé. Þá var Ólafur Guðmundsson á leikskýrslu í fyrsta skipti á stórmóti.

Var Ísland yfir 15:13 að loknum fyrri hálfleik. Íslenska liðið gat varla óskað sér betri frammistöðu fyrri hluta síðari hálfleiks gegn ríkjandi Evrópumeisturum því Ísland jók forskotið í 20:14. Staðan var þá orðin vænleg. Danir minnkuðu muninn í 23:20 en komust ekki nær og Íslendingar lönduðu sigri án þess að handboltaunnendur þyrftu að fálma eftir sprengitöflunum eins og svo oft á lokamínútunum þegar þessar þjóðir takast á.

Björgvin varði 20 skot

Á viðbrögðum manna að leiknum loknum mátti sjá að þeir voru sammála um að markvarsla og varnarleikur hefðu gert gæfumuninn. Mesta hrósið fengu því þeir Sverre Jakobsson, Ingimundur Ingimundarson og Björgvin Páll Gústavsson sem varði 20 skot og þar á meðal vítakast frá Lars Christiansen sem var ein öruggasta vítaskytta af sinni kynslóð í heiminum. Sverre og Ingimundur náðu að binda vörnina afar vel saman sem þótti mikil framför frá fyrstu tveimur leikjunum. Guðjón Valur var markahæstur með sex mörk og gerði alls 39 mörk á mótinu eins og Arnór Atlason, sem aldrei hefur verið jafn drjúgur í markaskorun og í Austurríki 2010. Ólafur Stefánsson var valinn í úrvalslið mótsins.

Danir áttu ekki möguleika

„Danirnir áttu hreinlega ekki möguleika í leiknum. Þeir hlupu á vegg á móti stórkostlegri vörn okkar, Björgvin var frábær í markinu og stemningin og einbeitingin sem maður upplifði í liðinu var meiriháttar,“ sagði þjálfarinn Guðmundur Guðmundsson við Morgunblaðið en honum til aðstoðar voru Óskar Bjarni Óskarsson og Gunnar Magnússon.

Hans Óttar Lindberg minntist einnig á vörn Íslendinga. „Íslendingarnir spiluðu rosalega flottan leik og við áttum bara ekki möguleika gegn þeim að þessu sinni. Vörn þeirra var alveg meiriháttar og við áttum bara engin svör á móti henni,“ sagði hinn íslenskættaði Lindberg í samtali við Guðmund Hilmarsson.

Góð byrjun gegn Norðmönnum

Karlalið Norðmanna hefur sótt mjög í sig veðrið á alþjóðavettvangi á allra síðustu árum. Ekki hefur svo sem vantað fyrirmyndir í kvennaliði Þóris Hergeirssonar þar í landi til að læra af. Íslendingum hefur þó tekist að halda taki sínu á Norðmönnum í stórmótunum. Á EM í Danmörku árið 2014 lentu þjóðirnar saman í geysilega sterkum riðli því þar voru einnig Ungverjar og Spánverjar.

Fyrsti leikur Íslands á mótinu var gegn Noregi og var geysilega mikilvægt að landa sigri til að komast áfram í milliriðil. Spánn var ríkjandi heimsmeistari og Ungverjaland lék um verðlaun á ÓL tveimur árum fyrr í London en minnumst ekki orði á það meir.

Ísland sigraði Noreg 31:26 hinn 12. janúar í Álaborg. Eins og í hinum tveimur leikjunum sem hér hafa verið rifjaðir upp var byrjun íslenska liðsins í leiknum sérlega góð. Ísland komst í 6:1 og var 16:10 yfir að loknum fyrri hálfleik.

Lykilmaður í sóknarleik Íslands, Aron Pálmarsson, sneri sig á ökkla á fyrsta korterinu og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hann hafði þá gert tvö mörk en íslensku landsliðsmennirnir létu ekki þá blóðtöku á sig fá. Liðið lék virkilega vel og leit aldrei um öxl. Um tíma í síðari hálfleik var staðan 22:19 en spennan í leiknum varð ekki meiri en svo. Sverre Jakobsson tók hraustlega á Norðmönnum og fékk þrjár brottvísanir en það kom ekki að sök. Vignir Svavarsson „fór hamförum“ í miðri vörninni sagði í umfjöllun Ívars Benediktssonar í Morgunblaðinu.

Guðjón með 200. EM-markið

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með 9/2 mörk og rauf 200 marka múrinn í Evrópuleikjum í leiknum. Alexander Petersson var ekki með á mótinu og Ólafur Stefánsson hafði látið staðar numið með landsliðinu. Hlutverk Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar var því mun stærra en yfirleitt áður og hann skilaði sex mörkum gegn Noregi.

Aron Kristjánsson stýrði íslenska liðinu í mótinu og Gunnar Magnússon var honum til aðstoðar. „Það var mikil grimmd í mönnum í upphafi leiksins. Þannig tókst okkur aðeins að slá Norðmenn út af laginu. Vörnin var frábær og markvarslan einnig sem gaf okkur kost á að refsa Norðmönnum með hraðaupphlaupum. Auk þess var sóknarleikurinn beittur, var vel stýrt. Þar af leiðandi var um að ræða afar góðan leik hjá okkur að mörgu leyti,“ sagði Aron við Morgunblaðið.

Frábært að geta slökkt í þeim

„Þetta var alveg geggjað og gaman að eiga smáhlutverk í þessum flotta leik,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson við Morgunblaðið en hann lék sinn fyrsta leik á stórmóti með íslenska landsliðinu. Gunnar þurfti að láta til sín taka vegna meiðsla Arons og gerði það. „Norðmenn voru kokhraustir fyrir leikinn og því frábært að geta slökkt í þeim á sannfærandi hátt.“

Ísland hafnaði í 5. sæti á EM 2014 eftir sigur á Póllandi, 28:27, í leiknum um 5. sætið. Ísland tapaði einungis tveimur leikjum af sjö þegar upp var staðið og gerðist það gegn toppliðum, Spáni og Danmörku.