— Morgunblaðið/Hanna
Yfir 70 manns höfðu leitað til bráðamóttökunnar á Landspítalanum um miðjan dag í gær vegna hálkuslysa. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir að um hafi verið að ræða bæði lítil og stærri slys.

Yfir 70 manns höfðu leitað til bráðamóttökunnar á Landspítalanum um miðjan dag í gær vegna hálkuslysa. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir að um hafi verið að ræða bæði lítil og stærri slys. „Í þessari tölu eru alvarleg brot sem kröfðust aðgerða, s.s. ökklabrot og mjaðmabrot,“ segir Jón.

Að sögn Jóns Halldórs Jónassonar, upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg, ræsti vaktmaður út allan tiltækan mannskap til að hefja söltun og söndun á stofnleiðum í borginni í gærnótt. Spurður um mikla hálku hjá skólum í borginni segir hann að skólarnir hafi aðgang að salti og sandi til að dreifa um sitt nærumhverfi. „Við dreifum salti og sandi til skólanna og stofnana. Þannig að þar eru úrræði til staðar og fólk getur kastað á helstu gönguleiðir,“ segir Jón.

Skaðabótaskylda getur myndast ef opinberir aðilar eða einkaaðilar tryggja ekki aðkomu að þeim stöðum sem fólk venur komur sínar. „Eldsnemma á morgnana er möguleiki á að þeir séu ekki bótaskyldir ef einhver dettur í hálku. Hvað varðar skólana þá er það um leið og kominn er tími til að mæta í skólann. Hvort sem það eru krakkarnir, foreldrar eða starfsmenn, þá er talað um að það eigi að vera búið að gera ráðstafanir ef það eru greinilega þannig aðstæður úti,“ segir Bergrún Elín Benediktsdóttir, lögmaður hjá lögfræðistofunni Fulltingi.

Hún bætir við að því lengur sem líði á daginn aukist sú ábyrgð að bregðast við hálkunni. „Ef það er liðið lengra á daginn og aðstæður hafa verið slæmar um morguninn er alveg klárt mál að það á að vera löngu búið að salta eða sanda,“ segir Bergrún. mhj@mbl.is