Haukur Þór Bergmann fæddist á sjúkrahúsinu í Keflavík 28. október 1959. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 29. desember 2017.

Haukur var sonur hjólanna Hauks S. Bergmann, skipstjóra frá Fuglavík á Miðnesi, f. 22.5. 1932, d. 16.9. 2013, og Þóru Jónsdóttur verslunarkonu frá Hvítanesi í Kjós, f. 18.9. 1938.

Bróðir Hauks er Sigurður Bergmann, f. 1961.

Haukur kvæntist Aðalheiði Kristjánsdóttur, f. 12.2. 1963, frá Kópavogi hinn 25.6. 1994. Foreldrar hennar eru Kristján Ebenesarson, f. 20.5. 1924, d. 16.9. 2007, og Halldóra Gísladóttir, f. 31.3. 1926. Í fyrstu bjuggu þau Haukur og Aðalheiður í Kópavogi en fluttu árið 1999 í Kögursel í Reykjavík. Börn Hauks og Aðalheiðar eru: 1) Kristján Haukur, f. 1992 (andvana fæddur). 2) Halldóra Rún, f. 1993. 3) Þóra Lilja, f. 1995. 4) Hekla Lind, f. 1999.

Haukur útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1985 sem tölvunarfræðingur og starfaði sem slíkur, fyrst hjá Sparisjóðnum í Keflavík, þá hjá Tölvumiðstöð sparisjóðanna (TERIS) og síðan hjá Reiknistofu bankanna.

Haukur var frá unga aldri öflugur skákmaður. Hann var virkur félagi og keppnismaður hjá Skákfélagi Keflavíkur (síðar Skákfélag Reykjanesbæjar) og var formaður félagsins um skeið.

Útför Hauks verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 12. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi okkar. Við erum þér ævinlega þakklátar. Þakklátar fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur.

Þakklátar fyrir hvað þú varst alltaf stoltur af okkur. Þakklátar fyrir nærveru þína. Þakklátar fyrir kærleikann sem bjó í þínu hjarta. Þakklátar fyrir þolinmæði þína. Þakklátar fyrir fimmaurana þína. Þakklátar fyrir hvað þú varst góður eiginmaður, pabbi, sonur, bróðir og vinur. Þakklátar fyrir að minnast þess hversu mikilvægt það er að meta lífið sem við eigum.

Þrátt fyrir að nota öll fallegustu orðin í tungumálinu okkar getum við ekki lýst manninum sem þú varst. Þú gafst okkur ómetanlega gjöf, sem ekki er hægt að setja verðmiða á. Við munum ávallt minnast þess hversu hógvær, einlægur og hjálpsamur þú varst og lífsgleðina sem bjó í hjarta þér. Þessa gjöf munum við geyma í hjartanu, út allt lífið.

„Pabbi minn er besti pabbi í öllum heiminum, hann er sterkari en pabbi þinn!“ Flestir kannast við þennan frasa og notaði ég hann óspart á yngri árum, án þess þó að rýna frekar í hann.

Í dag trúi ég honum, hjartað hans var gert úr gulli. Hann var besti pabbi í öllum heiminum.

Elsku pabbi okkar.

Þú fórst allt of fljótt

lífsgleðin dofnaði

og fyrr en varði varð allt hljótt.

Við munum ávallt sakna þín

minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

(Halldóra Rún Bergmann)

Með sár í hjarta

ég vakna hvern dag.

Bíð eftir að hann kalli

en það er ekkert svar.

Pabbi minn,

ég mun alltaf sakna þín.

Betri pabba er ekki hægt að finna.

Við söknum þín.

(Þóra Lilja Bergmann)

Orð fá ekki lýst hversu mikið

ég mun sakna þín.

Í litla puttanum þínum

var meiri góðmennska

en í öllum líkamanum hjá flestu fólki.

Þú munt ávallt lifa í hjarta mínu

og minningu.

(Hekla Lind Bergmann)

Við kveðjum þig frá okkar dýpstu hjartarótum.

Þínar dætur,

Halldóra Rún, Þóra Lilja og Hekla Lind.

Elsku bróðir. Ekki óraði mig fyrir því fyrir örfáum dögum að þessi staða gæti komið upp. Þú, stálhraustur maðurinn, fallinn frá. Þú sem varst bara eins og þú átt að þér að vera í boðinu hjá mömmu á jóladag, hress og léttur í lund eins og alltaf. Þú varst alltaf stóri bróðir minn. Ekki bara á uppvaxtarárum okkar heldur út allt lífið.

Alltaf gat ég leitað til þín og þú alltaf reiðubúinn að miðla og leiðbeina. Mér er erfitt að taka út einhverjar tilteknar minningar og festa á blað en þær hellast yfir mig og þá aðallega æskuminningar frá Faxabrautinni í Keflavík og þú þar í hlutverki rólega hæverska stóra bróðurins að hemja og leiðbeina þeim yngri þegar einhver galsinn og gauragangurinn var við það að fara úr böndunum.

Þegar við síðan uxum úr grasi og stofnuðum okkar fjölskyldur var eftir sem áður alltaf hægt að leita til þín með hvaða erindi sem var. Þín er sárt saknað hér af okkur Sollu og strákunum en bjartar minningar lifa. Elsku mamma, Heiða, Dóra, Þóra og Hekla. Ég vona að þið finnið þann styrk sem þarf til að fara í gegnum sorgina og sársaukann á þessum erfiða tíma.

Sigurður Bergmann.

„Dáinn, horfinn!“ – Harmafregn!

Hvílíkt orð mig dynur yfir!

En eg veit, að látinn lifir.

Það er huggun harmi gegn.

(JH)

Haukur Bergmann er dáinn. Langt fyrir aldur fram. Það er ótrúlegt og yfirþyrmandi. Hvað getur maður sagt í slíkum aðstæðum?

Haukur var vinnufélagi okkar um árabil, vel látinn, elskulegur samstarfsmaður. Yfirvegun, rólyndi, skarpar gáfur, stálminni, nákvæmni, hjálpsemi og þolinmæði voru hans persónueinkenni. Jafnframt ákafa og áhuga á keppnisíþróttum, fótbolta, golfi og skák.

Yfirbragð Hauks var vinsamlegt og velviljað. Hann skipti varla skapi svo teljandi væri, en brosti hlýlega og hló að ýmissi fyndni, þótt hann væri oft alvarlegur í bragði og að því er virtist niðursokkinn í þönkum sínum.

Hvað myndi maður segja við Hauk núna, ef þess væri kostur?

„Elsku Haukur! Takk fyrir samveruna. Minningin um þig mun lifa meðal okkar og í hverju einu hjarta.

Þú auðgaðir líf okkar með nærveru þinni. Traustið sem við fundum til þín bætti líf okkar og gerði vinnustað okkar betri.“

Við vottum fjölskyldu Hauks innilega samúð og biðjum henni blessunar á erfiðum tímum.

Fyrir hönd vinnufélaga hjá Reiknistofu bankanna,

Baldur Pálsson.