Var áreitt Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur lýst einelti og kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hálfu þjálfara síns.
Var áreitt Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur lýst einelti og kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hálfu þjálfara síns. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Konur í íþróttum sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að tekið sé föstum tökum á kynbundnu ofbeldi og misrétti innan íþróttahreyfingarinnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Konur í íþróttum sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að tekið sé föstum tökum á kynbundnu ofbeldi og misrétti innan íþróttahreyfingarinnar. Undir yfirlýsinguna skrifa 462 konur og með fylgja 62 frásagnir úr íþróttaheiminum af kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi og mismunun.

Í yfirlýsingunni segir að stúlkur og konur eigi skilið að fá að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni.

„Við setjum því niður fótinn og biðjum um leikhlé. Við sættum okkur ekki við mismunun, ofbeldi eða áreitni og köllum eftir breytingum. Við krefjumst þess að málið sé tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd, þjálfarar og aðrir innan íþróttanna líti í eigin barm og lofi stúlkum og konum breytingum til frambúðar,“ segir þar.

Einnig er rakið að mikið valdamisræmi sé milli iðkenda og þjálfara og þeirra sem starfa í kringum íþróttir. „Vandamálið er sérstaklega viðkvæmt þar sem stór hluti iðkenda er börn og unglingar. Hvers konar ofbeldi og áreitni grefur undan sjálfstrausti, sjálfsvirðingu og vellíðan og fyllir þann sem fyrir því verður af skömm, sjálfsásökunum og ótta sem svo hefur áhrif á árangur.“

Var lögð í einelti og áreitt

Í einni af frásögnunum 62 rekur Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, það hvernig þjálfari hennar í Noregi árið 2015 lagði hana í einelti á æfingum og áreitti hana kynferðislega utan þeirra. Þjálfarinn hringdi í hana, sendi skilaboð og sendi óviðeigandi myndir og myndbönd af sér. Hólmfríður lýsir aðstæðum sínum þannig að maðurinn hafi haft „einhvern veginn stjórn á mér allan sólarhringinn,“ og hún hafi grátið á æfingum, í hálfleik og eftir leiki. Á endanum fór hún að taka upp öll símtöl frá honum og samtöl við hann og þegar hún lét stjórn félagsins þau í té var þjálfarinn á endanum rekinn. Hólmfríður rekur það hversu alvarlegar afleiðingar þetta hafði fyrir hana og brýnir fyrir öðrum að berjast á móti: „Eitt sem ég get sagt er að maður á að segja strax frá þegar hlutirnir eru ekki í lagi og standa með sjálfum sér.“

Yfir fimm þúsund undirskriftir

Íþróttakonur bætast með yfirlýsingu sinni í hóp tólf annarra stétta sem sagt hafa sögur sínar og krafist aðgerða í tengslum við #metoo-byltinguna. Áður höfðu konur innan menntageirans, í læknastétt, í heilbrigðisþjónustu, í fjölmiðlum, konur í flugi, konur í réttarvörslukerfinu, konur í hugbúnaðar- og tækniiðnaði, í sviðslistum og kvikmyndagerð, í vísindasamfélaginu, konur í tónlist, konur í verkalýðshreyfingunni og konur í stjórnmálum látið til sín taka opinberlega. Alls hafa yfir fimm þúsund konur ritað undir þessar yfirlýsingar og sögurnar sem með fylgja eru komnar yfir sex hundruð.

Aðgerðahópur gegn áreitni

Vinnueftirlitið stóð fyrir fundi um áreitni á vinnustöðum í gær. Yfirskrift fundarins var Áreitni á vinnustöðum - nei takk. Þar undirrituðu fulltrúar stjórnvalda og vinnumarkaðar viljayfirlýsingu um að líða ekki kynferðislega áreitni. Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra, upplýsti að skipa ætti starfshóp til að kortleggja umfang kynferðislegrar áreitni á vinnumarkaði og aðgerðahóp, sem stjórnvöld og atvinnurekendur ættu fulltrúa í, til að stemma stigu við áreitninni.