Keppnishöllin Spaladium Arena í Split þar sem Ísland leikur gegn Svíþjóð, Króatíu og Serbíu á næstu dögum. Flautað er til leiks 17.15 í dag.
Keppnishöllin Spaladium Arena í Split þar sem Ísland leikur gegn Svíþjóð, Króatíu og Serbíu á næstu dögum. Flautað er til leiks 17.15 í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Split Kristján Jónsson kris@mbl.is Borgin Split verður vettvangur A-riðils okkar Íslendinga á EM. Borgin er sú næststærsta í Króatíu og vinsæll ferðamannastaður en hún liggur að Adríahafinu.

Split

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Borgin Split verður vettvangur A-riðils okkar Íslendinga á EM. Borgin er sú næststærsta í Króatíu og vinsæll ferðamannastaður en hún liggur að Adríahafinu. Á svæðinu búa tæplega 300 þúsund manns eða nokkuð svipað og á Íslandi.

Viðeigandi er að riðill á stórmóti sé spilaður í borginni því þar er geysilega mikill íþróttaáhugi og afar fjölbreytt íþróttalíf. Sjálfir eiga íbúarnir það til að kalla Split mestu íþróttaborg heimsins. Stærsti íþróttaviðburðurinn sem fram hefur farið í borginni er EM í frjálsum árið 1990.

Frægasti handboltamaður Króatíu, í það minnsta eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur, Ivano Balic er fæddur í Split. Hann var í lykilhlutverki þegar Króatía varð ólympíumeistari 2004 og heimsmeistari 2003. Balic var valinn besti leikmaðurinn á fimm stórmótum landsliða í röð frá 2004-2007.

Vinsælasta knattspyrnulið Króatíu, Hadjuk Split, er í borginni og víðfrægt er hversu mikinn stuðning liðið fær. Stuðningsmannafélög liðsins má til dæmis finna í Þýskalandi, Írlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Treyja númer 12 verður ekki notuð framar hjá Hadjuk til heiðurs stuðningsmönnum liðsins, með vísan í að stuðningsmenn geti verið tólfti maðurinn á vellinum. Kunnir knattspyrnumenn eins og Slaven Bilic, Igor Tudor og Stipe Pletikosa eru frá Split. Stjörnur úr bronsliðið Króatíu á HM 1998 léku með Hadjuk um tíma: Robert Jarni, Alen Boksic og Igor Stimac.

Ivanovic og Vlasic

Íþróttastjörnur sem skarað hafa fram úr í ýmsum greinum hafa haft búsetu í borginni og þar má nefna tenniskappann Goran Ivanovic sem sigraði á Wimbledon 2001 og hástökkvarann Blönku Vlasic sem bæði varð heims- og Evrópumeistari. Auk þess státar Split af ólympíumeisturum í ýmsum greinum eins og sundi, sundknattleik og róðri. Íþróttalífið er borginni er sérlega fjölskrúðugt en þar dafna einnig ágætlega greinar eins og rugby og hafnabolti.

Körfuboltalið borgarinnar KK Split var besta lið Evrópu undir lok þess tíma sem Júgóslavía var til. Liðið varð Evrópumeistari þrjú ár í röð. Lykilmenn í liðinu, sem og landsliðinu sem varð heims- og Evrópumeistari, þeir Toni Kukoc og Dino Radja, eru frá Split. Báðir léku þeir síðar í NBA.