Tíunda sinn í röð tekur íslenska landsliðið þátt í EM karla í handknattleik. Mörgum þykir þátttakan vera sjálfsagð en hún er það ekki. Íslenska landsliðið tók ekki þátt í þremur fyrstu Evrópumótunum, 1994, 1996 og 1998.
Tíunda sinn í röð tekur íslenska landsliðið þátt í EM karla í handknattleik. Mörgum þykir þátttakan vera sjálfsagð en hún er það ekki. Íslenska landsliðið tók ekki þátt í þremur fyrstu Evrópumótunum, 1994, 1996 og 1998. Loks vannst sæti í lokakeppninni sem fram fór í ársbyrjun 2000, eftir að stiginn var krappur dans í leikjum við Sviss.

Raunar voru forráðamenn HSÍ og landsliðsþjálfarinn ekki betur upplýstir um reglurnar sem giltu að þeir voru ekki vissir í leikslok í Kaplakrika vorið 1999, eftir síðari leikinn við Sviss hvort Ísland væri komið inn á EM eða ekki. Þáverandi framkvæmdastjóri HSÍ bað þjóðina afsökunar á að hafa ekki aflað sér gleggri upplýsinga fyrir leikinn mikilvæga.

Eftir níu marka tap í Aarau, 29:20, þá sneri íslenska landsliðið við blaðinu í síðari leiknum og vann með níu marka mun, 32:23. Julian Duranona skoraði síðasta mark Íslands með þrumufleyg af 13 metra færi þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiktímanum. Marki sem fáir fögnuðu fyrr en löngu síðar þegar í ljós kom að stórsigrar íslenska liðsins á Kýpur, sem var þriðja liðið í riðli undankeppninnar, riðu baggamuninn.

Til að kóróna vitleysuna í leikslok var landsliðsmönnum Íslands meinað að tala við blaðamenn Morgunblaðsins vegna óánægju með gagnrýni sem landsliðið og landsliðsþjálfari fékk á síðum blaðsins eftir fyrri viðureignina í Aarau. Sem betur fer höfðu nokkrir leikmenn bein í nefinu til að virða bannið að vettugi.

Með fyrrgreindum leik við Sviss í Kaplakrika lauk landsliðsferli Geirs Sveinssonar, þá fyrirliða til margra ára. Geir er á ný kominn í landshópinn. Að þessu sinni sem landsliðsþjálfari þar sem hann stýrir lítt öfundsverðu hlutverki að leiða kynslóðaskipti í landsliðinu á sama tíma og krafa er gerð um árangur.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá leiknum við Sviss í Kaplakrika. Forsvarsmenn HSÍ og leikmenn landsliðsins á síðustu árum hafa sem betur fer verið betur búnir undir hvað bíður þeirra en þeir voru þessa vordaga síðla í maí fyrir nærri 19 árum.