[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álfþór B. Jóhannsson fæddist á Siglufirði 12.1. 1933 og ólst þar upp fyrstu fimm árin. Þá flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar þar sem þau bjuggu næstu fimm árin. Þau fluttu síðan til Reykjavíkur er Álfþór var tíu ára.

Álfþór B. Jóhannsson fæddist á Siglufirði 12.1. 1933 og ólst þar upp fyrstu fimm árin. Þá flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar þar sem þau bjuggu næstu fimm árin. Þau fluttu síðan til Reykjavíkur er Álfþór var tíu ára. Þar átti hann heima þar til hann flutti með sína fjölskyldu vestur á Seltjarnarnes 1969, eftir þriggja ára dvöl við Búrfellsvirkjun: „Faðir minn var verkstjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði og síðar framkvæmdastjóri verksmiðjanna á Seyðisfirði. Maður fékk því nasasjón af síldarævintýrunum á þessum stöðum.

Við áttum heima í Snæfelli á Seyðisfirði, sem enn stendur og er nú hótel. Það var alla tíð mikil glaðværð á bernskuheimilinu. Faðir minn var glaðsinna, góður hagyrðingur og samdi m.a. leikrit fyrir leikfélagið á Seyðisfirði. Móðir mín setti einnig saman vísur en var þó mun alvörugefnari en pabbi.“

Álfþór lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1953.

Hann var fulltrúi hjá Innflutningsskrifstofunni til 1960, aðalbókari Tóbakseinkasölu ríkisins 1960-61, fulltrúi hjá Ríkisendurskoðun 1961-66, skrifstofustjóri hjá Fosskraft við Búrfellsvirkjun 1966-69, skrifstofustjóri Heildverslunar Alberts Guðmundssonar 1969-73, aðalbókari Seltjarnarneshrepps frá 1973 og bæjarritari Seltjarnarness frá 1976 og þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir í janúar 2003.

Álfþór sat í stjórn Gróttu 1971-73 og 1978-82 og sat í stjórn UMSK 1980-82.

Þegar Álfþór er spurður um hugðarefni koma bækur fyrst upp í hugann: „Ég hef alltaf verið sílesandi. Ef ég er ekki upptekinn við áríðandi verkefni sleppi ég ekki hendi af bók.“

Og hvað lestu þá helst?

„Eiginlega allt milli himins og jarðar. Ég hef alltaf verið upptekinn af sagnfræði, hef gaman af ævisögum og hef gert töluvert af því að kynna mér nýjustu tækni og framfarir í vísindum. Í þeim efnum lifum við á spennandi tímum.

Auk þess höfum við nóg að sýsla í kringum barnabörn og langafabörn en það er nú orðinn ansi myndarlegur hópur.“

Fjölskylda

Álfþór kvæntist 6.10. 1956 Björgu Bjarnadóttur, f. 7.7. 1932, húsmóður. Hún var lengi píanóleikari í ballettskólum, lengst í Listdansskóla Íslands. Hún er dóttir Bjarna Björnssonar, leikara og gamanvísnasöngvara, og Torfhildar Dalhoff gullsmiðs.

Börn Álfþórs og Bjargar eru: 1) Álfhildur, f. 8.6. 1956, sérfræðingur í forsætisráðuneyti, búsett í Reykjavík; 2) Bjarni Torfi, f. 8.5. 1960, framkvæmdastjóri hjá Specialisterne á Íslandi og bæjarfulltrúi, búsettur á Seltjarnarnesi, kvæntur Erlu Lárusdóttur grunnskólakennara og eiga þau fjögur börn og þrjú barnabörn; 3) Þóra Björg, f. 19.9. 1962, leikskólakennari í Hafnarfirði, gift Kjartani Felixsyni húsasmíðameistara og eiga þau fimm börn og tvö barnabörn; 4) Bergur Brynjar, f. 20.7. 1964, leiðsögumaður og bæjarfulltrúi, búsettur í Vogum á Vatnsleysuströnd, kvæntur Svanborgu Svansdóttur, þjónustufulltrúa hjá Landsbankanum, og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn, og 5) Jóhann Frímann, f. 24.9. 1968, píanó- og sembalsmiður, og á hann þrjú börn og tvö barnabörn.

Systir Álfþórs var Brynhildur Hjördís, f. 22.8. 1926, d. 22.7. 2006, ráðherra- og sendiherrafrú, var gift Albert Guðmundssyni, atvinnumanni í knattspyrnu, borgarráðsmanni, alþingismanni, ráðherra og sendiherra. Önnur systir Álfþórs lést í barnæsku, Álfhildur Helena, tvíburasystir Brynhildar.

Foreldrar Álfþórs voru Jóhann Fr. Guðmundsson, f. 14.1. 1899, verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, framkvæmdastjóri Síldarverksmiðjunnar á Seyðisfirði og síðar starfsmaður hjá Verðlagseftirlitinu í Reykjavík, og k.h., Þóra Aðalbjörg Jónsdóttir, f. 23.8. 1895, húsmóðir og saumakona. Þau hjónin létust í bílslysi 23.10. 1966.