Stefán Pálsson var fæddur á Skinnastað í Öxarfirði 7. desember 1934. Hann lést í Reykjavík 2. janúar 2018.

Hann var sonur hjónanna Páls Þorleifssonar, prófasts á Skinnastað, f. 23.8. 1898 á Hólum í Hornafirði, d. 19.8. 1974, og konu hans Guðrúnar Elísabetar Arnórsdóttur, f. 22.12. 1905 á Hesti í Borgarfirði, d. 18.11. 1983.

Systkini Stefáns eru 1) Hanna (Jóhanna Katrín), aðalféhirðir og myndlistarkona, f. 1933 d. 2017. 2) Þorleifur, sýslumaður, f. 1938. 3) Arnór Lárus, framkvæmdastjóri, f. 1943. 4) Sigurður, skáld, f. 1948, d. 2017.

Stefán kvæntist þann 10.8. 1957 Arnþrúði Arnórsdóttur kennara, f. 24.6. 1932. Börn þeirra eru

1) Páll, ljósmyndari, f. 7.6. 1958. Börn hans og Áslaugar Snorradóttur f. 15.1. 1967, listakonu, eru Stefán Pálsson, f. 1989, og Kolbrún Pálsdóttir f. 1991. Dóttir Kolbrúnar er Alba Davíðsdóttir, f. 2014. 2) Guðrún Elísabet, arkitekt, f. 5.10. 1959, búsett í Noregi. Hennar maður er Eilíf Broder Lund arkitekt, f. 3.4.1938. Synir þeirra eru Hakon Broder Lund, f. 1990, og Kristjan Broder Lund, f. 1991. 3) Arnór, f. 20.3. 1961, d. 29.6. 1976. 4) Helga Ingunn, f. 17.11. 1962, leikmynda- og búningahöfundur. Sambýlismaður Guðmundur Kristjánsson forstjóri, f. 22.8. 1960. Sonur Helgu er Arnór Hákonarson, f. 1991. 5) Auður, f. 6.12. 1969, kennari og starfsmaður Icelandair. Sambýlismaður Hermann Arason, f. 23.4. 1966, framkvæmdastjóri. Dætur hennar eru Hildur Vala Baldursdóttir, f. 1992, og Arna Thoroddsen, f. 2002.

Ungur stundaði Stefán nám hjá föður sínum á Skinnastað.

Hann útskrifaðist úr Samvinnuskólanum í Reykjavík vorið 1955 og úr tungumála- og verslunarskóla í London 1957.

Hann sá mikið um búskapinn á Skinnastað þar til þau Arnþrúður fluttu til Reykjavíkur haustið 1958.

Hann hóf þá störf í Búnaðarbanka Íslands og starfaði þar allan sinn starfsferil, samfleytt í 42 ár. Fyrst starfaði hann sem gjaldkeri, síðan sem starfsmannastjóri, sem framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar landbúnaðarins og að síðustu sem aðalbankastjóri Búnaðarbankans til ársins 2001 þegar hann lét af störfum sökum aldurs. Stefán gegndi ýmsum trúnaðarstörfum vegna starfa sinna við bankann, sat í stjórnum sjóða og samtaka og einnig í nefndum sem fulltrúi bankamanna. Hann var meðal annars formaður Sambands viðskiptabanka um skeið, formaður Reiknistofu bankanna og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Stefán var um árabil í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Einnig sat hann lengi í stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna. Hann var einn af stofnfélögum Rótarýklúbbs Reykjavíkur Miðborg. Stefán var virkur í félagsstarfi hestamanna og átti sæti í stjórn Landssambands hestamannafélaga og gegndi þar formennsku. Útför Stefáns fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 12. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það eru forréttindi barns að deila áhugamáli með foreldrum sínum. Fyrsta minningin sem ég á er á Verði frá Árnanesi. Gæðingi í eigu pabba. Ég er tveggja ára á leið í reiðtúr, sit á hnakknefinu. Vörður var flugviljugur en pabbi segir að þegar ég var nálægt hafi hann hegðað hann sér öðruvísi. Hann varð yfirvegaðri og fjörviljinn breyttist í góðan reiðvilja. Ég get ekki munað svona langt aftur en saga sem sögð er nógu oft endar sem minning.

Við pabbi eigum afmæli með dags millibili. Margt er líkt með skyldum. Man ekki eftir mér öðruvísi en með hann mér við hlið. Alltaf til staðar, vakinn og sofinn yfir velferð minni. Hafði óbilandi trú á mér og öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Hestamennsku stundaði fjölskyldan og fór allur frítími okkar í hrossin. Það var ekki fórn heldur lán að eiga áhugamál sem við sameinuðust um. Lífsstíll sem innifól svo margt gott. Fór kornung að fara í hálendisferðir. Það fannst mér áfangi og upp á Kjöl var haldið, með trússhesta og krakkann. Yndislegar minningar þar sem ég lærði að lesa í skýin, skoða vöð, liggja áhyggjulaus á milli þúfna með strá í munni og mala við mömmu og pabba. Sofa í tjaldi, gista í heiðarbýlum og gangnamannakofum. Sólbakaðar kinnar. Híma af okkur veður og treysta fararskjótanum til að koma okkur á áfangastað. Gott nesti sem varð þreytt nesti þegar leið á ferð. Gestrisnir bændur í sveitum, kennileiti, fjöll og ár. Þessar árlegu ferðir voru tilhlökkun barnsins sem naut þess að kynnast góðum hestum, fá smátt og smátt ábyrgð og styrk til að spreyta sig á betri hrossum.

Lokatakmarkið var alltaf að geta riðið þeim bestu og fá að temja sjálf. Pabbi treysti mér.

Árin liðu og enn var farið í hestaferðir, börn urðu fullorðin, fullorðnir urðu rosknir en ferðuðust enn, hópurinn eins samsettur en við bættust barnabörn.

Þetta áhugamál var hvíld pabba frá erilsömu starfi sem bankastjóri í Búnaðarbankanum. Hann hafði ótrúlega orku, léttur á fæti, hláturmildur og blíður. Lítil skotta hljóp við fót til að halda í við hann. Var eins og skugginn. Hann kallaði mig alltaf stelpu. Langyngst úr fimm systkina hópi. Við pabbi ræddum allt milli himins og jarðar. Skarpgreindur, skynsamur og röggsamur.

Við heyrðumst mörgum sinnum á dag og enduðum oft kvöldin á því að ræða ættir hrossa, ég með tölvuna í fanginu að lesa upp dóma og hann hinum megin á línunni að bæta við lýsingum á því þegar gamlir höfðingjar liðu um brautina.

Pabbi var yndislegur afi. Natinn og stelpurnar mínar nutu þess að eiga þau mömmu að. Hann lagði mikla áherslu á að þær yrðu reiðfærar. Átti hest sem hæfði. Gömlu höfðingjar pabba enduðu sem fararskjótar þeirra. Hann treysti því að við færum vel með þá.

Ferðin er á enda, fararskjótinn bíður. Held hann velji sér Kveik, flugvakran leirljósan gæðing, Patti kemur síðar.

Yndislegur pabbi kveður, sakna hans sárt.

Þín

Auður.

Þegar ég minnist afa stendur það upp úr hversu félagslyndur hann var. Svo lengi sem ég man var hann virkur í margs konar félagsstarfi, svo sem í starfi Rótarýklúbbsins og auðvitað í hestamennskunni með fjölskyldunni og vinafólki. Leikni hans með tölur og áhugi hans á öðru fólki var áberandi. Hann gat skemmt okkur barnabörnunum með því að þylja upp fæðingardaga og símanúmer fyrir það sem virtist hálft Ísland auk þess sem bókahillurnar voru fullar af manntölum og ævisögum.

Afi var ákaflega glaðlyndur og mikil ánægja að umgangast hann. Hans verður saknað.

Arnór Hákonarson.

Við systur eigum yndislegar minningar um þau ömmu og afa. Við mamma fluttum til þeirra þegar ég var fjögurra ára og bjuggum hjá þeim um stund. Þar byrjuðu allir morgnar á því að ég sótti Morgunblaðið upp, tróð mér á milli þeirra og kúrði aðeins lengur áður en við fórum öll upp og fengum okkur te. Ég minnist þess að afi hafi farið með mig í leikskólann í bankastjórafötunum. Hann hafði aldrei sinnt því hlutverki áður. Vissi ekki hvernig ætti að bera sig að og lét duga að setja mig inn fyrir hliðið. Við mamma fórum oft til hans í heimsókn í bankann. Ég kom stolt með fullan bauk af smápeningum sem afi hrósaði mér fyrir og leysti mig út með gjöfum. Afi var alltaf stoltur af mér, hrósaði og var svo hrifnæmur.

Það er ómetanlegt að vera hvattur áfram. Hann vildi alltaf hafa okkur hjá sér og fórum við mæðgur ótal ferðir til Kanarí og Tenerife þar sem við nutum samvistanna, spiluðum og spjölluðum. Afi taldi það nú best að við værum alltaf hjá þeim á þeirra hóteli og hikaði ekki við að sækja okkur ef honum fannst við of lengi að koma okkur til þeirra. Paradísin sem þau amma byggðu sér á Akri á fullorðinsárum, sem var samkvæmt honum miðpunktur alheims, var vel nýtt, sannkallaður sælureitur.

Afi fór aldrei hestlaus norður og var hann aldrei rólegur fyrr en ég var komin á bak því hann þurfti að finna gamlar geitagötur frá því hann var lítill að smala og sýna mér bæinn og landið. Hann hló alltaf svo mikið og var svo glaður þegar maður var á baki. Afi lofaði alltaf góðu veðri og hringdi ótal símtöl til að segja frá hitatölum en minntist aldrei á veðrið ef það var kalt og rigndi. Alla morgna fór hann í Ásbyrgi að sækja blöðin og kom aldrei tómhentur heim, annaðhvort af aðföngum eða gestum. Við sögðum í gríni að hann færi í Ásbyrgi að smala. Félagsveran bauð öllum heim í kaffi og amma hafði ekki undan að baka pönnukökur.

Elsku afi. Takk fyrir að vera frábær fyrirmynd í einu og öllu. Þín er sárt saknað.

Hildur Vala Baldursdóttir.

Ég fæddist ári eftir að afi hætti í bankanum. Hann kom til okkar nær daglega, bauðst til að passa okkur systur og sækja mig til dagmömmu og tók þátt í okkar daglega lífi. Afi hefur alltaf verið stór hluti af okkur. Hafði mikinn áhuga á því sem við vorum að gera. Við bjuggum lengi vel skammt frá ömmu og afa. Þau löbbuðu oft við hjá okkur og stundum fórum við með upp í hesthús. Dögun og Leira voru bestar. Afi sagði að þær væru barnahestar. Fyrst var teymt undir okkur, síðan var aukataumi sleppt. Afi vildi helst aldrei sleppa aukatauminum en ég vildi fá að vera ein. Suðaði svolítið og stundum tókst það. Ég er ótrúlega þakklát fyrir yndislegan afa, blíðan og góðan, og þakklát fyrir allar samverustundirnar hjá ömmu og afa, í Vindási og Akri. Þegar afi fór að verða lélegur að komast á bak hjálpuðum við mamma honum svo hann gæti haldið áfram að ríða út með okkur. Ég stökk af baki og opnaði hlið og við fórum hvert sem við vildum. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst afa svona vel, átt með honum óteljandi stundir á Kanarí og Tenerife og allar stundirnar í hestunum og sveitinni. Afi var alltaf svo yndislegur, las fyrir mig á kvöldin þegar ég var yngri og kom mér í ró, ég las svo fyrir hann undir lokin. Alltaf sama bókin, Bernskubók Sigurðar bróður hans.

Arna Thoroddsen.

Fyrstu minningar um Stefán bróður minn eru tengdar leikjum og þátttöku okkar í bústörfum á æskuheimili okkar á Skinnastað í Öxarfirði. Stefán var eldri en ég og réð ferðinni. Ég leit upp til hans og tók hann mér til fyrirmyndar. Stefán fékk snemma brennandi áhuga á búskap, var fjárglöggur og náði ágætum árangri í sauðfjárrækt. Síðar urðu það þó hestarnir sem áttu hug hans allan. Það má segja að hestamennskan hafi verið honum í blóð borin, en móðir okkar hafði mikinn áhuga og þekkingu á öllu sem laut að hestum og reiðmennsku. Hún var einnig einstakur dýravinur og hafði mikil áhrif á viðhorf okkar systkinanna til meðferðar dýra.

Faðir okkar átti afburðagæðing úr Hornafirði, Skugga, sem var áður í eigu Þorbergs bróður hans sem andaðist 1939. Skuggi var 18 vetra þegar hann varð aðalreiðhestur Stefáns, sem þá var 13 ára. Ég geymi í hugskoti mínu minningu um Stefán á Skugga þar sem þeir svifu um Skinnastaðarlandið á yfirferðartölti. Síðar átti Stefán eftir að kynnast mörgum góðum hestum.

Snemma komu í ljós eiginleikar Stefáns sem fylgdu honum ætíð, sem voru áræði, ósérhlífni og dugnaður. Hann gekk að hverju verki með þeim ásetningi að ljúka því án tafar. Hann var fróður um menn og málefni og stálminnugur.

Stefán sá um búskapinn á Skinnastað um skeið, en haustið 1958 fluttu þau Arnþrúður til Reykjavíkur. Stefán hóf störf í Búnaðarbankanum, fyrst sem gjaldkeri, en síðar tók hann að sér ýmis önnur störf fyrir bankann og lauk starfsævi sinni sem aðalbankastjóri. Hann bar hag bankans fyrir brjósti og lagði sig allan fram um að ná árangri. Hann hafði kynni af mörgum í gegnum starfið. Þegar hann var forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins kynntist hann bændum um land allt og öðlaðist yfirgripsmikla þekkingu á högum þeirra og aðstæðum.

Stefán leitaði hvíldar í hestamennskunni frá annasömum skyldustörfum. Fjölskyldur okkar bræðra ásamt tveimur vinafjölskyldum sameinuðust í þessu áhugamáli, við byggðum hesthús, fyrst á félagssvæði Gusts í Kópavogi og síðar á félagssvæði Fáks í Reykjavík. Árið 1984 keyptum við jörðina Vindás í Hvolhreppi og þar fékk Stefán bóndi að njóta sín til fulls. Samheldni ríkti í hópnum og lengi framan af var unnið í heyskap á sumrin. Sum okkar hófu hrossarækt með ágætum árangri, en sameiginlegt áhugamál allra voru útreiðar. Saman höfum við farið ótal hestaferðir um landið, bæði um byggðir og óbyggðir, á hverju sumri í yfir þrjátíu ár.

Stefán og Arnþrúður hafa alla tíð haldið góðum tengslum við vinafólk í Öxarfirði og metið vináttu þess mikils. Það var því sérstakt fagnaðarefni fyrir Stefán þegar þau hjón reistu sér sumarhús á Akri í landi Skinnastaðar fyrir um áratug. Á meðan heilsa Stefáns leyfði dvöldu þau Arnþrúður þar yfir sumartímann og höfðu með sér hesta sér til ánægju. Stefán var á ný kominn á æskustöðvarnar sem voru honum svo kærar.

Við hjónin sendum Arnþrúði og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Þorleifur.

Mér hefur alltaf fundist Stefán mágur minn vera maður tveggja heima, annars vegar ósvikinn sveitamaður en hins vegar heimsmaður í iðandi borgarlífi, hvort heldur er hér í Reykjavík eða erlendis. Stefán og Arnþrúður yngsta systir mín, kynntust í brúarvinnu í Öxarfirði og giftu sig 10. ágúst 1957. Við systkinin sjö vorum þá öll flogin úr hreiðrinu en foreldrar okkar búsettir í Reykjavík.

Ungu hjónin settust að á Skinnastað í Öxarfirði. Arnþrúður, sem var kennaramenntuð, tók að sér umsjón heimavistarskólans í Lundi, en Stefán, sem var Samvinnuskólagenginn sá um fjárbúskapinn á Skinnastað hjá foreldrum sínum Páli Þorleifssyni prófasti og Guðrúnu Elísabetu Arnórsdóttur. Þar fæddist þeirra fyrsta barn og undu þau vel hag sínum.

En dvölin á Skinnastað varð ekki löng, því Stefán hafði heyofnæmi og eftir ár fluttu þau til Reykjavíkur, þar sem Þrúða fór að kenna en Stefán fékk starf við Búnaðarbankann, en við hann starfaði hann alla sína starfsævi. Fljótlega festu ungu hjónin kaup á íbúð í nýrri blokk við Dunhaga, en foreldrar okkar Þrúðu keyptu sér íbúð í sama stigagangi. Milli heimilanna var mikill samgangur, nærri líkara einu stóru heimili, sem gott var að heimsækja.

Þegar frá leið og fjölskyldan stækkaði flutti unga fólkið sig um set í notalegt hús í Kópavoginum. Síðar þegar börnin voru flest upp komin fluttu þau Stefán og Þrúða í Hrauntunguna og buðu foreldrum okkar Þrúðu til sín, þar sem þeir fengu stofu og herbergi út af fyrir sig. Á heimilinu var gestkvæmt og vel tekið á móti gestum sem komu í bæinn úr sveitinni. Báðir synir okkar Halldórs bjuggu þar vetrarpart, þegar þeir voru í námi og fengu um leið að kynnast ömmu sinni, sem þá var orðin ekkja.

Stefán og Þrúða hafa alltaf haldið nánu sambandi við átthagana í Þingeyjarsýslunum og fyrir nokkrum árum byggðu þau sér veglegan sumarbústað að Akri, skammt frá Skinnastað, þar sem þau undu á sumrum með hestana sína, kartöflu- og matjurtagarð og heiðbláar berjabreiður á haustin. Stefán naut sín þar í hestastússi, en ekki síður þess að aka um nágrennið og kynna sveitina sína fyrir gestum sem oft bar að garði.

Heimili Stefáns og Þrúðu hefur alltaf verið eins konar ættarmiðstöð. Þangað liggur leiðin í hvert skipti sem við Halldór förum suður. Þrúða er mjög dugleg að rækta frændgarðinn og ósjaldan hafa menn leitað til Stefáns með ýmis mál, en hann var víða vel heima og ráðagóður um margt. Eitt af mörgum áhugamálum hans voru bílar og voru þeir góðir saman svilarnir, þegar Stefán fór með Halldóri að hjálpa honum við bílakaup hér áður fyrr.

Það var líka alltaf tilhlökkunarefni þegar þau hjón komu til okkar í Skagafjörðinn, þá stundum með hesta í kerru, annaðhvort á leið á hestamannamót eða austur í Akur til sumardvalar.

Að leiðarlokum viljum við Halldór þakka Stefáni samveruna í gegnum árin og allar ánægjustundirnar sem við höfum átt með þeim hjónum á ferðalögum og dvöl erlendis nú á síðari árum. Þaðan eigum við dýrmætar minningar.

Þrúðu systur og fjölskyldunni allri sendum við Halldór innilegar samúðarkveðjur.

Solveig Arnórsdóttir.

Frændi minn og vinur, Stefán Pálsson, er látinn eftir nokkra sjúkdómslegu. Það var orðið ljóst hvert stefndi en samt kemur þetta alltaf einhvern veginn aftan að manni.

Það er óhætt að segja að Stefán hafi reynst mér og okkur bræðrunum vel. Þegar ég hugsa til baka hefur hann einhvern veginn alltaf verið í kringum okkur með góð ráð og hjálp.

Fannst líka yfirleitt svo gott að ná í hann. Þó svo að hann væri upptekin brást það aldrei að hann hafði samband til baka þegar maður hringdi. Þetta fór þannig að maður fór að leita til hans meira og meira ef maður var að skipta um bíl eða eitthvað annað, en það er óhætt að segja að Stefán hafi verið duglegur að ráðleggja. Hann sýndi mikinn áhuga á því sem við tókum okkur fyrir hendur og var duglegur að liðsinna og hjálpa. Einhvern tímann keypti ég mér Toyota-pallbíl. Stefán keyrði hann einn hring og dómurinn kom. „Palli, þetta er versti bíll sem ég hef keyrt.“ Ég byrjaði að malda í móinn og reyna að útskýra ágæti bílsins, en hann sagði bara: „Þú spurðir og ég svaraði.“

Við hjónin leituðum til Stefáns fyrir um þremur árum en vorum þá að skipta um húsnæði. Hann skoðaði húsið með okkur, ráðlagði með tilboð og fjármögnun og samgladdist með okkur. Þetta var ómetanlegt. Á þessum tíma var hann byrjaður að veikjast en var vel ferðafær.

Það var gott að eiga Stefán að.

Við Sigga Rut vottum Þrúðu og allri stórfjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Páll Arnórsson.

Ég var á nítjánda ári þegar ég kynntist fyrst frændfólki mínu á Skinnastað. Sumarið 1955 var ég í vinnu á Heiðarfjalli á Langanesi og var þá oft boðið til helgardvalar á Skinnastað. Séra Pál föðurbróður minn þekkti ég fyrir, en hin aðeins af afspurn. Húsmóðirin Guðrún Elísabet Arnórsdóttir er mér minnisstæð, hógvær og lágmælt en fylgdist með öllu af röggsemi en næmu umburðarlyndi. Stefán Pálsson stóð þá fyrir búskapnum af myndarskap og atorku. Hugur Stefáns stóð þá til að hefja sjálfur búskap, en hann varð að leggja þau áform á hilluna af heilsufarsástæðum. Ekki er að efa að hann hefði orðið afbragðs bóndi og líklega forystumaður í samtökum bænda. Þess í stað flutti Stefán, nýgiftur Arnþrúði Arnórsdóttur, til Reykjavíkur og réð sig til starfa í Búnaðarbanka Íslands, fyrst sem gjaldkeri í aðalbankanum. Þar reyndist hann strax á heimavelli. Nákvæmni hans, öryggi og einstakt minni gerði hann að fyrsta flokks gjaldkera. Seinna var hann ráðinn starfsmannastjóri bankans. Starf starfsmannastjóra er ekki kjörið til vinsælda, en mér fannst alltaf Stefán vera sjálfum sér samkvæmur í ákvörðunum og geta þannig réttlætt gerðir sínar opinskátt. Næst var hann ráðinn forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Hafi hann verið á heimavelli í fyrri störfum, þá var hann það þar. Þekking hans og áhugi á högum landbúnaðarins, ótrúlegt minni hans og forvitni um menn og málefni gerði hann að lifandi uppsláttarriti. Það var hægt að fletta upp í honum nöfnum á bæjum og bændum um allt land. Árið 1984 var Stefán ráðinn einn af bankastjórum Búnaðarbankans. Þar nutu sín allir þeir kostir sem hér hafa verið taldir. Ég held að flestir geti verið sammála um að Stefán hafi verið farsæll bankastjóri á erfiðum tímum. Ég hóf störf í Búnaðarbankanum ári á undan Stefáni. Strax myndaðist náið vináttusamband milli okkar og fjölskyldna okkar sem hefur haldist óslitið til dagsins í dag. Flestir ánægjulegir og eftirminnilegir atburðir í lífi mínu og fjölskyldu minnar tengjast á einhvern hátt Stefáni og fjölskyldu hans. Á síðustu árum eru það utanlandsferðirnar og leikhúsferðirnar með þeim Stefáni og Arnþrúði sem standa upp úr. Á yngri árum þótti mér frændi minn ótrúlega heppinn í ýmsum fjárfestingum. Ég kallaði hann Fætter Höjben, eftir heppna frændanum í dönsku Andrésblöðunum. En seinna áttaði ég mig á að mest var þetta frekar gott viðskiptavit og útsjónarsemi en heppni. En víst var hann heppinn og heppnastur, eða snjallastur, var hann í makavali þegar hann fékk hana Arnþrúði fyrir eiginkonu. Mér hefur oft fundist að Stefán hafi valið sér kvonfang búið sömu mannkostum og móðir hans var. Hann naut þess nú í veikindum sínum að hafa styrka stoð sér við hlið.

Það er okkur mikill harmur að þrjú Skinnastaðarsystkinanna skuli hafa kvatt þetta líf á innan við ári. Stefán og Hanna systir hans voru okkar nánustu vinir. Við Martha sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Arnþrúðar og fjölskyldunnar. Hugur okkar er hjá þeim öllum.

Gunnar Már Hauksson.

Jólaundirbúningur okkar systra hófst alltaf með sama hætti. Samviskusamlega settumst við niður með sparibaukana okkar og undirbjuggum ferð í Búnaðarbankann. Ungar komumst við að samkomulagi um að Marta María, eldri systir mín, ætti alla gullpeningana sem safnast höfðu yfir árið en ég, litli lukkunnar pamfíllinn, fékk alla silfurpeningana í staðinn. Alsæl með þyngri baukinn, fullan af silfri, klæddist ég síðan mínu fínasta pússi og svo var lagt af stað í bankann. Þar var tekið veglega á móti okkur á skrifstofu bankastjórans, og á meðan við tróðum okkur út af jólasmákökum var aurinn talinn. Sannleiksstundin rann upp þegar ritarinn mætti með niðurstöðurnar og bankastjórinn sjálfur sá um að lesa upp söfnunarvelgengni bankabarnanna á árinu.

Stefán þekkti ég samt betur sem bónda en bankastjóra. Öll sumur vorum við í Vindási ýmist að ríða út, heyja og í hestaferðum á hálendinu. Stefán var hláturmildur, með prakkaralegt bros og þægilega, ljúfa nærveru. Reglulega plötuðum við krakkarnir hann í sögustund, en þá fór hann alltaf með sömu söguna, Búkollu. Söguna sagði hann löturhægt, með djúpri röddu og alltaf var hún nákvæmlega eins. Síðar reyndi barnapía að gleðja okkur systur með því að fara með sömu sögu, en komst ekkert áfram því söguna kunnum við svo vel eftir Stefáni að það þurfti reglulega að stoppa og leiðrétta frásögnina. Stefáns Búkolla er hin eina sanna Búkollusaga og enn í dag myndi ég leiðrétta illa framsetta Búkollu.

Stefán, þegar ég hugsa til þín sé ég fyrir mér sólríkan dag í hestaferð. Þú ert hlæjandi í reiðbuxunum, rösklega að leggja á bak á viljugasta hesti ferðarinnar, en viljugri hesta en þína var vart hægt að finna. Elsku Stefán, það er sárt að kveðja en ég veit fyrir víst að á móti þér er tekið með stóði gæðinga. Við sjáumst aftur síðar.

Þitt Vindásbarnabarn,

Ingibjörg Friðriksdóttir.

Stefán Pálsson hefur söðlað hest sinn og haldið inn á hinar grænu grundir eilífðarinnar, þar sem himinn og jörð mætast og reiðskjóti Stefáns fer örugglega á flugaskeiði eins og Sleipnir Óðins. Sá er þetta ritar telur það eitt af sínum gæfusporum á lífsleiðinni að hafa kynnst Stefáni Pálssyni ungur að árum, átt hann að sem hollan ráðgjafa og vin og Búnaðarbankafólkið, en þar fór hann fyrir liði um árabil sem bankastjóri.

Stefán var fæddur á Skinnastað í Öxarfirði og jafnframt ættaður frá Hólum í Austur-Skaftafellssýslu. Hann var því að uppruna og lífshugsjón sveitamaður sem trúði á mátt moldarinnar og var bændum trúr í starfi sínu bæði sem framkvæmdastjóri Stofnlánadeildarinnar og bankastjóri Búnaðarbankans. Stefán gjörþekkti landið allt og þau Arnþrúður bundust mörgu fólki tryggðaböndum. En í gegnum hestamennskuna svalaði hann sinni búskaparþrá, hann var alltaf mjög virkur í starfi hestamanna og var m.a. formaður Landssambands hestamanna í fimm ár. Þau Arnþrúður sóttu alltaf landsmótin og hafði Stefán næmt auga fyrir glæsileika hestsins og þekkti vel að „sá drekkur hvern gleðinnar dropa í grunn, sem dansar á fáksspori yfir grund,“ enda var hann og fjölskyldan vel ríðandi. Og áttu þau hjón hestabúgarð með nokkrum vinum sínum að Vindási í Hvolhreppi. Það sýnir hinsvegar hug hans til æskustöðvanna að þegar um hægðist byggðu þau hjón sumarhús að Skinnastað og áttu þar margar gleðistundir enda reiðleiðirnar góðar í Öxarfirði og Norður-Þingeyjarsýslu. Þar sló hjarta hans og æskuminningarnar urðu að lifandi ævintýrum á ný á fallegu ævikvöldi, hugur hans og hönd var bundinn þessu fallega héraði og fólkið norður þar honum kært. Þarna í fallegri hlíð reis unaðsreitur fjölskyldunnar þar sem húsbóndinn þekkti landið, kunni sögurnar og höfðu þau hjón gaman af að fá góða gesti þangað.

Stefán var afkastamaður og bæði fljótur að borða og vinna, hann átti auðvelt með að taka afstöðu til mála og var því borðið hreint og málin afgreidd jafnóðum. Hann var bankamaður, lærði til viðskipta í Samvinnuskólanum og til bankamála í Englandi og rúmlega tvítugur var hann kominn til starfa í Búnaðarbanka Íslands þar sem hann starfaði síðan í 43 ár. Hann var kröfuharður um góðan rekstur bankans og fylgdist vel með landsmálum og veðrabrigðum í atvinnulífi landsins, vissi nákvæmlega hvenær mátti slá í klárinn og hvenær bar að hægja ferðina. Þeim er þetta ritar þótti gott að vinna með Stefáni og leita álits hans á málum sem sneru að stjórnmálum og atvinnulífi. Bankaráð Búnaðarbankans var skipað heilsteyptum einstaklingum og samstarfið við Stefán og bankastjórana og starfsfólk bankans einstakt og gott. Þá var hugarfarið hvað get ég gert fyrir landið mitt og viðskiptavinina, en ekki það hugarfar sem því miður tók við eftir einkavæðinguna, þegar hógværðin hvarf og eigendurnir hugsuðu meira um sjálfs síns hönd og eigin gróða. Stefán var hollráður drengskaparmaður sem lifði margan hamingjudag með fjölskyldu sinni og vinum og var vinfastur og trygglyndur.

Við Margrét vottum Arnþrúði og fjölskyldunni, okkar dýpstu samúð og kveðjum góðan vin með söknuði og orðum skáldsins:

Við brottför þína brugðu fjöllin lit

og blámi himins varð að mistri gráu.

(HP)

Blessuð sé minning Stefáns Pálssonar.

Guðni Ágústsson.

Góðvinur minn Stefán Pálsson er allur. Mér er ljúft að minnast þessa heiðursmanns örfáum orðum sem yljuð eru mikilli þökk fyrir mæt kynni. Þau hófust þegar Stefán stýrði Stofnlánadeild landbúnaðarins af miklum sóma og átti bændur alls staðar að af landinu að kunningjum góðum yfir í einlæga vináttu og þökk fyrir skjóta og örugga afgreiðslu mála. Þau voru mörg málin sem ég var að reyna að fylgja sem bezt eftir fyrir bændur eystra sem ekki voru á hverjum degi hér í Reykjavík og í Stefáni átti ég sannarlega hauk í horni, alltaf tilbúinn að hlusta, alltaf reiðubúinn að taka til skoðunar röksemdir bændanna og sanngjarna þörf á fyrirgreiðslu. Sanngirni var ein þeirra eðliseiginda sem Stefán átti, hann rasaði í engu um ráð fram, fór vandlega yfir málin og fékk þau leyst furðumörg flókin og erfið á stundum. Sama veit ég að gilti um hann sem bankastjóra Búnaðarbankans, en mér er ánægjuefni að hafa lagt þar lið og í engu brást hann trausti manna þar, allt gjört eins og bezt var á kosið, viðmót hans gagnvart viðskiptavinum var rómað og engin einkunn í starfi er betri en það.

Mér eru samt enn minnisstæðari kynnin af manninum sjálfum, hinum smáglettna manni með þennan smitandi glaða hlátur, en hann var alvörumaður um margt, hafði trúmennskuna að föstum fylginaut, alúðarfull framkoma hans og ljúfmennska samfara ákveðni og rökhyggju, allt skapaði þetta honum verulegar vinsældir í öllum störfum.

Hann eignaðist framúrskarandi lífsförunaut þar sem var hún Arnþrúður skólasystir mín, samhent gengu þau lífsleiðina og missir Arnþrúðar því mikill. Við Hanna sendum henni og þeirra fólki öllu einlægar samúðarkveðjur. Með Stefáni Pálssyni er genginn hinn farsæli og vammlausi sæmdarmaður er átti lífssögu ágæta. Megi hann njóta alls hins bezta á ókunnum eilífðarlendum.

Helgi Seljan.

Ég kynntist Stefáni ekki fyrr en hann var kominn á miðjan aldur, en hann var einn af þessum samferðamönnum sem ég hefði gjarnan viljað kynnast miklu fyrr.

Leiðir okkar lágu fyrst og fremst saman í frístundum við búskaparstúss á Vindási í Hvolhreppi og þar var Stefán svo sannarlega á heimavelli. Við kepptumst vitanlega um að vera fyrri til að komast í traktorinn að morgni dags enda fylgdi því ákveðin yfirburðastaða á meðan hinir heimilismennirnir voru að dunda við eitthvað miklu óæðra.

Allir dagar í búskapnum með honum voru skemmtilegir. Stefán var einstakur dugnaðarforkur og það var alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur, óþolinmæðin og ákafinn við að koma verkum af stað, að ég tali nú ekki um að ljúka þeim á sem skemmstum tíma, setti skemmtilegt mark sitt á samstarfið í Vindási.

Það var oft æði mannmargt á frístundaheimilinu og býsna ólíkar skoðanir meðal félaganna um menn og málefni og vitanlega höfðum við öll ávallt rétt fyrir okkur. Stefán var býsna laginn við að telja fólk á sína skoðun án þess að hafa hátt, en þó var hann fastur fyrir og trúr hugsjónum sínum. Hann var svo vel að sér um bændur og búalið um allt land eftir störf sín að við lá að kalla mætti hann alfræðiorðabók um þau efni. Hann þekkti bara alla alls staðar.

Við Stefán áttum einnig talsverð samskipti á viðskiptasviðinu og þar mætti ég sama manninum, föstum fyrir og með skýra sýn á hagsmuni þess fyrirtækis sem honum var trúað fyrir, en um leið var hann tilbúinn að hlusta og skoða af sanngirni önnur þau sjónarmið sem uppi kunnu að vera.

Við dætur mínar, Marta María og Ingibjörg Guðný, sendum Arnþrúði og börnum, tengdabörnum og barnabörnum auk systkina Stefáns og öðrum ættmennum samúðarkveðjur. Stefán Pálsson var tryggur og góður vinur.

Friðrik Pálsson.

Við félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg minnumst Stefáns Pálssonar með þakklæti fyrir gefandi samveru og vinskap á liðnum árum. Við þökkum honum fyrir ósérhlífni og einlægan áhuga á að veita góðgerðar- og mannúðarmálum Rótarýhreyfingarinnar liðsinni sitt.

Stefán var einn af stofnfélögum klúbbsins. Hann tók að sér ýmis trúnaðarstörf í þágu hreyfingarinnar og sinnti þeim af einurð og trúmennsku sem einkenndu öll hans störf. Stefán hafði jafnframt mikil áhrif á að móta starfsemina og það gerði hann með þeirri ljúfmennsku sem honum var í blóð borin.

Eftir Stefáni var tekið hvar sem hann kom. Hávaxinn og grannur með bros á vör heilsaði hann öllum jafnt og gat rætt um hin margvíslegustu málefni af þekkingu. Þau sem kynntust Stefáni á lífsleiðinni fundu ekki bara fyrir reyndan bankamann með farsælan feril á þeim vettvangi að baki, heldur einnig mannvininn og náttúrubarnið sem hafði ævilangan áhuga á hestum og útiveru.

Ég færi eiginkonu Stefáns, Arnþrúði og börnum þeirra innilegar samúðarkveðjur frá félögum úr Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg og bið góðan Guð að umvefja þau með kærleika sínum.

Svanhildur Blöndal,

forseti Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg.

Stefán vinur minn er látinn eftir erfið veikindi. Tengsl okkar Stefáns eru þannig að konur okkar eru bræðradætur. Stefán var mjög myndarlegur á velli og vakti oft athygli þegar hann var sestur í hnakkinn en sameiginlegt áhugamál okkar var hestamennska og fjölskyldur okkar tengdust því. Þá var Stefán mikill fjölskyldumaður og tryggur vinur vina sinna. Hann var líka hjálpsamur þegar á þurfti að halda. Þegar mín fjölskylda var búsett á Húsavík voru samskipti okkar ekki mikil þótt við vissum hvor af öðrum, en þegar við fluttum tl Reykjavíkur 1971 urðu samskipti fjölskyldnanna mikil og snerust mjög um áhugamál okkar. Stefán hafði þegar tryggt okkur pláss í hesthúsi fyrir þau hross sem við komum með. Saman byggðum við svo hesthús með öðrum hjá Gusti í Kópavogi. En 1987 byggði svo þessi sami hópur hesthús í Víðidal á svæði Fáks. Það var svo 1984 sem þessi hópur kaupir jörðina Vindás í gamla Hvolhreppi, nú Rangárþing eystra, og hefur haft aðstöðu þar síðan. Í þessum hópi auk fjölskyldna okkar Stefáns voru Þorleifur Pálsson og Guðbjörg, kona hans, og Friðrik Pálsson og Ólöf, kona hans. Þessi sambúð í Vindási hefur gengið ótrúlega vel. Stefán var áhugasamur um viðhald jarðarinnar og við áttum þar margar ánægjustundir með þeim hjónum. Hópurinn fór í hestaferðir, sem hófust reyndar áður en við eignuðumst Vindás, í 30 sumur og var búinn að fara víða um land. Stefán sóttist eftir því að eignast duglega og sterka hesta sem komust hratt yfir. Þá var hann mjög virkur í samtökum hestamanna. Hann var kosinn í stjórn Landssambands hestamannafélaga 1978 og var formaður 1981 til 1986. Hann var einnig sæmdur gullmerki sambandsins.

Hann var líka mjög virkur í félagsstarfi Fáks. Þau hjón, Arnþrúður og Stefán, reistu sér hús norður í Öxarfirði í landi Skinnastaðar, en þar var Stefán fæddur og uppalinn. Þetta var mikill griðastaður og greinilegt að þau hjón nutu þess að dvelja þar. Stefán tók þá að jafnaði með sér nokkur hross til að geta riðið þar út og heimsótt vinafólk sitt þar. Í þessari minningargrein fjalla ég ekki um störf Stefáns sem bankastjóra, en læt það öðrum eftir sem betur þekkja til en get þó ekki stillt mig um að birta hér vísu sem ég sendi Stefáni þegar hann var ráðinn bankastjóri Búnaðarbankans. Hún hljóðar svo:

Til hamingju með starfið Stefán minn,

þú stendur fyrir þínu,

og brátt mun koma að bankinn þinn

var bráðheppinn í þessu vali sínu.

Eftir svo langa samvinnu og samstarf sem fjölskyldur okkar hafa átt í gegnum tíðina er margs að sakna en mestu skiptir að minningarnar eru góðar.

Við Ingibjörg sendum þér, Þrúða mín, og börnum ykkar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur svo og eftirlifandi bræðrum Stefáns.

Kári Arnórsson.

Með miklu þakklæti og hlýju hjarta kveð ég minn kæra vin, Stefán Pálsson. Í áratugi hefur verið djúp vinátta milli fjölskyldna okkar og sá sérstaki og mikli samgangur sem fylgir því að vera í hestabandi – en það er eins konar hjónaband. Ólöf systir mín og Friðrik voru í hestabandi með Stefáni og Arnþrúði, ásamt Þorleifi bróður hans og Guðbjörgu Kristinsdóttur hans konu, og hjónunum Kára Arnórssyni og Ingibjörgu Áskelsdóttur. Hestaband þýðir að fólk hittist nánast hvern dag á vetrum, sinnir hrossum og húsum, og ríður út í öllum veðrum – en samvera á sumrum er mismikil. Hún gerist vart meiri en hjá þessum hópi, þau ráku saman heimili á sumrin. Þau áttu saman jörðina Vindás í Fljótshlíð og dvöldu þar bróðurpart sumars í áratugi, umkringd börnum sínum, hrossum og gestum á öllum aldri. Alltaf nóg að gera, bústörf og heyannir, og ratljóst til útreiða dag og nótt. Langar ævintýralegar ferðir um víðernin – þvílík leið til að kynnast ættjörð sinni! Á hestbaki finnur maður hjartslátt landsins.

Á þessum árum stóð ég álengdar, alltaf velkomin og vel tekið í Vindási, en það var ekki fyrr en ég sjálf eignaðist mín hross, fyrir kannski 20 árum eða svo, og hóf útreiðar – meira af vilja en mætti – að ég fékk vinabæjaraðild að hestabandinu. Þá kynntist ég þessum góðu vinum á heimavelli, í hesthúsinu, í stússi og samvinnu – og síðast en ekki síst við útreiðar. Þarna urðum við vinir í hversdeginum og það er sú vinátta sem hefur auðgað líf mitt á einstakan hátt. Stefán var mér einstaklega góður. Ég komst alltaf í gott skap nálægt honum, mér leið vel því það var svo bjart í kringum hann. Við spjölluðum um alla heima og geima, hvort sem við studdum okkur fram á heykvísl eða áðum í Rauðhólum, umræðuefnin voru óþrjótandi.

Stefán var velviljaður, næmur, fróður, reyndur, forvitinn, skemmtilegur. Lýsandi blá augun í útiteknu andliti, brosið stórt, hárið mikið og hvítt seinustu árin. Hann var hár og grannur – hvergi aukagramm á ferð – og einhvern veginn var karakterinn eins. Stefán var hár og grannur í sér, sinaber og hreinn og beinn.

Hjartans þakkir elsku vinur fyrir alla þína hlýju og gæsku í minn garð – og enn meira vil ég þakka þá órofa vináttu sem þið öll í hestabandinu sýnduð henni systur minni í hennar miklu prófraun. Þar fundum við öll hvað vinátta er.

Minning Stefáns lifir með okkur öllum sem þekktum hann og hans góðu verk. Blessuð sé hans minning. Innilegar samúðarkveðjur sendum við mæðgur Arnþrúði, börnunum, afkomendum og ástvinum öllum.

Guðrún Pétursdóttir.

Það var árið 1970 að fundum okkar Stefáns Pálssonar bar fyrst saman. Í Búnaðarbankanum hafði verið ákveðið að stofna nýja deild, hagdeild, og var staða auglýst til að veita henni forstöðu. Til þess að afla mér frekari upplýsinga varð það úr að ég fór í bankann og var vísað á starfsmannastjórann, sem þá var Stefán Pálsson. Eftir viðtal við hann sótti ég um þessa stöðu og fékk. Þar með hófust kynni okkar og síðar samstarf sem entist í næstu 30 ár. Trúlega er það sjaldgæft að nú um stundir haldist samstarf manna svo lengi sem raun ber vitni. Stefán hafði eðlilega mikil áhrif á það hverjir réðust til starfa í bankanum og kom sér þá vel að hann hafði eðlislæga hæfileika til að greina hvað í hverjum og einum bjó enda varð sú raunin að bankinn hafði einvalaliði á að skipa sem var mjög annt um framgang fyrirtækisins. Starfsmenn voru dreifðir um allt land því bankinn rak útibú víðs vegar um landið. Sá er þessar línur ritar á góðar minningar frá þessum árum um eftirlitsferðirnar með Stefáni og reyndar fleirum í útibúin og góðar móttökur starfsmanna útibúanna. Stefán var bjartsýnismaður og jákvæður í viðhorfum enda varð honum mikið úr starfi sínu og var virtur vel í því umhverfi sem hann vann í. Það leiddi til þess að honum voru falin margþætt trúnaðarstörf. Hann sat í stjórn starfsmannafélagsins um árabil, í stjórn eftirlaunasjóðs starfsmanna, fyrst sem fulltrúi starfsmanna 1971-1975 og síðar fulltrúi bankans 1989-1997. Í stjórn viðskiptabanka og sparisjóða var hann einnig og fulltrúi þeirra í samskiptum við Seðlabanka Íslands. Þá má geta þátttöku hans í stjórn Reiknistofu bankanna, Kaupþingi og Framleiðnisjóði. Hann vann ötullega fyrir fjárfestingarsjóði landbúnaðarins og eftir að Stofnlánadeild landbúnaðarins varð sjálfstæður sjóður réðist hann sem framkvæmdastjóri hennar. Bankastjóri Búnaðarbankans varð hann svo þegar Þórhallur Tryggvason lét af störfum 1. janúar 1984 og gegndi því starfi þar til hann hætti fyrir aldurs sakir 10. mars 2001. Þegar Stefán var ungur maður norður á Skinnastað var hann mjög áhugasamur um öll sveitastörf og búskap en sjúkdómur olli því að hann sá fram á að geta ekki farið í bændaskóla og tekið svo við búi á föðurleifð sinni eins og hugur hans hafði staðið til.

Þetta varð honum áfall en að sama skapi mega samstarfsmenn hans hrósa happi yfir að fá hann á þann vettvang sem hann helgaði líf sitt. Það er ástæða til að þakka Stefáni áratugalangt samstarf og samvinnu sem gott er að ylja sér við þegar minningar hrannast upp frá liðnum árum. Að leiðarlokum viljum við hjónin flytja Arnþrúði eiginkonu hans, börnum þeirra og barnabörnum einlægar samúðarkveðjur.

Jón Adolf Guðjónsson.