[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Um 12% alls eigin fjár í íslenskum fyrirtækjum eru í beinni eigu íslenskra einstaklinga. Stór hluti þess sem eftir er er í eigu lífeyrissjóða, opinberra aðila eða annarra stofnanafjárfesta.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Um 12% alls eigin fjár í íslenskum fyrirtækjum eru í beinni eigu íslenskra einstaklinga. Stór hluti þess sem eftir er er í eigu lífeyrissjóða, opinberra aðila eða annarra stofnanafjárfesta. Þetta kemur fram í ítarlegri samantekt Creditinfo fyrir Morgunblaðið.

Eins og kom fram í ViðskiptaMogganum í gær er þessi 12% hluti eigin fjárins í eigu tiltölulega fámenns hóps.

Gríðarlega viðmikil gögn

Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar Creditinfo, segir í samtali við Morgunblaðið að stóru fréttirnar í tölunum séu að fyrir utan eign stofnanafjárfesta og erlendra aðila þá sé íslenskt atvinnulíf í eigu tiltölulega fárra aðila.

„Um er að ræða gríðarlega viðamikil gögn og því er ávallt ákveðin óvissa í úrvinnslu á tölunum. Til dæmis þekkjum við ekki að fullu eignarhald allra íslenskra félaga þar sem við skráum ekki 100% eignarhald þegar um marga litla eigendur er að ræða. Hjá skráðu félögunum skráum við t.d. bara 20 stærstu hluthafana, en hluthafarnir skipta oft þúsundum. Einnig má nefna að endanlegt eignarhald erlendra félaga sem eiga í íslenskum félögum er ekki þekkt en slík félög eru stórir endanlegir eigendur eigin fjárins,“ segir Gunnar í samtali við Morgunblaðið. Hann ítrekar að þetta „óþekkta eignarhald“ geti einnig haft áhrif á niðurstöðuna.

Mismunandi aðferðafræði

Gunnar segir að þegar litið sé til heildarupphæðarinnar hvað eigið féð varðar, þá þurfi einnig að meta hvernig farið sé með neikvætt eigið fé í úrvinnslu gagna. „Það eru plúsar og mínusar í þessu. Við gerð greiningar okkar á hlutdeild einstaklinga, þá tókum við til dæmis ekki tillit til neikvæðs eigin fjár. Eftir því hvor aðferðin er notuð má segja að hlutdeild þeirra 1.000 efnamestu liggi á bilinu 76% til 98% af því eigin fé fyrirtækja sem er í beinni eigu einstaklinga.“

Hann segir að með sambærilegum hætti liggi eignarhald 50 eignamestu einstaklinganna á bilinu 35% til 53%.

Eins og fram kom í fréttinni í gær á íslenskur almenningur stærstan hlut sinn í íslensku atvinnulífi í gegnum lífeyrissparnað hjá lífeyrissjóðunum, en einnig má segja að almenningur eigi óbeint stóran hlut atvinnulífsins í gegnum opinbera aðila svo sem Reykjavíkurborg og íslenska ríkið. Það á m.a. við um bankana, sem eru að stórum hluta í eigu ríkisins.

„Einnig skal hafa í huga að þegar hinn almenni borgari vill fjárfesta í fyrirtækjum, þá gerir hann það oft í gegnum hlutabréfasjóði á meðan hinir efnameiri eru oftar skráðir sjálfir beint fyrir sínum hlut,“ segir Gunnar Gunnarsson að endingu.