Gleðigarður Bjarni Sigurbjörnsson vann veggmynd fyrir íþróttahús Garðs.
Gleðigarður Bjarni Sigurbjörnsson vann veggmynd fyrir íþróttahús Garðs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Hér hefur að vanda ríkt mikil sköpunargleði og góð orka,“ segir myndlistarkonan Mireya Samper um listahátíðina Ferska vinda sem fram fer í fimmta sinn um þessar mundir.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Hér hefur að vanda ríkt mikil sköpunargleði og góð orka,“ segir myndlistarkonan Mireya Samper um listahátíðina Ferska vinda sem fram fer í fimmta sinn um þessar mundir. Mireya hefur verið listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi, en hún var fyrst haldin 2010 og hefur að jafnaði verið haldin á tveggja ára fresti síðan. Að þessu sinni taka 40 listamenn af 21 þjóðerni þátt í hátíðinni og sýna afrakstur vinnu síðustu vikna í Garði um helgina.

„Draumar er þema hátíðarinnar í ár. Þegar sýningin var komin upp var ég fyrst svolítið hissa á því að hún er mun loftkenndari og litríkari en þær hafa verið hingað til. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þemað hefði þessi áhrif; að draumar bæru með sér meiri léttleika og gleði en önnur þemu,“ segir Mireya og rifjar upp að þema fyrri hátíða hafi verið sjávarföll, norðurljós, bjartar nætur og víðáttan.

Aðspurð segir Mireya næstu hátíð eftir tvö ár þegar fullskipaða listafólki og fólk sé einnig komið á biðlista. „Ég var líka komin með þema, en velti fyrir mér hvort ég eigi að skipta um þema nú þegar ég sé hvað það getur haft mikil áhrif á sköpunina,“ segir Mireya kímin.

Eitthvað nýtt á hverjum stað

Dagskrá helgarinnar hefst kl. 14 báða daga og er mæting á Sunnubraut 4 þar sem aðalsýningarsalur hátíðarinnar er. „Þar tökum við á móti gestum og leyfum þeim að skoða sýninguna áður en við bjóðum fólki í rútuferðir með leiðsögn á milli sýningarstaða,“ segir Mireya og bendir á að verkin séu meðal annars sýnd í skúlptúrgarði, Útskálahúsi, á vitasvæðinu, byggðasafninu og íþróttamiðstöðinni. „Á hverjum stað tekur listafólk á móti gestum og túlkar verkin sín á sýningarstað,“ segir Mireya og tekur fram að aðgangur sé ókeypis á alla viðburði, gjörninga og tónleika sem og í rútuna.

„Hægt er að koma báða dagana og upplifa eitthvað nýtt á hverjum stað því það er ekkert endurtekið efni.“

Meðal þeirra sem fremja gjörning um helgina eru Aki-Ra Sunrise, Tomoo Nagai, Fabrice Bony og Simon Whetham auk Hrafns Andrésar Harðarsonar og Örnu Guðnýjar Valsdóttur. Þeir aðrir íslenskir listamenn sem taka þátt í hátíðinni í ár eru Brynhildur Þorgeirsdóttir, Ragnheiður Guðmundsdóttir og Bjarni Sigurbjörnsson, sem unnið hefur nýtt varanlegt vegglistaverk fyrir íþróttamiðstöðina.

„Verkið nefnist „Gleðigarður“ og er komið til að vera. Það er mjög ánægjulegt að varanlegum verkum fer sífellt fjölgandi í bænum, bæði inni- og útiverkum.“

Dagskrá beggja daga lýkur með tónleikum. „Á laugardag er það tónleikagjörningur í Gerðaskóla sem hefst kl. 17.30 þar sem gestaleikari er Árni Heiðar Karlsson píanisti en á sunnudag lýkur dagskránni með tónlistarviðburði á efri hæð Sunnubrautar 4 kl. 16 þar sem japönsk ljóð eru í forgrunni,“ segir Mireya.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á vefnum fresh-winds.com.