Aðalhöllin Milliriðill 1 og úrslitaleikir EM fara fram í Arena Zagreb.
Aðalhöllin Milliriðill 1 og úrslitaleikir EM fara fram í Arena Zagreb.
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Þau þrjú lið sem komast áfram úr A-riðlinum í Split halda þaðan til höfuðborgarinnar Zagreb miðvikudaginn 17. janúar til að spila þar í milliriðli keppninnar ásamt þremur efstu liðum B-riðilsins.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þau þrjú lið sem komast áfram úr A-riðlinum í Split halda þaðan til höfuðborgarinnar Zagreb miðvikudaginn 17. janúar til að spila þar í milliriðli keppninnar ásamt þremur efstu liðum B-riðilsins. Íslenska landsliðið fer því annaðhvort til höfuðborgarinnar eða heim á leið.

Frá Split í suðurhluta landsins og norður til Zagreb er rúmlega 400 kílómetra vegalengd eftir þjóðvegi E71 og um 4-5 klukkutíma akstur. Bein loftlína milli borganna er 259 kílómetrar.

Zagreb er stærsta borg Króatíu en þar búa rúmlega 800 þúsund manns. Þar er leikið í Arena Zagreb, tíu ára gamalli höll sem var tekin í notkun í árslok 2008 og er heimavöllur handknattleiksliðsins RK Zagreb og íshokkíliðsins Medvescak Zagreb.

Stórviðburðir í Arena Zagreb

Arena Zagreb rúmar rúmlega 15 þúsund manns á handboltaleikjum og í henni splunkunýrri fóru fram fjölmargir leikir á heimsmeistaramótinu árið 2009, meðal annars úrslitaleikurinn þar sem Frakkar lögðu Króata að velli. Þar hafa líka verið fjölmargir aðrir stórir viðburðir. Úrslitaleikur Króatíu og Spánar í Davis-bikarnum í tennis var háður í höllinni í nóvember 2016. Þar hélt rokksveitin gamalkunna Deep Purple tónleika síðasta vor og áður hafa þar komið fram stjörnur á borð við Justin Bieber, Depeche Mode, Sting, Tom Jones, Plácido Domingo, Britney Spears, George Michael, Roger Waters, Shakiru, Lady Gaga, Leonard Cohen, Rammstein og Beyoncé, svo einhverjar séu tíndar til.

Porec og Varazdin

Keppni í B-riðli fer fram í Porec, litlum bæ við Adríahafið í norðvesturhluta Króatíu, skammt frá landamærunum við Slóveníu. Þar búa aðeins 17 þúsund manns. Höllin Zatika Sport Centre er 10 ára gömul og rúmar 3.700 áhorfendur.

D-riðillinn er leikinn í Varazdin, tæplega 50 þúsund manna borg sem er 80 kílómetra norður af Zagreb. Þar er leikið í Varazdin Arena, sem var einn af keppnisstöðunum á HM 2009, en höllin rúmar um 5.200 áhorfendur. Milliriðill tvö, með sex liðum úr C- og D-riðlum, er einnig leikinn í Varazdin.