Haraldur Ragnarsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 18. maí 1962. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 3. janúar 2018.

Foreldrar hans eru Ragnar Hjálmarsson, f. 3. mars 1931, d. 10. janúar 1998, og Bjarney Gréta Sigurðardóttir, f. 17. október 1938.

Bræður Haraldar eru: Sigurður Hjálmar, f. 12. september 1960, Höskuldur, f. 20. janúar 1964, Hörður, f. 19. desember 1965, og Ragnar Reyr, f. 10. desember 1972.

Hinn 31. desember 1984 kvæntist Haraldur Kristínu Þóru Sigurðardóttur, f. 2. júlí 1963. Foreldrar hennar voru Sigurður Arthúr Gestsson, f. 19. maí 1932, d. 10. mars 2013, og Dóra Magga Arinbjarnardóttir, f. 29. ágúst 1940, d. 9. júní 2011. Haraldur og Kristín Þóra eignuðust fimm börn: 1) Árni Mar, f. 1979, maki Ágústa Sigurlaug Guðjónsdóttir, f. 1976. Synir Árna Mars og Rebekku Guðleifsdóttur eru Bjarki Freyr og Haukur Smári. Synir Árna Mars og Ragnheiðar Arngrímsdóttur eru Kristinn Logi og Alexander Hrafn. Dætur Ágústu Sigurlaugar eru Emma Ósk og Sunna Karen. 2) Ívar Örn, f. 1985, maki Lára Björk Bragadóttir, f. 1988. Börn þeirra eru Embla og Haraldur Bragi. 3) Sigurður Ragnar, f. 1987, maki Margrét Eva Einarsdóttir, f. 1988. Börn þeirra eru Kristín Emelía og Hlynur Dór. 4) Arnór Gauti, f. 1998, maki Vífill Harðarson, f. 1998. 5) Salóme Kristín, f. 2004.

Haraldur ólst upp í Hafnarfirði og gekk í skóla þar. Hann spilaði handbolta og lék yfir 200 leiki með meistaraflokki FH, en einnig lék hann með unglingalandsliðinu og A-landsliði Íslands.

Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Hafnarfirði og fékk meistararéttindi árið 2001.

Haraldur og Kristín hófu sinn búskap í Lækjarkinn 30 árið 1981 og keyptu þau sína fyrstu íbúð í Fögrukinn 17 árið 1984. Haraldur byggði hús í Reynibergi 5 sem þau fluttu í árið 1989 og bjuggu þau þar í 13 ár þar til þau fluttu í Gauksás 49, en það hús byggði hann einnig.

Haraldur verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 12. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku hjartans ástin mín.

Hvað á ég...? Hvernig á ég að lifa án þín? Hjartað mitt er algjörlega brostið. Við erum búin að vera saman síðan við vorum 13 og 14 ára gömul og ætluðum að verða gömul saman.

Mér þykir svo vænt um síðasta kvöldið okkar saman. Við höfðum það kósí og horfðum á þátt um fólk sem var búið að vera gift í 50-60 ár, eins og við ætluðum líka að gera.

Svo áður en við fórum að sofa vorum við að segja hvort öðru hvað það var sem við heilluðumst af í fari hvort annars þegar við byrjuðum saman.

Svo vöknuðum við bæði um sexleytið til að fara á salernið og knúsuðum og föðmuðum hvort annað og ætluðum að taka korters lúr eins og við grínuðumst oft með, en þú ert ennþá að lúra.

Við erum búin að eiga svo fallegt líf saman. Eignuðumst fyrsta barnið okkar 15 og 16 ára og við höfum alltaf staðið á eigin fótum síðan við byrjuðum að búa 17 og 18 ára gömul.

Misstum einu sinni leiguhúsnæði og vorum í viku hjá foreldrum okkar. Þá hést þú því að þetta kæmi aldrei aftur fyrir fjölskylduna þína og það stóðst.

Þú byggðir okkur tvö falleg hús, Reyniberg og Gauksásinn sem við búum í núna. Fimm yndisleg börn, yndisleg tengdabörn og átta falleg barnabörn sem voru svo mikil afabörn. Ef ég ætti ekki allt fólkið okkar hérna hjá mér myndi ég lúra með þér.

Mig dreymdi draum. Ég var erlendis með einhverju af fólkinu okkar og ég villtist og rataði ekki heim, en ég reyndi og ég vissi af símanum í vasanum, sem veitti mér öryggi. Ég ætla að reyna að rata heim án þín, barnanna okkar vegna en það verður erfitt.

Ég sakna þín svo mikið og faðmsins þíns.

Þú varst besti eiginmaður, faðir, tengdafaðir, afi, bróðir, sonur og vinur í heimi.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar.

Þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þó ég fengi ekki að þekkja þig

þú virðist alltaf getað huggað mig

það er eins og þú sért hér hjá mér

og leiðir mig um veg.

Og þegar tíminn minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt vísa veg

og taka á móti mér.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Þar til við sjáumst næst, ástin mín.

Þín

Kristín.

Mér er orða vant, elsku Halli.

Þú varst tekinn frá okkur alltof snemma. Sárin eru djúp og munu taka langan tíma að gróa.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og þinni fjölskyldu. Samheldin, einlæg, húmoristar og gleðigjafar eruð þið, öll sem eitt.

Það er bara svo hrikalega sárt að hafa ekki fengið lengri tíma með þér.

Þú varst í miklu uppáhaldi hjá Emblu sem finnst fátt betra en að fá risastór afaknús og fá að kúra í afaholu þegar hún gisti í ömmu- og afahúsi. Það var einstaklega gaman að fylgjast með ykkur saman. Teboðin þar sem hún tróð þér inn í pínulítinn kofann, ótalmörgu pottaferðirnar ykkar þar sem hún hló yfirleitt þar til hún varð máttlaus, því þú leyfðir henni að skvetta endalaust á þig og hún var orðin svo spennt því afi ætlaði að byggja nýtt hús fyrir hana og sagði hún frá því með stolti.

Svo er það nafni þinn, hann Haraldur Bragi, sem horfði einungis á þig aðdáunaraugum ef þú varst í herberginu. Það var greinilega mikil og falleg tenging á milli ykkar nafnanna.

Sjálf á ég margar fallegar minningar um þig sem ég ætla að geyma á góðum stað.

Elsku Halli minn, ég vona að þér líði vel. Takk fyrir allar góðu stundirnar, hlýjuna, þolinmæðina og knúsin, þau voru svo innileg og góð.

Ég mun gera mitt besta í að hugsa um allt fólkið okkar og ég hlakka til að segja krökkunum sögur af afa Halla, þær eru jú nokkrar.

Hvíl í friði, þín tengdadóttir

Lára.

Okkur að langar að minnast þín, elsku mágur, með nokkrum orðum.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þú hafir verið tekinn frá okkur svona snemma í blóma lífsins og er fráfall þitt okkur óbærilegt. Ég var 12 ára þegar þið Kristín systir byrjuðuð saman og ég man það eins og það hafi gerst í gær. Þið voruð bæði svo ung og falleg og allt lífið framundan.

Þegar ég var 16 ára fór ég vestur að vinna og kynnist þar Gumma sem var þá búinn að taka við sveitinni okkar, Svarthamri. Þangað komu elskulegu strákarnir ykkar á sumrin og hjálpuðu okkur við hin ýmsu sveitastörf og finnst okkur Gumma við eiga mikið í þeim. Þið voruð mjög þakklát fyrir það að strákarnir hefðu kost á því að upplifa það að vera í sveit og í þakklætisskyni vilduð þið bjóða okkur í okkar fyrstu utanlandsferð saman. Þið kynntuð okkur fyrir hinum æðislegu Kanaríeyjum enda fórum við í nokkrar slíkar ferðir saman og var alltaf mjög gaman.

Mér fannst það mjög mikill heiður þegar þú hringdir í mig og baðst mig að prjóna fyrir þig lopapeysur, ekki eina heldur nokkrar. Svo þegar ég var búin með þrjár þá hringdir þú og sagðir að ég mætti stoppa. Síðast þegar ég sá þig varst þú í lopapeysu, ullarsokkum og náttbuxum og er óhætt að segja að það hafi verið þitt uppáhald og sagði ég við þig að þú værir eins og ekta bóndi.

Þið voruð alltaf dugleg að koma vestur og hjálpa til og þegar okkur datt í hug að byggja við húsið þá varst þú, Halli okkar, alltaf fyrstur á vettvang. Þú fékkst vini þína og fjölskyldu með þér í lið og voru verkfundirnir, sem ævinlega voru haldnir um fimmleytið í hjólhýsinu ykkar Kristínar, sérstaklega eftirminnilegir og skemmtilegir. Síðasta ferðin ykkar vestur var síðastliðið haust til að hjálpa okkur að smala og viljum við þakka þér fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir okkur, elsku mágur.

Þú varst alltaf stoltur af fjölskyldunni þinni, fallegu konunni þinni, börnunum og barnabörnunum ykkar.

Elsku Kristín systir, Árni Mar, Ívar Örn, Sigurður Ragnar, Arnór Gauti, Salóme Kristín og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar. Minningin um góðan dreng lifir með okkur.

Salbjörg og Guðmundur.

Elsku Halli, við trúum því ekki ennþá að þú sért farinn frá okkur öllum. Í huga okkar ert þú svo mikill fjölskyldufaðir, afi og vinur vina þinna. Það eru komin 30 ár síðan ég kom fyrst heim til ykkar í Fögrukinn og kynntist þér og Kristínu. Við Linda nutum þess að vera hjá ykkur öll árin, kynnast öllum börnunum og barnabörnunum og sjá þau dafna. Þið eruð ótrúlega rík af þessum fjölskyldumeðlimum og getið verið stolt. Á svona stundu rifjast upp allar gleðistundirnar á ferðalögum hér heima og erlendis, grill og gisting í bústaðnum, veiðiferðir og svo ekki sé talað um gamlárskvöldin ófáu. Prakkari og gleðipinni kemur ofarlega í hugann þegar við hugsum til baka, allar sögurnar og brandarar á færibandi. Þú og ég tókum það að okkur að fara með stelpurnar okkar á sunnudögum í messu þar sem þær eru að undirbúa sig fyrir fermingu í vor. Það kom þá strax uppástunga hjá þér að skilgreina okkur sem fermingarbræður. Traustari vin er vart hægt að hugsa sér enda áttum við margt sameiginlegt og gátum hlegið mikið saman.

Yndislegur svili og mágur, við kveðjum þig með miklum söknuði, takk fyrir að fá að kynnast þér, elsku Halli okkar. Guð blessi Kristínu og öll börnin.

Kveðja,

Páll Aðalsteinsson,

Linda Sigurðardóttir.

Lífið er hverfult, svo ótrúlega stutt á milli gleði og sorgar. Halli, hinn helmingurinn af elskulegu Kristínu vinkonu minni, er dáinn langt fyrir aldur fram. Halli sem var svo duglegur og vinnusamur og setti ávallt velferð fjölskyldu sinnar í fyrsta sæti, Halli sem var svo hress og skemmtilegur og Halli sem elskaði að segja gamansögur og brandara, Halli sem var alltaf til í allt.

Ótal minningar fara um huga minn, öll ferðalög okkar fjölskyldnanna um landið, ferðin að Ljósavatni þar sem hitinn fór í 30 stig og allir skaðbrenndir á heimleiðinni. Öll matarboðin í Reyniberginu, þar sem „Hallagæsir“ voru á boðstólum sem hann var svo stoltur af að hafa skotið, ófáar sumarbústaðaferðirnar okkar saman, þar sem það var spilað, borðað og sprellað fram á nótt og allir í stuði og sérstaklega þú með þinn smitandi hlátur.

Elsku Kristín mín, Salóme, Gauti, Siggi Raggi, Ívar, Árni og fjölskyldur ykkar. Megi sorgin mildast og sólin koma upp að nýju.

Ég kveð þig með fallega laginu hans Bubba Morthens, Kveðja:

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Birna.

Fallinn er frá kær vinur og félagi til 40 ára.

Við Halli hittumst fyrst á handboltaæfingu 14 ára gamlir og höfum verið bestu vinir síðan. Fyrstu ár þessarar vináttu var lífið handbolti og jafnan haldnir langir símafundir eftir hverja æfingu. Nokkrum árum síðar kom svo í ljós að lífið er ekki bara handbolti. Greiningarfundir um handbolta breyttust í greiningu á lífinu sjálfu, tilgangi þess og hvað það væri sem skipti máli.

Halli fæddist með hæfileika til að spila handbolta og þurfti ekki að æfa mikið til að verða einn okkar allra besti markmaður til margra ára.

Hann mætti stundum beint úr steypuvinnu í leik, en smíðar voru hans ævistarf og þar naut hann sín vel. Ég var „handlangari“ hjá Halla þegar hann byggði fyrir mig núverandi heimili fjölskyldu minnar. Ég verð að viðurkenna að sjálfum fannst mér þetta erfitt starf á dimmum vetrarkvöldum þegar við vorum að vinna úti í kuldanum, en þarna var Halli í essinu sínu og hrein unun að fá að upplifa þann dugnað, ósérhlífni og fagmennsku sem smiðurinn, vinur minn, hafði til að bera. Það átti vel við hann að vera úti við, hvort sem var við störf eða í leik, einkum þá við veiðar, í sveitinni eða sumarbústaðnum.

Það vafðist ekki fyrir Halla hvað það er sem gefur lífinu gildi og fyllingu. Hjá honum var fjölskyldan í öndvegi. Halli var einn af fimm bræðrum og eignaðist sjálfur fimm börn. Frumburðinn, Árna Mar, eignaðist hann 16 ára og fórum við félagar í strætó upp á fæðingardeild til að heimsækja Stínu og Árna Mar nýfæddan. Síðar bættust fjögur börn í hópinn hjá Halla og Stínu, allt heillandi og heilsteyptar persónur eins og þau eiga kyn til. Stína var konan í hans lífi, æskuvinkona og besti vinur.

Þau voru samferða frá unglingsaldri og samstiga í öllu sem þau gerðu. Ógleymanlegt er þegar við héldum hrekkjavökuveislur þar sem hart var barist um besta búninginn, Halli og Stína tóku „Óskarinn“ ár eftir ár. Enginn sem þar var getur gleymt Halla í munkakuflinum, rökuðum á hvirflinum, sem Steinríkur með eldrautt skeggið eða sem hinum fagurgræna Shrek – allt búningar og gervi sem Stína útfærði. Halli og Stína voru einfaldlega lið sem enginn átti möguleika á að vinna; þannig var þeirra samvinna, líka í lífinu sjálfu.

Halli hafði áhuga á fólki, var næmur á blæbrigði mannlegrar tilveru, kunni að segja skemmtilega frá og hló jafnan innilega ef honum þótti sagan góð. Hann kunni þá list líka, sem fáum er gefið, að gera grín að sjálfum sér ef svo bar undir. Hann var hreinn og beinn og kom beint að hlutunum

Síðustu misseri leyndi sér ekki hvað Halli var ánægður með lífið og tilveruna. Hann var búinn að koma sér vel fyrir á fallegu heimili, fjölskyldan ánægð og umræðan okkar á milli frekar á heimspekilegum nótum; halda áfram að njóta lífsins sem er núna, ferðast, fara í veiði, í bústaðinn og koma meira inn í golfið. Sviðsmyndin nánast fullkomin – en allt í einu án fyrirvara fellur tjaldið.

Elsku Stína og fjölskylda, Lilja, ég og strákarnir biðjum Guð um að styrkja ykkur í ykkar sorg.

Ég þakka þér, vinur, samfylgdina.

Michael.

Vinur okkar og félagi, Haraldur Ragnarsson, er fallinn frá langt fyrir aldur fram.

Halli, eins og við kölluðum hann, var í hópi okkar FH-inga sem höfum gengið undir nafninu „drengirnir hans Geira Hallsteins“. Geir tók við okkur ungum og reynslulitlum handboltastrákum og hélt vel utan um þennan hóp í mörg ár. Daglegar æfingar, spennandi leikir og skemmtilegar samverustundir lifa í minningunni. Þarna skapaðist sterk liðsheild og eftir að keppnisferli lauk sátu eftir traust vinabönd.

Þegar við hugsum um Halla kemur orðið dugnaðarforkur fyrst upp í hugann. Hann stofnaði ungur fjölskyldu með Stínu sinni og var mjög ábyrgur í því hlutverki. Halli byrjaði snemma að vinna við húsbyggingar. Honum leið vel í vinnu og vildi helst alltaf vera í vinnugallanum við að byggja hús.

Iðulega kom hann beint úr vinnu á æfingar og átti eftir að vinna aðeins eftir að æfingu lauk. Ef veður gafst til steypuvinnu þá var lítill tími til æfinga, en það kom ekki að sök því Geir hafði á orði að Halli væri hreinlega náttúrutalent og markmaður af Guðs náð. Fjarvera okkar hinna á æfingum mætti ekki sama skilningi. Þegar Halli mætti til leiks gaf hann sig allan í leikinn og eins og allir þekkja sem fylgdust með ferlinum þá lokaði hann markinu oft á tíðum, ekki síst þegar mest lá við. Halli spilaði á þriðja hundrað leiki með meistaraflokki FH, þar af 14 Evrópuleiki. Hann varð Íslandsmeistari með meistaraflokki FH árin 1984 og 1985 og árið 1992 varð liðið þrefaldur meistari, en þá hafði Halli í raun lagt skóna á hilluna en fékk neyðarkall um að koma og verja markið og var ómetanlegur fyrir liðið. Þá spilaði Halli einnig með unglingalandsliðum.

Halli var umfram allt góður félagi og traustur vinur. Hann var hógvær, en alltaf skemmtilegur og hress og hafði þann kost að koma ávallt til dyranna eins og hann var klæddur. Á þessum tímamótum er hugur okkar hjá Kristínu, börnum þeirra og fjölskyldu. Við sendum þeim hugheilar samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja þau í sorginni.

Fyrir hönd vina úr FH,

Þorgils Óttar Mathiesen.