Kristín P. Andrésdóttir, eða Kiddý eins og hún var oft kölluð, fæddist í Reykjavík 13. nóvember 1938. Hún lést 3. janúar 2018.

Foreldrar hennar voru Andrés S. Jónsson vélstjóri, f. 28. júní 1902, d. 1971, og Björg Pálsdóttir húsmóðir, f. 8. ágúst 1906, d. 1985.

Systkini Kristínar eru Harald S. Andrésson, f. 27. júní 1934, d. 7. maí 2017, og Björgúlfur Andrésson, f. 3. febrúar 1946, kona hans er Hafdís Jónsdóttir, f. 21. ágúst 1952.

Kristín giftist Sigurði Jóhannessyni, f. 26. janúar 1932, d. 21. október 1996. Saman eignuðust þau tvær dætur, þær Önnu Björgu, f. 30. mars 1969, og Ragnhildi Hrund, f. 26. nóvember 1972. Eiginmaður Önnu Bjargar er Víglundur H. Ákason, f. 26. júní 1966. Þeirra börn eru 1) Andrea Rós Víglundsdóttir, maki Antonio Fattoruso. 2) Stefán Ragnar Víglundsson, maki Kristín Ósk Magnúsdóttir. 3) Sigurður Þór Víglundsson. Ragnhildur á einn son, Aron Kristin Jónsson. Langömmubörnin eru þrjú.

Börn Sigurðar af fyrri samböndum eru þau Þórdís, Jóhannes, d. 1999, Egill, Gunnar og Björn.

Kristín gekk í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og á Laugarvatni. Eftir það kenndi hún í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og á Laugalandi í Eyjafirði.

Einnig vann hún sem klinka hjá tannlækni og á smurbrauðsstofu um tíma. Síðar tók hún við eldhúsinu á Reykjalundi þar sem hún kynntist eiginmanni sínum Sigurði.

Hún kenndi heimilisfræði í Fossvogs-, Breiðagerðis- og Vesturbæjarskóla, var forstöðukona eldhúss í Sjálfsbjörg og lauk síðan starfsferlinum í mötuneyti á leikskóla.

Útför Kristínar fer fram frá Seljakirkju í dag, 12. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku amma mín, ég sakna þín.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Þinn

Aron Kristinn.

Elsku mútta mín. Mikið er nú skrítið að þú sért farin frá okkur og enn undarlegra að geta ekki faðmað þig og kysst. Þú varst kletturinn minn í gegnum súrt og sætt og tókst mér alltaf opnum örmum. Það má segja að við höfum búið saman alla mína tíð. Það sem þú varst alltaf góð við mig og dekraðir mig í gegnum árin. Þú tókst okkur Aroni svo vel þegar við fluttum til þín fyrir rúmum tveimur árum. Þá sem endranær var gott að eiga þig að.

Þú varst mikið fyrir að lesa og margir þínir uppáhaldshöfundar urðu líka mínir. Nefni ég þá sérstaklega Agöthu Christie sem við höfðum mikið dálæti á. Mikið var gaman hjá okkur þegar við horfðum á Útsvar á föstudagskvöldum og ef Poirot var þar á eftir var kvöldið alveg fullkomið. Ég mun alltaf hugsa til þín þegar ég les eða horfi á eitthvað eftir Agöthu.

Ekki má gleyma einni af uppáhaldsbókunum okkar, Vinur minn prófessorinn. Það var alltaf gott að kíkja á hann til að létta lundina þegar á þurfti að halda. Ég býst við að ég muni lesa þá bók fljótlega.

Það sem þú varst alltaf mikil dama, elegant í klæðaburði og barst þig svo vel. Alltaf settir þú á þig varalit áður en þú fórst út, jafnvel þótt þú værir bara að fara á milli húsa. Neglurnar voru að sjálfsögðu rauðlakkaðar og fínar og ilmurinn lá í loftinu þar sem þú fórst um. Það hefði sennilega verið gaman fyrir þig að eiga dóttur sem væri jafn mikil dama og þú, en hana fékkstu ekki í mér. Þú hafðir nú samt alltaf húmor fyrir brussuskapnum í mér sem betur fer. Mér er minnisstætt þegar þú varst búin að klæða mig upp fyrir veislu sem við vorum að fara í. Ég var þvílíkt fín en vildi endilega fara aðeins út að leika og þú leyfðir mér það. Þú hefðir betur sleppt því þar sem ég skellti mér beint í næsta drullupoll. Þú kipptir þér svo sem ekkert upp við það og þetta hefur örugglega ekki komið þér á óvart með mig þar sem þú þekktir mig svo vel.

Þegar ég var á menntaskólaárunum mínum og aðeins að skemmta mér of mikið, að þér fannst, þá settir þú stundum upp svipinn og sagðir: Hildur mín, þú verður nú að fara að hugsa þinn gang. Ekki var ég ánægð með þessa setningu þá en í seinni tíð hef ég mikið skemmt mér yfir þessu.

Þó svo að við værum ekki alltaf sammála og oft að misskilja hvor aðra, þá var alltaf mikil ást og kærleikur á milli okkar. Við vorum fljótar að sættast og knúsast ef farið var yfir strikið. Okkur fannst gaman að fara saman í búðir og þú varst alltaf fljót að ákveða hvað þú vildir kaupa. Það var gott að hafa þig með því þú hvattir mig alltaf til að kaupa mér eitthvað fallegt líka.

Þetta eru undarlegir tímar núna og allt er svo óraunverulegt. Ég veit að tíminn læknar öll sár og það hugga ég mig við núna. Ég get glaðst yfir því að hafa búið hjá þér síðustu tvö ár og notið samvista við þig, dúllan mín.

Elsku mútta mín, ég kveð þig með þessum orðum sem ég samdi til þín. Vonandi hefur þú það gott núna og ert orðin létt í spori aftur.

Elsku mamma mín

þú varst mér svo kær,

eina sem ég hugsa um

er að vera þér nær.

Þú umvafðir mig með ást og hlýju

og því mun ég aldrei gleyma,

í hjartu mínu ég ávallt þig mun geyma.

Þín elskandi dóttir,

Ragnhildur (Hildur).