Kjarnorkumál Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þjóðverja, Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, og Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, lesa yfirlýsingu sína í gær.
Kjarnorkumál Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þjóðverja, Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, og Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, lesa yfirlýsingu sína í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Utanríkisráðherrar Breta, Frakka og Þjóðverja stigu fram í gær ásamt Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, og lýstu því yfir að samkomulagið sem gert var við Írana árið 2015 um kjarnorkuáætlun landsins væri enn í fullu gildi. Kom yfirlýsingin í kjölfar viðræðna þeirra við Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans.

Afstaða Evrópusambandsríkjanna er í ósamræmi við afstöðu Bandaríkjastjórnar, en Donald Trump Bandaríkjaforseti neitaði í október síðastliðnum að staðfesta það að Íranar stæðu við sinn hluta samkomulagsins. Gert er ráð fyrir að Trump muni ákveða í dag hvort Bandaríkjastjórn hefji aftur refsiaðgerðir á hendur Írönum, er felldar voru úr gildi þegar samkomulagið var undirritað.

Írönum haldið í skefjum

Mogherini sagði að samkomulagið hefði náð fram helstu markmiðum sínum, sem væri að halda kjarnorkuvopnaáætlun Írana í skefjum. Sagði hún brýnt að halda í samkomulagið, þar sem það gerði heiminn að öruggari stað en ella og kæmi um leið í veg fyrir kjarnorkuvopnakapphlaup í Mið-Austurlöndum.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, tók í sama streng og sagði að það væri undir andstæðingum samkomulagsins komið að sýna fram á betri leiðir til þess að aftra Írönum frá því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Sagði hann jafnframt ljóst að Íranar hefðu staðið algjörlega við samkomulagið.

Óvíst hvað Trump hyggst gera

Heimildarmenn AFP-fréttastofunnar innan bandaríska stjórnkerfisins sögðust ekki gera ráð fyrir því að Trump myndi hefja á ný þær refsiaðgerðir sem komið var á fót í aðdraganda samkomulagsins. Það væri hins vegar ekki loku fyrir það skotið að Trump myndi skipa fyrir um aðrar aðgerðir gegn Íran vegna mannréttindabrota þeirra og stuðnings ríkisins við erlend öfgasamtök.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, sagði í gær að ef Bandaríkin teldu sig ekki bundin af samkomulaginu væru allar forsendur fyrir því að Íranir héldu sig við ákvæði þess brostnar. Þá myndu Íranar svara öllum refsiaðgerðum Bandaríkjanna af fullri hörku.