Afi Birgir Björnsson lék þrisvar í lokakeppni HM og þjálfaði landsliðið.
Afi Birgir Björnsson lék þrisvar í lokakeppni HM og þjálfaði landsliðið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upprifjun Ívar Benediktsson iben@mbl.is Afar tveggja leikmanna í EM-hópnum í handknattleik léku landsleiki í handknattleik á sínum tíma.

Upprifjun

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Afar tveggja leikmanna í EM-hópnum í handknattleik léku landsleiki í handknattleik á sínum tíma. Annar þeirra lék einnig landsleiki í knattspyrnu og hinn var einnig landsliðsþjálfari um skeið auk þess að vera formaður landsliðsnefndar HSÍ.

Um er að ræða Framarann Rúnar Guðmannsson, móðurafa Rúnars Kárasonar stórskyttu hjá Hannover-Burgdorf og Fram, og FH-inginn Ágúst Birgi Björnsson afa Ágústs Elí Björgvinssonar, markvarðar FH, en Ágúst Elí er sonur Laufeyjar dóttur Ágúst Birgis eða Bigga Björns eins og hann var ævinlega kallaður. Móðir Rúnars Kárasonar er Rannveig, dóttir Rúnars Guðmannssonar.

Rúnar og Birgir voru valdir í landsliðið í handknattleik vegna Norðurlandaferðar 1959. Þeir náðu þó ekki að leika saman því Birgir meiddist skömmu fyrir ferðina og gat ekki leikið með liðinu. Hann fór engu að síður með í ferðina þar sem leiknir voru þrír leikir á sex dögum. Þar sem fjárhagur HSÍ var svo bágur á þeim tíma að ekki var mögulegt að hafa með aukamann var brugðið á það ráð að efna til söfnunar til þess að gera Birgi kleift að farið með. Settir voru upp söfnunarbaukar í Bókabúð Lárusar Blöndal í Vesturveri, í Morgunblaðshúsinu og í bókabúð Olivers Steins í Hafnarfirði. Ólafur Thors forsætisráðherra setti fyrstur í baukinn í Vesturveri, 500 kr., en alls söfnuðust liðlega 3.400 kr. Svo fór að Flugfélag Íslands bauð Birgi flugfarið fram og til baka frá Ósló. Þaðan ferðaðist landsliðið með lest til Slagelse í Danmörku og til Borås í Svíþjóð þar sem síðasta viðureignin var háð og á ný til Óslóar.

Rúnar lék tvo af leikjunum þremur og voru það hans einu landsleikir í handbolta. Rúnar var einnig öflugur knattspyrnumaður og lék sex landsleiki í knattspyrnu á árunum 1958 til 1961 áður er hann lagði skóna á hilluna eftir hnéaðgerð 1961, eftir að hafa meiðst í leik við skoska liðið Dundee um sumarið.

Þórólfur Beck, leikmaður KR, St. Mirren og Glasgow Rangers, sagði í viðtali við Sigmund Ó. Steinarsson blaðamann árið 1985: „Ég hef leikið gegn mörgum snjöllum leikmönnum. Erfiðasti leikmaðurinn sem ég hef leikið gegn var Rúnar Guðmannsson, sem var snöggur og sprettharður. Þá var hann með mjög góðar staðsetningar og snjall í loftinu. Það voru ekki margir sem unnu skallaeinvígi gegn honum.“

Birgir lék 29 landsleiki af þeim 35 sem íslenska landsliðið lék frá 1958 til 1966 og var þátttakandi í á HM 1958, 1961 og 1964. Birgir var landsliðsþjálfari 1967 til 1968, aftur 1974 til 1975 og frá 1977 til 1978. Birgir stýrði íslenska landsliðinu og bar hitann og þungann af undirbúningi þess á HM 1978 eftir að Pólverjinn Janus Czerwinsky fékkst ekki til starfans eins og til stóð.

Ágúst Elí, sem er 22 ára gamall, tekur nú þátt í sínu fyrsta stórmóti með íslenska landsliðinu en hann á að baki sjö landsleiki, þann fyrsta í Elverum í Noregi 8. júní á síðasta ári. Þess má geta að Birgir afi hans lék sinn fyrsta landsleik gegn Tékkum í Magdeburg á HM í Austur-Þýskalandi 27. febrúar 1958.

Rúnar Kárason, er 29 ára gamall, og er öllu reyndari með landsliðinu en Ágúst Elí. Rúnar hefur leikið 88 landsleiki og var í fyrsta sinn með á stórmóti á EM í Serbíu fyrir sex árum. Rúnar lék sinn fyrsta landsleik gegn Spánverjum í Reykjavík 18. júlí 2008.

Báðir afarnir eru látnir. Rúnar Guðmannsson lést 2009 og Biggi Björns tveimur árum síðar.