[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Hvað skyldi Heimir Hallgrímsson hafa fengið út úr vináttuleik gegn B-liði Indónesíu við hrikalega erfiðar aðstæður í Yogyakarta í gær?

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Hvað skyldi Heimir Hallgrímsson hafa fengið út úr vináttuleik gegn B-liði Indónesíu við hrikalega erfiðar aðstæður í Yogyakarta í gær? Íslenska liðið, sem vissulega var líka B-lið, vann þar afar auðveldan sigur, 6:0, í leik þar sem nær ómögulegt var að spila fótbolta í seinni hálfleiknum vegna þess að völlurinn var þá nánast kominn á flot eftir haugarigningu sem hófst á lokakafla fyrri hálfleiks.

Einnig var gert 15 mínútna hlé á leiknum eftir 55 mínútur þegar aðstæðurnar voru orðnar mjög erfiðar og dómari leiksins skoðaði hvort rétt væri að flauta leikinn af.

Heimir sagði í viðtali við mbl.is eftir leik að það væri ósanngjarnt að dæma leikmenn, jákvætt eða neikvætt, út frá þessum leik. En hann er samt örugglega með augastað á framherjanum marksækna Andra Rúnari Bjarnasyni sem skoraði glæsilegt mark í fyrri hálfleik en brenndi líka af vítaspyrnu strax á 13. mínútu. Þetta var kraftmikil byrjun hjá Bolvíkingnum sem var kallaður inn í hópinn vegna forfalla Björns Bergmanns Sigurðarsonar en spilaði bara fyrstu 45 mínúturnar.

Heimir hefur eflaust punktað hjá sér ýmislegt um Samúel Kára Friðjónsson frá Vålerenga sem var hörkuduglegur á miðjunni frá fyrstu til síðustu mínútu. Þá er Samúel með í vopnabúrinu gríðarlega löng innköst og eitt þeirra gaf af sér mark.

Albert kom að fjórum mörkum

Albert Guðmundsson hefur talsvert verið orðaður við HM-hópinn fyrir Rússlandsförina í sumar. Albert var sjálfur óheppinn að skora ekki, skaut m.a. í þverslá og krækti í vítaspyrnu, en hann var afar líflegur í sóknarleik Íslands og kom að fjórum marka liðsins á ýmsan hátt.

Heimir getur verið sáttur við framlag íslensku leikmannanna sem spiluðu af krafti allan tímann og flestir voru augljóslega afar einbeittir í að nýta tækifærið til að sýna þjálfaranum að þeir ættu að koma til greina í Rússlandshópinn. Líkamsstyrkur, skipulag og heildargeta íslensku leikmannanna var á allt öðru stigi en hjá indónesískum andstæðingum þeirra í þessari viðureign og þeir gátu betur nýtt sér erfiðar aðstæðurnar.

Að öðru leyti fer þessi leikur fyrst og fremst í sögubækurnar og tölfræðiskrárnar.

*Þetta er stærsti útisigur Íslands frá upphafi. Ísland hefur einu sinni áður gert sex mörk á útivelli, í 6:1-sigri í Færeyjum árið 1976.

*Þetta er í fimmta sinn sem Ísland skorar sex mörk eða fleiri í A-landsleik. Hinir leikirnir eru allir gegn Færeyingum, 9:0 árið 1985 og svo tvisvar 6:0 og einu sinni 6:1.

*Sex markaskorarar Íslands gerðu allir sitt fyrsta A-landsliðsmark: Andri Rúnar Bjarnason, Kristján Flóki Finnbogason, Óttar Magnús Karlsson, Tryggvi Hrafn Haraldsson, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson.

*Andri Rúnar skoraði í sínum fyrsta landsleik. Fimm aðrir spiluðu fyrsta A-landsleikinn í gær, Mikael Anderson, Samúel Kári Friðjónsson, Anton Ari Einarsson, Hilmar Árni Halldórsson og Felix Örn Friðriksson.

Það má eflaust deila um hvort svona leikur ætti að teljast fullgildur landsleikur. En hann uppfyllti skilyrði fyrir slíku og það var í höndum Indónesanna hvers konar liði þeir myndu stilla upp. Hins vegar er svo önnur saga, í ljósi takmarkaðrar getu mótherjanna í þessum leik, að það hefði örugglega verið heppilegra að mæta aðeins sterkari andstæðingum.

Seinni leikurinn í Jakarta á sunnudaginn verður án efa ólíkur þessum. Indónesar mæta þá með nánast sitt sterkasta lið, að undanskildum leikmönnum frá einu félagsliða þeirra sem eru fjarverandi vegna Meistaradeildar Asíu.