Kristján Jónsson kris@mbl.is Evrópukeppni landsliða í handbolta á sér nokkru styttri sögu en heimsmeistarakeppnin í íþróttinni eða tilvera íþróttarinnar á Ólympíuleikum.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Evrópukeppni landsliða í handbolta á sér nokkru styttri sögu en heimsmeistarakeppnin í íþróttinni eða tilvera íþróttarinnar á Ólympíuleikum. HM var í fyrsta skiptið haldið 1938 og handbolti var í fyrsta skipti á Ólympíuleikunum í Berlín 1938 en reyndar ekki aftur fyrr en í München 1972.

EM kom ekki til sögunnar fyrr en árið 1994 og mótsstaðurinn ef til vill forvitnilegur því fyrsta EM landsliða í handbolta fór fram í Portgúal. Var þá um að ræða tólf liða keppni og Ísland komst ekki inn í keppnina. Hið sigursæla lið Svía varð þá Evrópumeistari eftir sigur á Rússlandi í úrslitaleik 34:21 en Svíþjóð vann fjórar af fyrstu fimm keppnunum eða til ársins 2002 en hefur ekki unnið síðan.

Svíar hafa unnið oftast en Frakkar hafa þrívegis orðið Evrópumeistarar. Hjá þeim líða fjögur ár á milli og kannski eru þeir þá líklegir aftur núna en Frakkar unnu 2006, 2010 og 2014. Þjóðverjar og Danir hafa tvívegis orðið Evrópumeistarar hvor þjóð og Rússar einu sinni en það var þegar keppnin var haldin í annað sinn 1996 og fór fram á Spáni.

Svíar eru þó ekki með flest verðlaun á heildina litið en það eru Danir og Spánverjar sem hafa sex sinnum unnið til verðlauna. Svíar eru með fern verðlaun og hafa því ávallt unnið EM ef þeir hafa komist í undanúrslit. Króatar hafa fimm sinnum unnið til verðlauna en aldrei gullið. Þjóðverjar og Frakkar eru einnig með fern verðlaun.