EM 2018 Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Mér finnst leikur íslenska liðsins hafa verið afar góður á köflum í þessu móti.

EM 2018

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Mér finnst leikur íslenska liðsins hafa verið afar góður á köflum í þessu móti. Ef þeir verða lengri í næsta leik þá líst mér vel á framhaldið,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik og hornamaður í Fram, spurð um frammistöðu íslenska karlalandsliðsins í tveimur fyrstu leikjum þess á Evrópumeistaramótinu.

„Hinsvegar eru Króatar með afar sterkt lið og hafa með sér gríðarlega stemningu. Þeir voru afar góðir og því fannst mér vel gert hjá íslensku strákunum að ná að halda í við Króata lengst af leiksins. Útkoman hefði verið ennþá betri ef við hefðum ekki misst taktinn í nokkrar mínútur í upphafi síðari hálfleiks,“ sagði Þórey Rósa ennfremur.

Sótt of mikið inn á miðjuna

„Þegar illa fór að ganga hjá íslenska liðinu þá styttust sóknirnar of mikið auk þess sem það var sótt of mikið inn á miðjuna í stað þess að nýta breiddina og teygja á króatísku vörninni,“ sagði Þórey Rósa og undirstrikar að það sem verði að bæta úr fyrir leikinn við Serba í kvöld að þörf er á betri frammistöðu hjá línumönnunum. Þeir verði að spýta í lófana auk þess sem nauðsynlegt sé að fá meira út úr hornamönnum íslenska liðsins.

„Bæði er við línumennina að sakast en kannski einnig sóknarmennina fyrir utan sem á tíðum voru að reyna of erfiðar sendingar inn í miðja vörn andstæðinganna. Þar með varð svolítið hnoð í sóknarleiknum.

Verðum að nýta hornamennina

Við eigum geggjaða hornamenn og verðum að spila þá betur upp en gert hefur verið. Til þess þarf að leika lengri sóknir en við gerðum til dæmis á köflum í síðari hálfleik gegn Króötum. Boltinn þar að fljóta.“

Þórey Rósa segir að stundum hafi vantað upp á þéttleikann og aðstoðina í vörninni, ekki síst í viðureigninni við Króatíu. „Ekki má gleyma því að Króatar hafa á að skipa einstaklega góðum sóknarmönnum. Gegn Serbum verðum við að leika afar góða vörn þar sem menn hjálpa hver öðrum frá upphafi til enda leiksins. Um leið kemur markvarslan með,“ sagði Þórey Rósa sem er bjartsýn á viðureignina í kvöld við Serba.

Breiddin er fyrir hendi

„Það verður að lengja góðu kaflana. Ég vil sjá íslenska liðið komast áfram í millriðla. Ég hef fulla trú á því. Breiddin er fyrir hendi í leikmannahópnum. Það hefur sýnt sig á löngum köflum í tveimur fyrstu leikjum mótsins. Mér finnst liðið vera spennandi og hafa getu til þess að fara í milliriðla og standa sig vel,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik.