Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri, Eldin Skoko, í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu aðfaranótt laugardagsins 1. júlí í síðasta ári. Einnig þarf hann, skv.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri, Eldin Skoko, í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu aðfaranótt laugardagsins 1. júlí í síðasta ári. Einnig þarf hann, skv. dómnum, að greiða konunni 1,5 millj. kr. í miskabætur, auk vaxta. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa komið að konunni þar sem hún lá kastandi upp fyrir utan skemmtistað, farið með hana inn í íbúð og lagt í rúm.

„Hafi hann þannig notfært sér að stúlkan gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum máttleysisástands og slævðrar meðvitundar hennar, auk þess sem hann notfærði sér að hún var einsömul, í ókunnugu húsnæði, sem hann hafði sjálfur fært hana í, og að hann var henni ókunnugur,“ segir Héraðsdómur. Maðurinn neitaði því að hafa haft samræði við konuna. Hélt því fram að mökin hefðu verið með fullu samþykki hennar.

Meðal gagna sem lögð voru fram fyrir dómi í máli þessu var vottorð Kristbjargar Þórisdóttur sálfræðings. Þar segir að brotaþoli hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og bjargarleysi í kynferðisbroti þessu og upplifað áfallastreitueinkenni sem varað hafi lengi. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun og stórslys.

Víðtæk áhrif á líðan

„Ekki er hægt að segja til um með vissu hver áhrif meints kynferðisbrots verða þegar til lengri tíma er litið en ljóst þykir að atburðurinn hafði víðtæk áhrif á líðan,“ segir í skýrslu sálfræðingsins. Þar kom einnig fram að brotaþoli hefði eftir umræddan atburð átt erfitt með svefn og einbeitingu, bæði í námi og daglegu lífi að öðru leyti. Jafnframt hefði hún átt erfitt með að ræða um atburðinn við sína nánustu. Tók sálfræðingurinn fram sem vitni fyrir dómi að brotaþoli fyndi enn afleiðingar af meintu kynferðisbroti, en engu væri þó hægt að spá um hverjar afleiðingar þess yrðu til lengri tíma litið.