Svavar Gunnar Sigurðsson fæddist á Ísafirði 29. ágúst 1935. Hann lést á heimili sínu í Gautaborg í Svíþjóð 19. desember 2017.

Foreldrar hans voru Sigurður Pétursson, f. 1893, d. 1957, og Gróa Bjarney Salómonsdóttir, f. 1897, d. 1982. Alsystkini Svavars voru Pétur, f. 1931, og Helga Guðrún, f. 1934, d. 2014. Hálfsystkini, samfeðra, tvíburarnir Guðrún Guðríður, f. 1924, og Guðmundur Jósep, f. 1924, d. 1992.

Árið 1955 kvæntist Svavar Ernu Sörensen frá Ísafirði, f. 1936. Foreldrar hennar voru Arne Sörensen, f. 1899, d. 1973, og Sigríður Árnadóttir, f. 1906, d. 1977. Svavar og Erna eignuðust sex börn: Kolbrúnu H., f. 1955; Sigríði, f. 1957; dreng, f. 1959, d. sama ár; Gunnar Örn, f. 1961, d. 1990; Óttar Rúnar, f. 1965; Bjarna, f. 1966, d. sama ár. Þau skildu árið 1976. Sama ár fluttist Svavar til Svíþjóðar og giftist þar Britt Sigurðsson, f. 1939, sem lifir mann sinn. Sonur hennar er Jörgen Hanson, f. 1965.

Svavar lauk námi frá Iðnskólanum í Reykjavík og sveinsprófi í bifvélavirkjun 1958 og starfaði þar til ársins 1960. Rak eigið verkstæði á Ísafirði þar til hann gerðist hluthafi í Bílaverkstæði Ísafjarðar. Hann var bifvélavirki í Gautaborg frá 1976.

Útför Svavars fer fram frá Lundby Gamla Kyrka í Gautaborg í dag, 16. janúar 2018, kl. 14.

Í dag er komið að kveðjustund, er ég fylgi elsku afa mínum til hinstu hvílu. Svavar afi, sem var oftast kallaður „afi í Svíþjóð“, hefur nú hlotið hvíld frá lífsins baráttu og er farinn til endurfunda við syni sína sem á undan eru gengnir. Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa gefið mér hann, þó minningarnar væru eflaust fleiri, ef hafið hefði ekki aðskilið okkur vinina öll mín 40 ár. Afi hafði um nokkurt skeið átt við mikil veikindi að stríða og barðist af miklum hug en ég átti þó ekki von á því að endataflið yrði eins stutt og raun varð.

Afi flutti til Svíþjóðar áður en ég fæddist. Þar giftist hann Britt, seinni konu sinni. Man ég óljóst eftir heimsóknum mínum til þeirra með móður minni og Kollu systur hennar og svo síðar með mömmu og pabba fyrstu árin mín. Afi kom nokkuð reglulega til landsins mín uppvaxtarár fyrir vestan og var þá alltaf mikil tilhlökkun hjá mér við hverja heimsókn. Það var alltaf mjög gaman að fá póstkort frá honum, stíluð á mig, þegar hann var á ferðalagi með Britt, eða á sólarströnd, en honum fannst gott að komast í hitann eins og öðrum Íslendingum. Ég passaði vel upp á þessi póstkort og hengdi þau upp á korktöfluna í herberginu mínu. Þannig var afi mér nærri og fannst mér þetta tengja okkur á ákveðinn hátt.

Þegar ég var á 11. ári, fórum við Erna systir mín með mömmu að heimsækja afa og Britt og sú ferð er mér ljóslifandi í dag. Þar lék afi við hvern sinn fingur í því hlutverki sem hann fékk of sjaldan að leika með okkur barnabörnunum. Árið 1999 fór ég einn til Gautaborgar í heimsókn og var sú ferð mjög eftirminnileg og skemmtileg. Kannski kynntist ég afa best þar, því þá höfðum við góðan tíma saman og kynntumst hvor öðrum betur. Við spiluðum golf saman í þeirri ferð og áttum góð samtöl við morgunverðarborðið og á rölti niður í bæ, þegar hann sýndi mér þá staði sem ég hafði heimsótt með honum þegar ég var yngri. Eftir þetta átti afi eftir að koma í nokkrar heimsóknir til Íslands.

Sú síðasta var árið 2014, þegar hann kom til að fylgja Helgu systur sinni til hinstu hvílu. Ekki vissi ég þá að þetta væru mínar síðustu stundir í návist hans. Þó átti ég eftir að eiga fleiri samtöl við hann í síma, enda hringdi hann alltaf á aðfangadag til að óska mér til hamingju með afmælið og óska gleðilegra jóla. Ég er mjög þakklátur fyrir að afi fékk tækifæri til að hitta tvo elstu drengina okkar Ragnheiðar, en hann færði þeim úr, í síðustu heimsókn sinni árið 2014, sem verða vel geymd um ókomna tíð.

Nú er runnin upp sú stund sem ekki er hægt að venjast né verjast. Að kveðja afa verður erfitt, því þrátt fyrir margar góðar og skemmtilegar minningar um afa minn, sem ég er Guði óendanlega þakkátur fyrir, þá eru svo margar stundirnar, sem maður óskar að hefðu orðið, en ekki gafst tækifæri til að eiga með honum. Minningarnar munu ylja mér um ókomna tíð. Blessuð sé minning afa míns.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Haukur Örn Davíðsson.