Þorvaldur Örn Árnason
Þorvaldur Örn Árnason
Eftir Þorvald Örn Árnason: "Margir taka ákvörðun um að fara í hvalaskoðun áður en þeir koma til Íslands og á hvalaskoðun sinn þátt í að ferðamenn koma hingað."

Hvalaskoðun er blómstrandi atvinnustarfsemi meðan hvalveiðar dragast saman. Hvalaskoðunarferðir með leiðsögn hófust við Ísland árið 1995 og fóru þá um 2.200 manns í hvalaskoðun en á árinu 2003 er fjöldinn orðinn um 72.000 og kominn vel yfir 100.000 árið 2008. Margir taka ákvörðun um að fara í hvalaskoðun áður en þeir koma til Íslands og á hvalaskoðun sinn þátt í að ferðamenn koma hingað.

Námskeið

Sumarið 1995 héldu Marc Carwardine og Alison Smith frá The Whale & Dolphin Conservation Society (WDC) í Englandi þriggja daga námskeið í hvalaskoðun fyrir atbeina Ferðamálasamtaka Suðurnesja og Jóhanns D. Jónssonar ferðamálafulltrúa. Bresku samtökin kostuðu námskeiðið. Í tvo daga var kennt innan dyra og þriðja daginn farin hvalaskoðunarferð frá Sandgerði og Keflavík. Þátttakendur voru 20 og komu frá Keflavík, Sandgerði, Höfnum, Grindavík, Kópavogi, Reykjavík, Vogum, Ólafsfirði, Dalvík, Húsavík, Ísafirði og Vestmannaeyjum.

Nokkrir þátttakenda voru þá byrjaðir með hvalaskoðun, t.d. frá Hornafirði (Glacier Tours á 150 tonna humarbáti), Grindavík og menn voru að byrja við Eyjafjörð.

Ég var á þessu námskeiði, fannst það vandað og vel uppbyggt, enda bjuggu Bretarnir að mikilli reynslu og fagmennsku. Það bar þó þann skugga á að forstjóri Hafrannsóknastofnunar hafði neitað þeirri bón að styðja þetta framtak með því að leggja til sérfræðing sem myndi fjalla sérstaklega um hvali við Ísland. Ferðamálastjóri studdi framtakið í orði en þó ekki í verki.

Framtíðarsýn

Þetta er til marks um að á þessum tíma sáu menn á hærri stöðum þjóðfélagsins ekki að hér stefndi í umfangsmikinn og gjöfulan atvinnuveg. Menn veðjuðu frekar á hvalveiðar og álitu hvalaskoðun vera fyrir lítinn hóp sérvitringa, enda var náttúruverndarfólk almennt litið þannig augum á þessum tíma. Það eru aðeins 22 ár síðan!

Árið 1995 var hvalaskoðun orðin atvinnuvegur í 50 löndum og tók helmingur þeirra landa þátt í the International Whaling Commission (IWC). Á ári hverju fóru milljónir manna í hvalaskoðun, flestir frá Bandaríkjunum, og jókst þátttakan um 10% á ári.

Námskeið í Keflavík er það fyrsta sem haldið er í hvalaskoðun á Íslandi. Því vil ég koma þessu á framfæri ef það gæti hjálpað til við að skýra hvers vegna hvalaskoðun hér á landi tók mikinn kipp á þessum tíma og hefur blómstrað allar götur síðan.

Frétt er um námskeiðið í DV 21. júní 1995: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2729374

Náttúruverndarsinninn Mark Carwardine

Í frétt frá Norðursiglingu á Húsavík 4. júlí 2011 er viðtal við Mark Carwardine þar sem m.a. er minnst á námskeiðið í Keflavík. http://www.nordursigling.is/frettir/nr/2698/vidtal-vid-mark-carwardine-dyrafraeding-og-natturuverndarsinna/

Ég enda þessa grein á glefsum úr því viðtali.

„Fyrsta hvalaskoðunin hans á Skjálfandaflóa var árið 1995 og hann minnist í þeim efnum á mynd, sem tekin var af honum og Herði Sigurbjarnarsyni, stofnanda Norðursiglingar, og Ásbirni Björgvinssyni, þáverandi forstöðumanni Hvalasafnins á Húsavík, um borð í Knerrinum í árdaga hvalaskoðunarinnar.

Mark kynntist Heimi vorið 1995 í Keflavík þar sem hann fór fyrir námskeiði um hvalaskoðun og hvernig skuli koma á fót hvalaskoðunarfyrirtæki. Námskeiðið stóð yfir í þrjá daga og var þá rætt um mismunandi hvalaskoðunarfyrirtæki víðs vegar í heiminum, hvaða fyrirkomulag gæti hentað hér á Íslandi, hvaða hvalategundir er að finna við Íslandsstrendur og margt fleira.

Mark man ennþá eftir brennandi áhuga Heimis á öllu sem tengdist hvölum og hvalaskoðun og segir að frá þeim tíma, þegar engin hvalaskoðunarfyrirtæki voru á Íslandi, og til dagsins í dag, þegar níu fyrirtæki eru rekin vítt og breitt um landið, hafi svo sannarlega mikið breyst, en Mark ítrekar að Norðursigling hafi allt frá byrjun verið leiðandi í skipulagningu og framboði á góðum hvalaskoðunarferðum.“

Það var Norðursigling sem hafði samband við hann að þessu sinni og bað hann að koma og leggja alþjóðlegt mat á starfsemina, bera saman við önnur lönd og sjá hvernig fólki gengur, tala við leiðsögumennina.

„Og ég er virkilega hrifinn, þetta er frábær starfsemi, í hæsta gæðaflokki og á heimsmælikvarða.“... „Ég byrjaði á að vinna fyrir World Wildlife Fund í Englandi og svo fyrir samtökin The World Conservation Union í Sviss. Einnig hef ég unnið hjá Sameinuðu þjóðunum í Kenýa og Pakistan en eftir það fór ég að vinna sjálfstætt og hef gert það síðan, eða í tuttugu ár.“... „Í augnablikinu er ég, ásamt [breska leikaranum] Stephen Fry, að vinna að sjónvarpsþáttaröð í samstarfi við BBC, þar sem við förum með áhugasamar Hollywoodstjörnur á borð við Clint Eastwood (en hann er mikill áhugamaður um hvalaskoðun) og Leonardo Dicaprio í leiðangra til þess að kynna fyrir þeim dýravernd. Með því að vinna með Stephen Fry náum við til breiðs áhorfendahóps, en það er mjög mikilvægt að vekja athygli fólks á þessum málum.“

Aðspurður um framtíðina segir hann sína stærstu ósk þá að stjórnmálamenn vakni til vitundar og geri sér grein fyrir að dýravernd er mjög mikilvægt málefni sem skiptir fólk, ekki síður en aðra á jörðinni, máli. Að dýravernd er annað og meira en nokkrir friðelskandi hippar í sandölum.

P.s. Minnst er á Mark í grein í Morgunblaðinu 1. júní 1997: www.mbl.is/greinasafn/grein/334812

Höfundur er líffræðingur á eftirlaunum.