Lögreglan í Danmörku ákærði í gærmorgun 1.005 ungmenni fyrir dreifingu barnakláms. Um er að ræða tvö myndskeið og eina ljósmynd, en svo virðist sem ungmennin hafi sent þau einkum áfram í samskiptaforritinu Facebook.

Lögreglan í Danmörku ákærði í gærmorgun 1.005 ungmenni fyrir dreifingu barnakláms. Um er að ræða tvö myndskeið og eina ljósmynd, en svo virðist sem ungmennin hafi sent þau einkum áfram í samskiptaforritinu Facebook.

Tildrög málsins eru þau að í mars 2015 ákvað 15 ára stúlka, sem nefnd hefur verið Sofie í dönskum fjölmiðlum, að sofa hjá jafnaldra sínum. Að samförunum loknum birtust fjórir vinir piltsins óvænt og réðust á hana á ósæmilegan hátt. Var árásin tekin upp og fóru myndböndin í kjölfarið í almenna dreifingu á netinu, en vegna ungs aldurs stúlkunnar var litið á málið sem barnaklámsmál.

Rannsókn málsins hófst þegar forsvarsmenn Facebook tóku eftir því að sömu myndskeiðin væru að dreifast ört á milli fólks. Gerðu þau lögregluyfirvöldum í Bandaríkjunum viðvart, sem sendu upplýsingarnar áfram til dönsku lögreglunnar. Það er til marks um hina miklu dreifingu sem efnið fékk, að ákærurnar ná til ungmenna í 11 af 12 lögregluumdæmum Danmerkur. Lau Thygesen, varðstjóri hjá lögreglunni í Norður-Sjálandi og stjórnandi rannsóknarinnar, sagði í fréttatilkynningu frá lögreglunni að málið væri mjög umfangsmikið og flókið. Það hefði tekið langan tíma í rannsókn, ekki síst vegna þess hversu margir hefðu legið undir grun. „Við litum málið mjög alvarlegum augum, ekki síst vegna þess að það hefur miklar afleiðingar fyrir þá sem málið varðar þegar svona efni dreifist. Og það verður að stöðva.“