Jóhannes Gunnarsson fæddist í Reykjavík 3. október 1949. Hann lést á heimili sínu 6. janúar 2018.

Foreldrar hans voru Gunnar Jóhannesson póstfulltrúi, f. 20. júlí 1905 í Helgafellssveit á Snæfellsnesi, d. 26. janúar 1990, og Málfríður Guðný Gísladóttir húsmóðir, f. 18. október 1911 í Krossgerði á Berufjarðarströnd í Suður-Múlasýslu, d. 22. apríl 1996.

Systkini Jóhannesar eru Gísli Gunnarsson, fv. prófessor, f. 1938, Vilborg, fv. póstútibússtjóri, f. 1941, Guðfinna, fv. hjúkrunarfræðingur, f. 1943, Skarphéðinn, fv. framkvæmdastjóri, f. 1946, Guðbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 1948, Þóra Guðný skrifstofustjóri, f. 1954.

Jóhannes var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans er Magnea Móberg Jónsdóttir, f. 1. nóvember 1949. Seinni eiginkona Jóhannesar er Sigþrúður Sigurðardóttir, f. 9. október 1952.

Börn Jóhannesar eru: 1) Sigrún Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur í Svíþjóð, f. 8. nóvember 1970, eiginmaður hennar er Einar Benediktsson rafvirki, f. 11. mars 1969. Börn þeirra eru Bára, f. 31. júlí 1991, Ólöf Ósk, f. 28. október 1995, Jón Ingvi, f. 1. ágúst 2000, Jóhannes, f. 16. ágúst 2003. 2) Lilja Guðný Jóhannesdóttir framhaldsskólakennari í Neskaupstað, f. 9. október 1972, eiginmaður hennar er Eysteinn Þór Kristinsson deildarstjóri, f. 26. nóvember 1964. Börn þeirra eru Stefán Þór, f. 19. mars 1987, Maríus Þór, f. 10. mars 1994, Jón Þór, f. 10. ágúst 1994, Eysteinn, f. 26. apríl 2002, Bergur f. 26. apríl 2002, Ýmir, f. 1. ágúst 2007. 3) Erla Helga Sveinbjörnsdóttir læknaritari, f. 29. desember 1971. Börn hennar eru Birgir, f. 24. september 1994, Unnur Elva, f. 7. júní 1998, Heimir Smári, f. 26. júlí 2000, Sigþrúður, f. 10. janúar 2006, Lena Margrét, f. 2. janúar 2009. 4) Gunnar Jóhannesson, sóknarprestur í Noregi, f. 28. maí 1977. Eiginkona hans er Védís Árnadóttir, f. 7. mars 1977. Börn þeirra eru Sölvi Gunnarsson, f. 24. ágúst 2002, Snorri Gunnarsson, f. 3. janúar 2005, Hugi Gunnarsson, f. 20. nóvember 2008, Hildur Gunnarsdóttir, f. 29. október 2010. 5) Elín Eir Jóhannesdóttir skrifstofumaður, f. 4. maí 1979. Eiginmaður hennar er Brynjar Örn Áskelsson húsasmiður, f. 28. ágúst 1975. Börn þeirra eru Harpa Sólveig, f. 15. apríl 1997, Arnar Daði, f. 30. desember 2003, Íris Lilja, f. 3. maí 2009.

Jóhannes hóf nám í mjólkurfræði við Mjólkurstöðina í Reykjavík árið 1966. Síðar nam hann á Sjálandi í Danmörku og útskrifaðist þaðan sem mjólkurfræðingur árið 1970. Hann stundaði framhaldsnám í Óðinsvéum og útskrifaðist þaðan árið 1971 með réttindi mjólkurbússtjóra. Einnig starfaði hann við Höjby Mejeri á Fjóni og sérhæfði sig þar í ostagerð. Jóhannes starfaði við Mjólkurbú Flóamanna frá 1972 til 1973. Frá 1973 til 1975 var hann mjólkurbússtjóri í Neskaupstað. Frá 1975 til 1980 starfaði hann við mjólkursamlagið í Borgarnesi sem ostagerðarmeistari. Frá 1980 til 1990 starfaði Jóhannes sem útgáfustjóri Verðlagsstofnunar. Jóhannes gekk í stjórn Neytendasamtakanna árið 1978. Hann varð varaformaður samtakanna 1982 og formaður þeirra frá 1984 til 1996 og aftur frá 1998 til 2016. Jafnframt var Jóhannes framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna frá 1990 til 1998. Jóhannesi voru falin margvísleg trúnaðarstörf og sat hann í mörgum stjórnum og nefndum. Jóhannes vann ýmis trúnaðarstörf fyrir Mjólkurfræðingafélag Íslands frá 1973 til 1980. Hann var í stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana (SFR) frá árinu 1984 til ársins 1990 og sat í ýmsum nefndum á vegum þess og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) á sama tíma. Jóhannes starfaði fyrir Alþýðubandalagið fram til 1993 og sat m.a. í framkvæmdastjórn þess frá árinu 1985 til ársins 1987. Ótalin eru hér margvísleg trúnaðarstörf, ráð, stjórnir og nefndir sem Jóhannes sat í vegna starfa sinna fyrir Neytendasamtökin í hartnær fjóra áratugi. Jóhannes var gerður að heiðursfélaga Neytendasamtakanna árið 2017.

Útför Jóhannesar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 16. janúar 2018, klukkan 13.

Elskulegi pabbi minn.

Hvað getur maður sagt og hvað getur maður gert? Ég vildi óska þess að við hefðum fengið lengri tíma, þú vildir það svo mikið. Þú varst svo spenntur fyrir allskonar sem framundan var. Í sameiningu ætluðum við okkur margt. Þú varst stoð mín og stytta og ég reyndi að vera það sama fyrir þig. Lífið bauð okkur upp á ýmis verkefni, alltaf vorum við sterk heild og héldum ótrauð áfram. Þú varst svo mikill vinur allra, náðir að snerta alla í kringum okkur og samferðafólk þitt alls staðar að.

Tómarúmið sem hefur myndast mun aldrei verða fyllt, söknuðurinn er svo sár. Hver ráðleggur núna, fer yfir færð á vegum, spilar kana, rommý, jafnvel nýtt spil nú um jólin, Besserwisser. Þú og sú yngsta á heimilinu saman í liði og sú var stolt af afa sínum sem vissi öll svörin, sama hversu furðulegar spurningar voru, þú bara vissir.

Þú lést ekki mikið á þig fá að þurfa aðstoð vegna lungnasjúkdómsins, reyndir að gera allt sem í boði var og vildir alls ekki láta þig vanta á neina staði. Sem sýndi sig daginn sem þú fórst, aðeins fyrir örfáum óraunverulegum dögum. Þú ætlaðir sannarlega að ganga í gegnum ákveðið verkefni með okkur fjölskyldunni eftir annað sviplegt fráfall fyrrverandi mágkonu þinnar, þú varst alltaf til staðar, fyrir alla.

Að fara á tónleika með þér, í ferðalög, horfa á fólkið þitt spila íþróttir, tala um vinnuna, pólitík, heimsmálin, elda góðan mat, fá okkur ketilkaffi á morgnana. Þetta verður allt svo erfitt án þín. En ég veit að þú vilt hafa okkur sterk og það munum við reyna.

Minning þín mun alltaf lifa um alla ókomna tíð, við getum sagt endalausar sögur um þig sem verða rifjaðar upp öllum stundum.

Þar til síðar, hvíl í friði elsku pabbi minn.

Þín

Elín Eir.

Elskulegur tengdafaðir.

Takk fyrir allt það sem þú hefur kennt mér, það er meira en nokkurn grunar hvað þú hefur haft mikil og góð árhrif á mína lífssýn og mitt líf, þú verður ávallt ofarlega í mínum huga. Það myndast stórt skarð í líf okkar fjölskyldunnar án þín, þín verður sárt saknað.

Síðasta heimsóknin heim til þín átti ekki að vera svona, ég og dóttir mín ætluðum einungis að kíkja inn hjá þér og taka létt spjall með þér. Því miður náðum við því ekki. Engu að síður var ótrúlega mikil ró í kringum þig eins og þér einum var lagið að hafa hlutina.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Hvíldu í friði

Brynjar Örn Áskelsson.

Afi Jóhannes.

Þú varst manneskja sem ég gat alltaf treyst. Hugljúfastur allra og gerðir aldrei upp á milli manna, þú varst einstakur maður. Mannkostir þínir voru svo margir og mun ég gera mitt allra besta til þess að fara eftir þínum lífsgildum. Þú fórst allt of snemma frá okkur, en ég trúi því og treysti að þú sért kominn á betri stað núna og ég er sannfærð um það að einn daginn munum við hittast aftur og ég get sagt þér allar þær sögur sem þú vilt heyra. Síðustu mánuðir sem við áttum saman voru stórfenglegir. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig og við pössuðum svo vel hvort upp á annað.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég fór með ykkur mömmu á heiðurstónleika Neil Young í október síðastliðnum, ég mun aldrei gleyma því hvað þér fannst gaman og þá fannst mér svo gaman. Þú varst svo stoltur að hafa okkur með og innlifunin var svo einlæg. Þú varst svo mikill tónlistarunnandi og minningar þínar munu lifa í tónlistinni. Þetta er ein af þúsundum minninga okkar saman sem ég mun aldrei gleyma.

Hvíldu í friði.

Faðir vor, þú, sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir

svo sem vér og fyrirgefum

vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni,

heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin

að eilífu. Amen.

Ég er og verð alltaf afastelpan þín. Ég elska þig.

Harpa Sólveig Brynjarsdóttir.

Elskulegur bróðir okkar hann Jóhannes er dáinn og langar okkur systur hans að minnast hans í nokkrum orðum. Hann var næstyngstur af okkur sjö systkinum og fyrstur til að fara.

Hann hefur átt við veikindi að stríða undanfarið svo þetta kom okkur ekki alveg á óvart. En við erum aldrei tilbúin.

Hann var elskaður af öllu sínu fólki, bæði nærfjölskyldu sinni og stórfjölskyldu. Bróðir okkar var ekki mikið fyrir það að vera í sviðsljósinu en þegar umræðurnar snerust um neytendamál og pólitík fór hann á flug. Hann var alltaf tilbúinn að leggja öllum lið ef leitað var til hans. Í hans huga var enginn greiði of stór, hvort sem var fyrir hans börn og barnabörn eða okkur systkinin og systkinabörn hans.

Ein saga af bróður okkar þegar hann var drengur.

Eins og gekk til á mörgum heimilum í þá daga voru það gjarnan dæturnar sem þurftu að taka þátt í heimilisstörfum. Eitthvað var mamma farin að íhuga þetta og tók þá ákvörðun að byrja smátt og fyrir valinu varð uppvask. „Handþvottur var skylda fyrir það verk.“ Nú var komið að Jóhannesi. Hann var úti að leika og var kallaður inn til skyldustarfa. Þegar verkinu lauk hlakkaði í strák, sem sagði: „Ha ha, ég þvoði mér ekki um hendurnar áður.“ Þá sagði mamma: „Æi, það var leiðinlegt, nú þurfum við að þvo allt upp aftur.“ Hann reyndi þetta ekki oftar.

Jóhannes var lítillátur og hófsamur og aldrei hampaði hann sjálfum sér á neinn hátt.

Jóhannes hafði yndi af því að ferðast og fórum við systkinin margar ferðir með honum. Nokkrar voru farnar á tónleika en hann hafði mikið yndi af Leonard Cohen og Neil Young.

Elsku bróðir, þín verður sárt saknað af okkur.

Þínar systur

Vilborg, Guðfinna,

Guðbjörg og Þóra.

Elsku besti Jói frændi.

Takk fyrir að hafa verið alltaf til staðar fyrir mig og mína. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa ef þörf var á. Ég er svo þakklát fyrir það að við hittumst milli jóla og nýárs. Elsku frændi, það er svo sárt að kveðja þig í hinsta sinn en minninguna um þig mun ég ávallt geyma.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Elsku Sigrún, Lilja, Gunnar, Elín, Erla Helga og fjölskyldur og aðrir aðstandendur, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, elsku Jói frændi.

Þín

Berglind.

Elsku Jói frændi okkar.

Blessuð sé minning þín. Kveðjan er ótímabær og þyngri en tárum tekur. Það sem fer í gegnum huga minn núna er bara að ég fengi eitt knús frá þér, þar sem ég missti af jólaboði Hagamelsættarinnar, þú kæri frændi spyrjandi hvernig gengi, án allra fordóma, fullur áhuga, skilnings og ástúðar. Það fór ekki framhjá neinu okkar að Jói frændi var einstakur. Ég skrifa hér fyrir hönd okkar þriggja elstu sem þótti svo vænt um þig. Jói, ég las um daginn í dánartilkynningu þinni hvers vegna þú fórst út í feril mannréttinda, ástæðan kom mér svo sem ekki á óvart, elsku frændi minn. Þú nýútskrifaður mjólkurfræðingur og eigandi þessara fjögurra snjöllu jafnt sem yndislegu systra. Þú og þínar góðu systur, elsku frændi minn, hafið markað spor í uppvaxtarár okkar. Og það ber að þakka ykkur öllum hér. Jóhannes frændi okkar var og er litli bróðir uppvaxtarmömmu okkar, sem er amma okkar og besti vinur afa og ömmu. Svo mikils metum við þig, Jói frændi okkar, þú varst gull af manni. Hér minnumst við þín með ást, kærleik og virðingu. Vitandi það að hér misstum við mesta demant ættarinnar.

Við sendum fjölskyldu og öðrum aðstandendum samúðarkveðju.

Guðbjörg, Guðmundur

og Jóhannes Berg.

HINSTA KVEÐJA
Kæri Jóhannes.
Þakklætið er mikið fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Þú komst á handboltaleiki hjá mér þótt þú værir ekki heill heilsu og hafðir gríðarlegan áhuga á því að fylgjast með mér. Það gerir mig svo stoltan og sýnir hversu hjartahlýr og góður maður þú varst.
Hvíldu í friði.
Ómar Ingi Magnússon.