Halldór Jóhann Sigfússon
Halldór Jóhann Sigfússon
EM 2018 Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Helsta áhyggjumálið eftir leikina tvo finnst mér hversu miklar sveiflur eru í leik liðsins.

EM 2018

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Helsta áhyggjumálið eftir leikina tvo finnst mér hversu miklar sveiflur eru í leik liðsins. Það voru tveir langir kaflar í leiknum við Svía þar sem við skoruðum ekki mark og svipað átti sér stað í viðureigninni við Króata, bæði í fyrri og seinni hálfleik,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs FH, spurður um hans mat á frammistöðu íslenska landsliðsins í handknattleik karla á Evrópumeistaramótinu í Króatíu.

„Til þess að fá meira út úr þessu móti verðum við að fækka tæknifeilum. Þeir hafa verið alltof margir í tveimur fyrstu leikjunum og nánast alltaf þeir sömu. Menn hafa verið svolítið í því að rétta andstæðingunum boltann en einnig að bregðast bogalistin í opnum færum. Línumennirnir voru slakir í leiknum við Króata. Á sama tíma voru mennirnir fyrir utan afar góðir,“ sagði Halldór Jóhann sem er ánægður með hversu duglegur Geir Sveinsson landsliðsþjálfari hefur verið að dreifa álaginu á milli leikmanna íslenska liðsins.

Geir hefur aukið breiddina

„Geir hefur aukið breiddina í leikmannahópnum eins og hann hefur spilað úr hópnum í tveimur fyrstu leikjunum. Leikmenn eru klárir á sínum hlutverkum.“

Halldór Jóhann segir að Serbar hafi leikið svipaðan varnarleik og Króatar gerðu gegn Íslendingum. „Serbar hafa ekki á að skipa eins góðu liði og Króatar. Þar af leiðandi tel ég að íslenska liðið eigi mikla möguleika í leiknum annað kvöld [í kvöld]. Serbar eiga það líka til að vera brothættir, ekki síst ef okkur tekst að byrja leikinn af talsverðum krafti þá eru möguleikarnir góðir,“ sagði Halldór Jóhann sem leggur áherslu á að varnarleikur íslenska liðsins verði að vera góður frá fyrstu mínútu.

Þarf hörku frá fyrstu mínútu

„Ef við getum verið fastir fyrir, harðir í horn að taka, frá fyrstu sókn þá fylgir markvarslan með. Þar með er hugsanlegt að serbneska liðið brotni. Okkur hefur oft og tíðum gengið vel gegn Serbum ef við höfum mætt þeim af hörku frá fyrstu mínútu. Líkamlegur styrkur leikmanna á eftir að skipta miklu máli,“ sagði Halldór Jóhann sem sér fram á að íslenska liðið geti náð góðum árangri á mótinu ef það vinnur leikinn við Serba.

„Það hefðu allir tekið því fyrirfram að vinna Serba og Svía en tapa fyrir Króötum.“

Halldór Jóhann segir mikilvægt að þjálfarateymi íslenska liðsins dragi lærdóm af tveimur fyrstu leikjum mótsins með það fyrir augum að fækka þeim einföldu mistökum sem leikmenn hafa gert sig seka um í leikjunum tveimur.

„Við megum ekki færa andstæðingunum boltann á silfurfati hvað eftir annað. Einföldum mistökum eins sendingum sem rata ekki samherja á milli verður að fækka auk þess sem skilyrði er að nýta betur opin færi sem gefast bæði af línunni og eins úr hornum. Eins verðum við að nýta betur þá stöðu sem kemur upp þegar við verðum manni fleiri,“ segir Halldór Jóhann sem kallar eftir meiri hreyfingu hjá línumönnum íslenska liðsins og einnig að breiddin sé betur nýtt til þess að opna færi fyrir hornamennina.

Möguleikarnir eru fyrir hendi. Við verðum að halda dampi á þeim tíma, við höfum leikið vel í þessari keppni,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon.