Maður í Reims, höfuðstað kampavínsins í Frakklandi, blæs í tæki sem hindrar hann í að ræsa bíl sinn mælist vínandi í andardrætti hans.
Maður í Reims, höfuðstað kampavínsins í Frakklandi, blæs í tæki sem hindrar hann í að ræsa bíl sinn mælist vínandi í andardrætti hans.
Franska stjórnin birti nú í ársbyrjun áform um aðgerðir í 18 liðum sem ætlað er að draga úr akstri undir áhrifum áfengis, hraðakstri og símanotkun undir stýri, svo nokkur áformanna séu nefnd.

Franska stjórnin birti nú í ársbyrjun áform um aðgerðir í 18 liðum sem ætlað er að draga úr akstri undir áhrifum áfengis, hraðakstri og símanotkun undir stýri, svo nokkur áformanna séu nefnd.

Edouard Philippe forsætisráðherra, sem sjálfur var sviptur ökuréttindum fyrir hraðakstur árið 2015, segir aðgerðirnar eiga að fækka slysum. Í því skyni verður hámarkshraði á um 400.000 kílómetrum af þjóðvegum lækkaður úr 90 í 80 km/klst. hinn 1. júlí næstkomandi.

Talið er að hraðalækkunin muni stuðla að fækkun dauðsfalla á vegunum um 350-400, en um er að ræða einbreiða þjóðvegi án girðinga milli akreina. Tíðni umferðarslysa í Frakklandi er yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna (ESB) og er slysatíðnin lægri á Möltu, í Svíþjóð, Bretlandi, Hollandi, Danmörku, Írlandi, Spáni, Þýskalandi, Finnlandi, Slóvakíu og Eistlandi, að sögn frönsku hagstofunnar, INSEE.

Meðal aðgerðanna er að bílar þeirra sem aka ölvaðir verða gerðir upptækir eftir annað brot. Geta eigendurnir því einungis endurheimt þá að þeir undirgangist læknisskoðun og komið verði fyrir í bílnum áfengismælingarbúnaði er kemur í veg fyrir ræsingu vélarinnar nemi hann vínanda í lungnaloftinu.

Kærir sig kollóttan

Þá verða þeir sem aka undir áhrifum lyfja eða með meira áfengi í blóðinu en 0,8 milligrömm sviptir bílum sínum í heila viku. Sóknin gegn notkun farsíma á ferð verður einnig hert. Fær lögregla vald til að svipta ökumenn sem fremja akstursbrot meðan þeir eru í símanum ökuleyfinu á staðnum.

Samkvæmt skoðanakönnun telja tveir þriðju aðspurðra að hraðalækkunin snúist frekar um fjáröflun ríkissjóðs en björgun mannslífa. Forsætisráðherrann Edouard Philippe styður lækkun hámarkshraðans og segist óhræddur við að tapa einhverjum vinsældum vegna þess verði breytingin til þess að fækka banaslysum. „Það deyja 3.500 manns á vegunum ár hvert og 70.000 slasast, já 70 þúsund. Eftir framfarir í áratugi hefur þróunin snúist aftur til hins verra. Ég neita að taka því sem gefnum hlut,“ sagði Philippe í blaðaviðtali.

Árið 2013 biðu 3.268 manns bana á frönskum vegum og hafa aldrei verið færri. Í millitíðinni hefur manntjónið aukist á ný og nam tæplega 3.500 dauðsföllum á nýliðnu ári. Til samanburðar fórust 1.792 manns í umferðinni í Bretlandi í fyrra.

Hættið nöldrinu

Heitar umræður hafa verið um aðgerðirnar og leggjast hagsmunasamtök franskra bifreiðaeigenda, 40 millions d'automobilistes, gegn hraðalækkuninni. Máli sínu til stuðnings benda þau á tilraunir í Danmörku. Þar var hámarksökuhraði aukinn úr 80 í 90 km á hluta vegakerfisins með þeim árangri að dauðsföllum fækkaði um 13% á tveimur árum.

Blaðið le Parisien gagnrýnir bíleigendur í umfjöllun um umferðarátakið nýja. „Til eru meiri vælukjóar en Frakkar, en það eru franskir bíleigendur,“ segir blaðið. Segir það tölfræði um slys og dauðsföll tala sínu máli um nauðsyn aðgerða. Hraði, athyglisbrestur, áfengi og lyf skýri slysin flest. „Vissulega leysir það ekki allan vandann að minnka hámarkshraðann úr 90 í 80. En hvert eitt slys sem komið verður í veg fyrir er sigur. Látum því af nöldrinu... og hægjum ferðina líka,“ segir le Parisien.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Höf.: Ágúst Ásgeirsson