[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um 10,5% milli ára 2016 og 2017. Þær voru um 178 milljarðar í fyrra en rúmur 161 milljarður 2016.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um 10,5% milli ára 2016 og 2017. Þær voru um 178 milljarðar í fyrra en rúmur 161 milljarður 2016.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga um staðgreiðslu útsvars árin 2016 og 2017. Útsvarið er reiknað sem hlutfall af tekjum manna, öðrum en fjármagnstekjum. Það hefur skilað stigvaxandi tekjum á síðustu árum. Þannig skilaði útsvarið tæpum 125 milljörðum 2013 en um 178 milljörðum í fyrra. Það samsvarar 43% aukningu á nafnvirði.

Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs um 7,3% milli ára 2013 og 2017. Er þá reiknað með meðaltali vísitölunnar bæði árin. Samkvæmt þessu hækkaði útsvarið um tæp 36% að raunvirði 2013 til 2017. Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, segir aukninguna hjá sveitarfélögunum milli ára 2016 og 2017 vera í takt við hækkandi laun í landinu.

Í takt við hækkun launa

Útsvar allra sveitarfélaga skilaði sem áður segir 10,5% meiri tekjum 2017 en 2016. Til samanburðar hækkaði vísitala launa um 7,1% milli nóvember 2016 og nóvember 2017. Tölur fyrir desember 2017 hafa ekki verið birtar á vef Hagstofunnar.

Sigurður bendir á að við þennan samanburð milli ára miðist útsvar í desember 2017 við greidd laun í nóvember 2017. Myndin muni ekki skýrast endanlega fyrr en tölur um útsvarstekjur í janúar 2018 birtast og útsvarstekjur utan staðgreiðslu.

Hann segir aðspurður að þrátt fyrir þetta fari tölurnar býsna nærri lagi um að segja til um aukninguna.

Sem vænta má hafði stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, mestar tekjur af útsvari árið 2017. Þær voru tæpir 67 milljarðar króna sem var um 41% meira en 2013 og 10,4% meira en 2016. Næst stærsta sveitarfélagið, Kópavogur, var í öðru sæti. Þar voru útsvarstekjurnar um 19,6 milljarðar króna í fyrra. Það var 50,4% meira en 2013 og 10,6% meira en 2016. Tekið skal fram að tölur hvers árs eru hér bornar saman á nafnvirði, án tillits til verðbólgu.

Mest aukning suður með sjó

Þegar listi yfir 20 fjölmennustu sveitarfélögin er skoðaður kemur í ljós að útvarstekjurnar hafa aukist hlutfallslega mest í Reykjanesbæ. Útsvar skilaði 8,4 milljörðum króna í fyrra, eða 71,5% meira en 2016 og 19,8% meira en 2013. Það er í báðum tilvikum mesta aukning milli tímabila. Aukningin endurspeglar mikla fjölgun íbúa í Reykjanesbæ.

Útsvarstekjur sveiflast í takt við atvinnuástand og launaþróun. Þá hefur íbúafjöldinn auðvitað áhrif.

Sigurður segir aðspurður það vera hlutfallslega mikla aukningu að útsvarstekjur allra sveitarfélaga skuli hafa aukist um 43% frá 2013. Sú þróun vitni um efnahagsbatann.

„Þetta er fyrst og fremst breyting í undirliggjandi tekjum milli ára. Álagningarhlutfallið hefur lítið breyst,“ segir Sigurður.

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52% en lægst 12,44%. Vegið meðaltal útsvarsprósentu var 14,44% í fyrra, 14,45% árið 2016 og 14,42% árið 2013.