[mynd af íslenskum seðlum, seðlabúntum]
[mynd af íslenskum seðlum, seðlabúntum]
Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins, er haldinn í dag með fundi um eitt og annað sem tengist sköttum. Vonandi verður þessi dagur til góðs fyrir almenning og atvinnulíf, ekki væri vanþörf á.

Skattadagur Deloitte, í samstarfi við Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins, er haldinn í dag með fundi um eitt og annað sem tengist sköttum.

Vonandi verður þessi dagur til góðs fyrir almenning og atvinnulíf, ekki væri vanþörf á.

Skattar eru allt of háir hér á landi og hafa lítið lækkað frá því að þeir náðu hæstu hæðum í tíð vinstristjórnarinnar á árunum 2009 til 2013.

Það er með ólíkindum að landsmenn skuli enn sitja uppi með megnið af skattahækkunum vinstristjórnarinnar þó að nú sitji þriðja ríkisstjórnin frá því að sú skattaglaða var hrakin frá völdum við lítinn orðstír.

Óskandi er að óheillaþróun í skattamálum hér á landi og hægagangur í að vinda ofan af ofursköttunum verði til umræðu á skattafundi skattadagsins, en í dagskránni er raunar ekkert að sjá sem bendir til þess.

Það er þess vegna hætt við að skattadagurinn verði ekki til að stuðla að lækkun skatta, brýnasta verkefninu á sviði skattamála og að minnsta kosti einu því brýnasta á sviði stjórnmálanna.

Vonandi verður tækifærið þó notað til að ræða það sem máli skiptir í sambandi við skattana og þá gæti jafnvel komið að því að skattadagar almennings yrðu ögn bærilegri, en eins og skattlagningu er háttað á Íslandi í dag má segja að allir dagar séu skattadagar.