Hér sjást kynslóðirnar þrjár af Duster hingað til saman komnar og þróunin blasir við svo ekki er um að villast. Duster er á góðri leið og verði haldið áfram á sömu braut er framtíðin björt.
Hér sjást kynslóðirnar þrjár af Duster hingað til saman komnar og þróunin blasir við svo ekki er um að villast. Duster er á góðri leið og verði haldið áfram á sömu braut er framtíðin björt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
+ Vel búinn bíll á fantagóðu verði – Það er ennþá allt í plasti að innan

Þegar rúmenski bílaframleiðandinn Dacia hóf að bjóða bíla fyrir fáeinum árum á sérlega hagstæðu verði þóttust margir hafa himin höndum tekið, ekki síst með tilliti til jeppans Duster. Dusterinn var afskaplega billegur til kaups, veghæðin mikil og bílinn vel fallinn til ferða bæði utan vega sem innan.

Sá böggull fylgdi engu að síður skammrifi að Duster þótti helst til óspennandi, bæði að útliti, innanrými, búnaði og hvað aksturseiginleika varðaði. Það var á sinn hátt í takt við lágt verðið og margir létu sér það vel líka. Maður fékk jú réttilega fyrir peninginn, einfaldan og dugandi bíl án alls munaðar.

Mikil breyting til batnaðar

Nú er öldin önnur og nýr Duster, þriðja kynslóð hans nánar tiltekið, hefur litið dagsins ljós. Hér kveður við talsvert annan tón en verið hefur og bíllinn allur í áttina, vægt til orða tekið. Þetta fékk blaðamaður að reyna er bíllinn var tekinn til kostanna í Grikklandi fyrir skemmstu, nánar tiltekið í höfuðborginni Aþenu og nærsveitum hennar.

Útlitslega tekur hann hófstilltum breytingum, ætternið leynir sér ekki og svipurinn sá sami. Engu að síður er eitt og annað þó nýstárlegt þegar að er gáð. Framgrillið er nútímalegra, afturljósin eru gerbreytt (minna núorðið ekki lítið á ljósin á Jeep Renegade) og svo mætti telja áfram. Lagfæringar í rétta átt án þess breyta um of heildarsvipnum, aðdáendaklúbbnum eflaust til léttis. En LED-ljós, 17 tomma felgur og fleira í þeim dúr gefa honum óneitanlega nýjan og betri svip.

Gerbreyttur að innan

Séu breytingarnar hófstilltar hvað yfirbygginguna varðar þá er innra rýmið gerbreytt. Skipulag, takkar og í reynd öll heila framsetningin hefur tekið stakkaskiptum til hins betra og núorðið er ekki margt sem minnir á hinn hnappa (og heldur óaðlaðandi) stíl innandyra í Dusterum fyrri ára. Það er bara prýðilegt um að litast í nýjum Duster, þó að efnisvalið sé eftir sem áður með ódýrara móti; hér er plast í öllu og það er svo sem skiljanlegt. Það þarf að fórna nappa-leðri, mahóníviði og burstuðu stáli til að geta boðið þetta góðan bíla á svona fínu verði. Það væri hreint glórulaust að fórna samkeppnisstöðu hans á markaði og hækka um verðflokk eða tvo bara til að geta boðið lúxus-innréttingu.

Plássið er fínt fyrir þá sem frammí sitja en fótarýmið er heldur knappara í aftursætinu. Talandi um sæti þá hafa þau breyst töluvert til batnaðar eins og annað og það er prýðilegt umhorfs að innan í þessum bíl.

Farangursrými í skottinu hefur reyndar dregist örlítið saman síðan síðast en er engu að síður 411 lítrar. Það sleppur alveg.

Góður á malbiki sem og möl

Það fyrsta sem ökumaður verður var við þegar ekið er af stað í hinum nýja Duster er að búið er að einangra bílinn miklu betur en áður var. Fyrri gerðir bílsins liðu talsvert fyrir vélar- og veghljóð sem barst nánast óhindrað inn í farþegarýmið, viðstöddum til afskaplega takmarkaðrar gleði. Nú er allt annað uppi á teningnum og fyrir bragðið fer bara ansi hreint vel um ökumann og farþega. Fjöðrunin er betri og stýringin sömuleiðis. Allt í allt er Duster orðinn hinn boðlegasti bíll og ætti að sækja enn frekar í sig veðrið á næstu mánuðum og misserum hvað söluna varðar.

Tvímælalaust góð kaup

Dacia Duster hefur tekist hið ólíklega, að taka hreinum og klárum stakkaskiptum til hins betra hvað gæði, útlit og akstur áhrærir, án þess að verðið stökkbreytist um leið á verri veg. Það þýðir í stuttu máli að bíll sem fól í sér góð kaup, þegar horft var til hlutfalls milli verðs og bílsins sem þú fékkst fyrir peninginn, felur núna í sér feikna góð kaup. Síðasta kynslóð Dacia Duster kostaði þannig frá 3.450.000 krónum, en sá nýi, með öllum sínum kostum og kynjum, kostar frá 3.690.000 krónum. Munur þarna á milli er mun meiri en sem nemur 240.000 krónum og að fá röskan jeppa, jafnvel búinn og raun ber vitni, undir fjórum milljónum er bara býsna góður díll. Það mun fjölga í aðdáendaklúbbnum á næstu mánuðum og misserum.