Strætó Ferðum strætó fjölgaði á árinu og vonast borgarmeirihlutinn í Reykjavík til að fleiri nýti sér þann farkost.
Strætó Ferðum strætó fjölgaði á árinu og vonast borgarmeirihlutinn í Reykjavík til að fleiri nýti sér þann farkost. — Morgunblaðið/Hari
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, telur samning Reykjavíkurborgar og ríkisvaldsins um árlegt eins milljarðs króna framlag ríkisins til samgöngubóta hafa verið mikilvægan. Eyþór Arnalds, frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skrifaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann sagði að ákvörðun Reykjavíkurborgar að nýta féð í strætóferðir frekar en nauðsynlegar framkvæmdir á stofnbrautum hefði ekki skilað tilsettum árangri.

„Ég tel að þetta hafi verið merkilegur og mikilvægur samningur og held það sé ekkert annað í stöðunni hérna á höfuðborgarsvæðinu en að efla almenningssamgöngur. Allir útreikningar sem liggja að baki bæði aðalskipulagsgerðinni og svæðisskipulaginu sýna það,“ segir Hjálmar og bætir við að þar með sé ekki sagt að það eigi ekki að vera hægt að keyra bíla í borginni. „Þvert á móti; eftir því sem fleiri nota almenningssamgöngur léttist bílaumferðin,“ segir Hjálmar. Spurður hvort hann telji að fjárveitingarnar hafi skilað árangri í að fjölga farþegum strætó segir hann alltaf mega gera betur.

„Auðvitað hefðum við gjarnan viljað sjá miklu meiri aukningu en virðist hafa orðið í almenningssamgöngum. Strætó er nú að bregðast við því með því meðal annars að fjölga ferðum,“ segir Hjálmar og bendir á að leið 1 og leið 6 fari nú á 10 mínútna fresti yfir háannatíma. „Það þýðir að þú getur gengið út að strætó og veist að þú munst ekki bíða meira en sex til sjö mínútur að meðaltali. Í öðru lagi var samþykkt að keyra strætó lengur á kvöldin og svo eru næturvagnarnir byrjaðir að keyra á ákveðnum leiðum.“

Farþegum fjölgar á hverju ári

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir að strætónotendum hafi fjölgað mjög. Strætó notast við fjölda svonefndra innstiga í aðsóknarmælingum sínum. Samkvæmt því fjölgaði ferðum farþega um 4-6% á ári frá árinu 2009. Árið 2012 voru 9,6 milljónir innstiga í strætó en 11,2 milljónir árið 2016. Bráðabirgðatölur fyrir 2017 sýna um 11,6 milljónir ferðir farþega. „Eyþór er að vísa í ferðavenjur sem hafa verið 4% frá 2009. Fólk notar sömu ferðavenjur til að komast til og frá vinnu og í skóla t.d. Sú tala hefur ekkert breyst, en innstigum hefur fjölgað verulega og tekjurnar hafa þá líka aukist verulega. Ferðavenjurnar hafa lítið breyst og það eru svosem ákveðin vonbrigði,“ segir Jóhannes.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, segist afar hlynnt því að árlegi styrkurinn frá ríkinu sé nýttur í almenningssamgöngur og segir að þjónusta Strætó hafi aukist á tímabilinu. „Strætó ekur oftar á háannatíma, leiðum hefur fjölgað og við erum að lengja tímann sem strætó er í akstri,“ segir Líf. „Eyþór segir í greininni að 96% ferðist með fólksbíl en það er ekki rétt, þetta eru bara vitlausar tölur. Það eru rétt rúmlega 70% ferða. Fólk velur sér sífellt fjölbreyttari fararskjóta eins og t.d. reiðhjól, gengur meira eða notar almenningssamgöngur. Þetta er allt að aukast.“ Bendir hún á að áætlað sé að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um 70 þúsund fyrir árið 2040 og því verði að huga að umhverfisvænum almenningssamgöngum. „Allt þetta fólk vill komast á milli staða með öruggum og skjótum hætti. Borgarlínan er bara enn einn fararskjótinn, það er engin bylting í almenningssamgöngum. Byltingin í almenningssamgöngum er fjölbreytnin. Þeir sem þurfa að reiða sig á einkabílinn geti þá það en fjölbreytnin léttir jafnframt á umferðarkerfinu og fólk getur valið sér umhverfisvænan farkost.“