Kveðja afskorið höfuð hvílir á diski broddur orðblárrar tungu snertir kartöfluna laust vanginn flettir ekki lengur upp í brosasafninu rifnir vefirnir fanga ekkert nema vegg sem málstola spyr: hvað vildirðu sagt hafa ungfrú raddlaus?
Kveðja

afskorið höfuð hvílir á diski

broddur orðblárrar tungu snertir kartöfluna laust

vanginn flettir ekki lengur upp í brosasafninu

rifnir vefirnir fanga ekkert nema vegg sem málstola spyr:

hvað vildirðu sagt hafa ungfrú raddlaus?

dúkurinn

drekkur atkvæðalaust blóð

barnið teiknar bros í kringum rústir

(ljóð úr bókinni Kóngulær í sýningarglugga)

„Kristín er eitt fremsta skáld sinnar kynslóðar ... Heimurinn í verkum Kristínar er hennar einnar, og enginn annar skrifar neitt í líkingu við texta hennar. Texta sem getur verið svo undur viðkvæmnislegur og fyndinn í senn, óræður en þó kraftmikill, byggist iðulega á afar persónulegum táknheimi ... göldróttur texti ...“ segir Einar Falur Ingólfsson í bókmenntagagnrýni í Morgunblaðinu um ljóðabókina Kóngulær í sýningarglugga

Á vefsíðunni skald.is segir um Kristínu: Kristín hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey, tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin, sem leikskáld ársins, fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína, hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar sínar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form: myndbönd og skúlptúra. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.