Í gær birtist hér í Vísnahorni bjartsýnislimra eftir Ólaf Stefánsson með þeirri athugasemd hans, að „við göngum hlæjandi mót vorinu, er það ekki, Sigrún?

Í gær birtist hér í Vísnahorni bjartsýnislimra eftir Ólaf Stefánsson með þeirri athugasemd hans, að „við göngum hlæjandi mót vorinu, er það ekki, Sigrún?“

„Jú, þetta er allt í rétta átt, Ólafur,“ svaraði hún:

Innan tíðar fés mitt fer

að falla í réttar skorður

því sæta, gula sólin er

að silast hingað norður.

Fía á Sandi sagðist hafa fundið þessa í dagbókinni og passaði við daginn í dag:

Ljóma svell og lindin auð

og ljósbrot skína í pollum

Vetrarsólin situr rauð

suður á heiðakollum.

Einar K. Guðfinnsson skrifaði á fésbókarsíðu á föstudagsmorgun: „Bjarni Har., móðurbróðir minn, er aftur farinn að láta eldsneytisdælurnar ganga á Króknum; líkt og þær hafa gert frá árinu 1933, eða í um 85 ár. Það er fagnaðarefni og ástæða til að færa þakkir til allra þeirra sem hlut áttu að farsælli lausn. Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra, Sveitarfélagið Skagafjörður og OLÍS. Skagfirskir hagyrðingar láta ekki sitt eftir liggja. Haraldur Sigurðsson á Sleitustöðum kom í búðina hjá Bjarna frænda í morgun og lagði meðfylgjandi vísu á búðarborðið:

Ef þarftu að fylla þitt á kar,

þá ferðu í Norðurbæinn.

Aftur fæst bensín hjá Bjarna Har,

sem býður þér góðan daginn.

Og í kjölfarið mætti Árni Gunnarsson, hagyrðingur og kvikmyndagerðarmaður, en hann gerði skemmtilega og fína heimildarmynd um Verslun Haraldar Júlíussonar og Bjarna Har. sjálfan.

Allt er komið í eðlilegt far,

eftirlitsmaðurinn þagnaður.

Bensínið rennur hjá Bjarna Har.

og bisnessinn alveg magnaður.“

Í kjölfarið bættust við þessar vísur af sama tilefni:

Ólafur Sigurgeirsson:

Vinskapur hefur viðmót hlýtt

svo versla mun ég áfram þar.

Allt er nú sem orðið nýtt:

Eldsneytið og Bjarni Har.

Björn Líndal:

Hann átt hefur ævina langa

er ennþá að seðja hinn svanga.

Hann Bjarni minn Har

á alltaf til svar,

og enn lætur dæluna ganga.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is